01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

131. mál, styrktarsjóður verkalýðsfélaga

Flm. (Þóroddur Guðmundsson) :

Ég hefði ekkert á móti því, að það yrðu lögleiddar víðtækari tryggingar en farið er fram á í þessu frv. En ég álít ekki til bóta að fara að hnoða inn í þetta frv. félögum, sem vinna að líknarmálum almennt. Það er svo mikið álitamál, hvar takmörkin ættu að vera. Hitt finnst mér, að vel gæti komið til mála og ætti mikinn rétt á sér, að styrkja ýmsan félagsskap, sem starfar á líku sviði og þessu, en það er mál út af fyrir sig. Það gildir ekki heldur sama máli um almenna líknarstarfsemi og samtök verkalýðsins. Stundum er það kannske bundið við fundarsamþykkt, hvað gert er við fé í hvert sinn, en ekki farið eftir neinu sérstöku prógrammi. Eitt árið er t. d. ákveðið að verja fé til að prýða kirkju, annað árið til að hjálpa konum að komast í sumarleyfi o. s. frv. Það er bara bundið við fundarsamþykkt og er allt annars eðlis en þetta mál. Styrktarsjóðir verkalýðsfélaga eru þegar starfandi í föstu formi og reynsla komin á um þá. Það er lagt í sjóðina visst framlag, t. d. ein til fimm kr. á mann.