04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2527)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir, að þáltill., sem borin er fram af 15 þm., muni ekki eiga neitt erfitt framdráttar hér á hæstv. Alþ. En í sambandi við þessa þáltill. vildi ég mega beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort þessir hv. þm., sem bera þessa þáltill. fram, hafi hugsað sér framkvæmd þessarar vegagerðar austur yfir fjall, sem þáltill. er stíluð um, þannig, að sú framkvæmd verði, ef í hana verður ráðizt, látin koma á undan og sitja fyrir framkvæmd á lagningu annarra vega um landið, þar sem ekkert er farið að gera fyrir einstök héruð í því efni.

Undanfarin ár hefur verið lagt fé í vegagerðir milli Reykjavíkur og héraðanna fyrir austan fjall, ekki aðeins eins og hægt hefur verið með skynsamlegum hætti að gera, heldur bæði þann veg og líka hefur verið lagt fé í þær vegagerðir langt fram yfir það, sem nokkurt vit er í. Það er kominn bílvegur bæði yfir fjallið milli Reykjavíkur og þessara héraða og svo það, sem komið er af Krýsuvíkurveginum, sem lagður hefur verið af litlu viti, en meira fyrir pólitískan reipdrátt en af skilningi, og það hefur verið framkvæmt þvert ofan í tillögur þeirra manna á sínum tíma, sem vit höfðu á þessu máli. Og ég hef ekki orðið var við það, að síldarmjöl eða áburður hafi verið dýrara til þeirra manna, sem hafa fengið þessar vegabætur, en það er selt hinum, sem verða að reiða þetta heim til sín á klökkum.

Nú er ég ekkert á móti því, að þetta verði rannsakað, sem í þáltill. er lagt til, að rannsakað verði. En ég vil fá að vita, hvernig menn hugsa sér þessa framkvæmd, hvort menn hugsa sér að halda þeirri stefnu, sem hefur átt sér stað hér á landi, að fyrst sé lagt fé í vegi, síðan sé lagt fé fram til þess að brjóta upp þessa vegi og í þriðja lagi til þess að leggja þar vegi, sem vegir eru til, — og þetta allt, áður en farið er að gera ruðningsbrautir fyrir önnur héruð. Ég hef séð það í Borgarfirði, þar sem vegir hafa verið, að nýir vegir eru gerðir og á sama stað brotnir upp gamlir vegir, sem menn í sumum héruðum, sem hafa ekki neina vegi, mundu gráta af gleði yfir að mega hafa hjá sér. Og ég býst við því, að hv. þm. A.-Sk. mundi fagna því að fá einhvern vegarspotta í kjördæmi sitt eins og veginn, sem nú er yfir Hellisheiði.

Hvað við kemur rannsókninni sjálfri, sem í þáltill. greinir, vil ég benda hv. flm. á, að rannsókn hefur þegar farið fram á þessu máli, sem leiddi í ljós, að hvorki ætti að fara Hellisheiði né Krýsuvíkurleiðina með veg austur yfir fjall, sem gera ætti öruggan að vetrinum, heldur um Þrengslin. Það liggur fyrir áætlun um það, hvernig þann veg ætti að leggja, og ummæli vegamálastjóra um það. Þessi leið mundi vera fær allan veturinn. En á þeim tíma, þegar þessi leið var til umræðu sem vetrarleið austur, vildi hæstv. Alþ. ekki sinna því máli að leggja veginn þarna. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um það, að slitlagið á steypta veginum hér austur frá bænum kostaði 1000 kr. lengdarmetrinn fyrir stríð, og mundi nú kosta um 5000 kr. hver m á sams konar vegi þar. Og steypti vegurinn í Hafnarfirði, sem mun vera um 200 m. mun vera búinn að kosta eina og hálfa millj. kr. eða um 7.500 kr. lengdarmetrinn. (EmJ: Hvaðan hefur hv. þm. þessar tölur?) Ég hef þær frá einum bæjarfulltrúanum í Hafnarfirði, og ég ætla, að hann viti það. Hann hefur sagt mér, að það sé búið að leggja í þennan veg á aðra milljón kr. Og hann er ekki tilbúinn enn. Þar að auki hef ég fengið upplýsingar um það, að undirbyggingin undir slitlagið kosti þrefalt á við slitlagið sjálft.

Ég er ekki á móti rannsókn á þessu efni. En ef berja á fram slíkan veg hér á Alþ., þó að nú sé til vegur á þessari leið, meðan önnur héruð eru látin vera alveg vegarlaus, þá þykir mér það einkennileg stefna í vegamálunum almennt skoðað. Hitt væri að mínu áliti eðlilegt, að því væri bætt inn í till., hvort ekki væri réttara að leggja rafmagnsbraut milli Reykjavíkur og Ölfusár.

Vegurinn á Hellisheiði hefur verið malbikaður, og hefur það kostað stórfé. Og þegar hv. flm. talar um, að bærinn hafi verið mjólkurlaus, vegna þess að vegurinn austur hafi teppzt að vetrinum af snjóum, þá vil ég benda honum á, að það er til byggðarlag annars staðar á landinu, þar sem yfir heilan mánuð var ekki hægt að flytja að sér meira en 5 lítra á mann af mjólk, og var það vegna þess, að svo mjög hefur verið skorið við neglur sér framlag til vegagerða þar. Þau börn, sem þar eru, mega sjálfsagt að áliti þeirra manna, sem þessu hafa ráðið, hafa beinkröm og alls konar barnasjúkdóma fyrir það, að enginn skilningur hefur verið á því, að fólkið þar þyrfti að komast í vegarsamband við aðra landshluta. Og þeir bændur, sem þar eiga heima, mega þá líka sjálfsagt að áliti þessara manna svelta af þessum sömu ástæðum. En þegar komið er við hagsmuni þeirra hér austan fjalls, þá lítur út fyrir, að ekki eigi að láta sig muna um það að veita milljónir og jafnvel tugi milljóna til þess að láta þá hafa nýjan veg, þó að vegur til þeirra sé þegar til, meðan aðrar sveitir fá ekki veg, sem þær í raun og veru eiga heimtingu á að fá.

Hv. 1. flm. talaði um það máli sínu til stuðnings, að engin hafnarmannvirki væru á þessum stöðum, sem mundu njóta þessarar vegagerðar, ef til kæmi. Því miður er þetta nú svo. Og mundi það þá ekki vera eins aðkallandi mál að ræða um, hvort ekki væri rétt að gera höfn á þessu svæði, — ekki vegna þess, að það geti komið í staðinn fyrir veg, heldur af því að það er mál, sem hefði átt að ræða miklu fyrr, hvort þetta væri ekki rétt, ekki aðeins fyrir bændur, sem þarna búa fyrir austan, heldur vegna allra landsmanna í heild. En þá er það vanalegt, að 3/5 kostnaðar við slík mannvirki eru greiddir af hlutaðeigandi héraði. Og ef það væri lagt til, að 3/5 kostnaðar af þessari vegarlagningu ættu að koma frá bændunum þarna austan fjalls, þá býst ég við, að fá mætti aðra 15 menn til þess að styðja það, að það yrði rannsakað, hvort ekki væri rétt að ráðast í slíka vegagerð sem þessa, sem hvergi er annars staðar á landinu.

Enn fremur minnist ég þess, að þó að ekki sé um strandferðaskip að ræða, sem flytji til þessara héraða, þá mun hafa verið samþ. ekki óveruleg fjárfúlga til þeirra héraða til Suðurlandsskips, sem talað er um, að notuð sé til styrktar þessum héruðum til bifreiðaflutninga. Það væri kannske alveg eins rétt í þessu efni að nefna þetta réttu nafni. Og enn fremur er veittur styrkur til báts, sem fer milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar, sem kemur ýmsum þessara manna að góðu haldi, sem þarna búa eystra.

Ég vil taka það fram, að ef það kynni að verða ofan á að leggja þennan veg, sem talað er um í þáltill., að rannsókn fari fram um, þá er ég ekki sammála hv. 1. flm. þáltill. um, að halda ætti samt sem áður áfram vegarlagningu um Krýsuvíkurleiðina. Ég sé ekki, hvað sá vegur ætti að gera, ef búið væri að leggja þann veg, sem hér er um að ræða. Ég held, að það sé þegar orðið nægilegt hneyksli fyrir Alþ., hve miklu fé er búið að kasta í þá pólitísku braut, sem lögð hefur verið á Krýsuvíkurleiðinni, þó að framlag til þess vegar sé ekki haft eins og nokkurs konar folald í eftirdragi á eftir þeirri kostnaðarsömu vegargerð, sem hér er á ferð till. um.

Ég vil óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn. Vil ég einnig ítreka þessa fyrirspurn mína, hvort það sé tilgangur þessara hv. þm. að láta fjárveitingu til þessarar vegagerðar, — ef rannsókn sýndi, að viturlegt væri að ráðast í hana, — ganga á undan viturlegum og nauðsynlegum fjárveitingum til vega í þeim héruðum á landinu, sem enn hafa ekki fengið einn vegarspotta.