03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

133. mál, raforkusjóður

Sigurður Thoroddsen:

Af því að ég er í raforkunefnd, langar mig til að greina frá afstöðu minni til málsins.

Það er kunnugt, að Reykjavík, Akureyri og Siglufjörður hafa hafið stórfelldar framkvæmdir og fjár til þeirra framkvæmda hefur verið aflað á sama hátt og ætlazt er til með þessu frv. Ef farin er þessi leið, getur það dregið frá nauðsynlegum framkvæmdum, byggingum og þess háttar. Þetta frv. miðar að því að taka fé úr umferð. Afleiðingarnar hljóta að verða minnkandi framkvæmdir. Það blæs ekki svo byrlega um útvegun á efni til raforkuframkvæmda, og er það varhugavert að taka 20 milljón króna lán og greiða af því vexti. Með 4% vöxtum yrðu það 800 þús. á ári, og þykir mér líklegt, að þm. hefðu séð eftir þeirri upphæð, ef um mannúðarmál hefði verið að ræða. Loks sé ég ekki, að erfitt geti verið að útvega fé, þegar þar að kemur, og mun ég því vera á móti frv.