03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

133. mál, raforkusjóður

Einar Olgeirsson:

Mþn. í raforkumálum hefur lagt til, að tekið verði lán innan lands til raforkuframkvæmda að upphæð 20 milljónir kr. Nú er það svo, að þetta er allhá upphæð, miðað við þær framkvæmdir, sem lagt er í hér á landi. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að menn verða að gera sér grein fyrir, til hvers á að verja fénu, að hverju á að stefna. Við þurfum að vita, á hvaða efnahagslegum grundvelli á að standa. Ekki er miðað við það, að landbúnaðurinn sem atvinnuvegur geti staðið undir þessum eða öðrum framkvæmdum, heldur er borgað með honum frá öðrum atvinnuvegi. Við því væri heldur ekkert að segja, ef með því væri verið að skapa lífvænlegan atvinnuveg. Það fé, sem ætlazt er til, að lagt verði fram til þessara framkvæmda, er tekið fyrst og fremst frá sjávarútveginum. Undirstaða atvinnulífs bæjanna er sjávarútvegurinn. Það er vitanlegt, að þetta byggist fyrst og fremst á sjávarútveginum og blómgun hans.

Síðastliðin fjögur ár hefur meiri gróði fallið Íslendingum í skaut en nokkru sinni fyrr. Ef þjóðinni væri ljóst, hve sjávarútvegurinn á mikinn þátt í þeim gróða, ætti hann að koma miklu sterkari út úr þessari veltu en hann var áður. En hvernig lítur þetta út í reyndinni? Hafa verið samþ. lög um byggingu fiskiflotans? Og nýbyggingarsjóðirnir, — er fé þeirra undanþegið skatti? Það sýnist nærri því smávægilegt að skapa stórfelldan fiskiflota og stórfelldan fiskiðnað á Íslandi eftir stríðið, ef litið er á það fjármagn, sem borizt hefur hér á land. En ég veit ekki til, að það opinbera hafi gert ráðstafanir til að skapa nýjan fiskiflota eða fiskiðnað, ég man ekki til, að það hafi verið samþ. Það opinbera á fyrst og fremst að einbeita sér að nýsköpun á atvinnusviðinu.

Ég sé ekki betur en með þessu frv. sé verið að stofna til deilna, að sá aðilinn, sem harðdrægari er, geti dregið til sín svo mikið fé sem hann getur. Ég held, að þetta kunni ekki góðri lukku að stýra. Ég held, að það geti ekki farið vel, ef einstakir menn hér í þinginu koma með sína hít og stinga í hana 10 milljónum í þetta skipti og 20 milljónum í hitt. Ég held, að ekkert vit sé í því háttalagi. — Ég held, að athuga ætti, hvað hátt lán er hægt að bjóða út. Þegar þetta hefur verið athugað, þá á að ákveða, hvernig verja á fénu.

Við erum sammála um, að margt þurfi að gera í landinu. Það þarf að smíða fiskiflota, reisa síldarverksmiðjur, áburðarverksmiðjur, og fleira þarf að gera. En við þurfum að koma okkur niður á, hvað eigi að vera nr. 1 af þessu. Við mundum m. ö. o., ef við höguðum okkur eins og skynsamir menn, búa til einhverja áætlun um þessar fjármálaráðstafanir, í staðinn fyrir að gera einhverjar samþykktir hér á Alþ. með „frjálsu samkomulagi innan þings“, baktjaldamakki, klíkuskap og þess háttar. Við ættum að gera fjármálaáætlanir um þetta til þess að áætla, hvernig því fjármagni skuli varið, sem það opinbera treystir sér til að ná ráðstöfunarrétti á. Og ef við við athugun komumst að þeirri niðurstöðu, að í þeim framkvæmdum, sem við þurfum að gera eftir styrjöldina, sé nr. 1 að kaupa fiskiskip, fleiri en við höfðum fyrir síðasta stríð, þannig að ekki væri aðeins hægt að koma upp skipaflota í staðinn fyrir það, sem nú hefur farizt, heldur miklu meira, því að við vitum, að nýbyggingarsjóður, sem nú er til, mundi ekki hafa fjármagn til að sinna því hlutverki til fullnustu, — ef við komumst enn fremur að þeirri niðurstöðu, að næst fiskiskipunum þyrfti að koma hér upp verksmiðjum til þess að vinna úr sjávarafurðum meira en við nú gerum, til þess að við þurfum ekki að flytja þær sem hráefni til annarra þjóða, til þess að þær geti unnið úr þeim, — og ef við síðan álítum við þessa athugun, sem gera þarf, að næst komi t. d. nauðsynin á að koma fram nauðsynlegum raforkuframkvæmdum í landi okkar og þá kannske þar næst að umskapa landbúnað okkar og taka til þess alveg sérstök svæði, t. d. í Ölfusinu og víðar, — ef við komumst að slíkum niðurstöðum og gætum búið okkur til nokkra áætlun um það, hvernig við ættum að ráðstafa því fjármagni, sem ríkið treystir sér til að hafa með að gera, þá held ég, að það væri skynsamlegast, en hins vegar, að illa væri farið, ef við færum nú í flýti að ráðstafa þessu fjármagni kannske þveröfugt við það, sem okkur fyndist eftir á, að rétt hefði verið. Ég er hræddur um að okkur færi þá í síðara tilfellinu eins og segir í sögunni um gulleggið, að við rifum burt þann stofn, sem við þyrftum að byggja þetta á, í bráðlætinu eftir að fá ávextina af því, sem þetta fjármagn á að byggja upp, ef skynsamlega er með farið.

Eins og ég hef drepið á áður í sambandi við frv. hæstv. ríkisstj. um greiðslu skulda ríkisins erlendis, álít ég nauðsynlegt, að þessi mál séu tekin til heildarathugunar. Það eru mörg vinsæl mál, sem hægt er að koma fram með till. um, sem þarf að vinna með þjóð okkar. Og við vitum, að það eru til peningar til að framkvæma mikið af nauðsynlegum málum. Við þurfum bara að koma okkur niður á, í hvaða röð heppilegast er að taka þessi mál til að framkvæma þau og í hvaða orsakasambandi þessar nauðsynlegu framkvæmdir standa hverjar við aðra. Og ég er á þeirri skoðun, að 20 millj. kr. lán til handa raforkusjóði sé ekki mál, sem sé það nauðsynlegasta. Þar með vil ég engan veginn segja, að eitthvert lán til handa raforkusjóði gæti ekki komið til mála. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það, hve mikið er þegar í þann sjóð komið. (STh: Það munu vera komnar í hann eitthvað yfir 10 millj. kr.). Ef það er rétt, að komnar séu í sjóðinn yfir 10 millj. kr., þá álít ég alls ekki illa að verið af hálfu Alþ. viðvíkjandi þeim sjóði. Það er til sérstakur sjóður, sem heitir framkvæmdasjóður ríkisins, og ef ég man rétt, var komin álitleg fjárupphæð í hann, og á að verja honum til allmargra nauðsynlegra hluta.