06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2541)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Gísli Jónsson:

Mér er ánægja að því að ræða við hv. 2. þm. Rang. um þetta mál, því að hann er sá eini, sem komið hefur nærri því, sem ég bar fram í ræðu minni. Hinir komu ekki nálægt því. Ég gerði fyrirspurn, sem hefur verið svarað. Ég tók það fram, að ég væri ekki á móti málinu, en ég vildi fá að vita, hvaða stefnu þingið vildi marka í málinu. Það er nú komið fram, og þá veit ég, hvernig ég á að greiða atkvæði, þegar þar að kemur. Það er nú ljóst orðið af ummælum hv. 2. þm. Rang. (IngJ), að það er ekki einungis ætlunin að rannsaka þetta mál, heldur er það meiningin að fá stórkostleg fjárframlög, án þess að útkjálkahéruðin fái nokkrar bætur á sínum vegum, og það er gott, að aðrir útkjálkaþm. fái að vita, hver er stefna þessara innkjálkaþingmanna, sem ætla að knýja þetta fram, áður en hugsað er um hin héruðin. Ég mun ekki blygðast mín fyrir það að taka þegar upp baráttuna fyrir þá menn, sem eru á útkjálkum landsins, og ég skammast mín ekki fyrir að verða undir í þeirri baráttu. En ég er ekki kosinn á þing til þess að hlúa að þeim ríkustu og bezt settu, en sparka í þá verr settu. Ég er ekki kosinn á þing til þess að rannsaka ekki málin, og ef þessir fimmtán vilja setja sig niður og rannsaka þessi mál, taka eftir því, hve mikið er lagt til þessara héraða og hvað þörfin er mikil annars staðar, þarf ég ekki að vera hræddur um, að þeir greiði atkvæði með því að leggja til sinna héraða, en ekkert til hinna héraðanna, sem mesta hafa þörfina.

Ég vil þá minnast ofurlítið á verðið á síldarmjölinu og úburðinum og vil spyrja hv. 2. þm. Rang. (IngJ), hvort hann vill taka það með, hvað það kostar bændur í útkjálkahéruðunum að taka þessar vörur og reiða þær á klakk langar leiðir eftir vegleysum, og vil spyrja hann, hvort sá skattur er ekki meiri en það, sem það kostar bændur í Árnessýslu að flytja með bílunum. Ég vildi sjá Árnesinga taka upp aftur þann sið að flytja á klökkum eins og fyrir aldamót, en það eru þau kjör, sem eru sköpuð Barðastrandarsýslunni. Ég þykist ekki ofmæla, þótt ég segi, að flutningurinn verði ekki dýrari í þessum sýslum en í útkjálkahéruðunum. Ég ætlast ekki til þess, hvorki af þeim þm., sem hafa tekið til máls í sambandi við þetta, né af neinum öðrum, að þeir séu að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að hlúa að Barðastrandarsýslunni, bara af því, að einhver ákveðinn þm. sitji fyrir hana, en ég ætlast til þess, — og það er skylda þeirra, sem með fjárveitingarvaldið fara, — að þeir athugi, hvað gera þarf fyrir hin einstöku héruð án tillits til þess, hver er kosinn fyrir þau. En það er ekki gert. Það hefur verið miklu meira hlynnt að þeim héruðum, sem næst eru Reykjavík. Um það er ekkert að segja, ekki þegar ekki er gengið svo langt, að það eru ekki einasta lagðir nýir vegir, heldur leitað að stöðum, sem kannske uppfylla ekki þau skilyrði, sem verður að uppfylla. En það tel ég rangt, meðan ekki er hlynnt neitt að öðrum kjördæmum úti um land.

Ég hef ekki ástæðu til þess að tala meira við hv. 2. þm. Rang. (IngJ), en ég tel, að fullyrðing hans um, að ég hafi farið með rangt mál um kostnaðinn við steypta veginn, eigi ekki við neitt að styðjast, enda ætti að vera hægur hjá að ganga að landsreikningunum til þess að fá úr því skorið.

Þá ætla ég að snúa mér ofurlítið að hv. 1. þm. Árn. (JörB). Eins og hann gat um í upphafi ræðu sinnar, hefði hann getað sparað sér digurmæli sín, ef hann hefði skilið mig rétt, því að í ræðu minni gaf ég ekkert tilefni til þess. En hann hefur kosið að fara inn á þá braut að ræða um þörf fyrir vegi almennt. Og ef hann vill það, skal ég gjarnan ræða um það, þó að ég kæmi ekki inn á það í minni fyrstu ræðu.

Ég vil spyrja hann: Hvers vegna viðurkennir hann ekki, að Krýsuvíkurvegurinn hafi verið mistök, og heldur því fram, að það þurfi að fullgera hann, en fellur svo frá því með flutningi þessarar till.? Hann heldur því fram, að eina leiðin til þess að halda uppi samgöngum sé að fullgera Krýsuvíkurveginn, og samtímis því á að leggja milljónir og aftur milljónir í nýjan veg, sem er ekki fær á vetrum. Ef það er skoðun hv. 1. þm. Árn., að það eigi að ljúka við Krýsuvíkurveginn, er bezt að leggja þessa till. til hliðar og samþ. heldur ákveðna áskorun um að flýta þeim vegi, sem hinum eina sáluhjálplega fyrir þá, sem búa austan fjalls. En sú skoðun, að fara eigi þá leiðina, sem hér er gert ráð fyrir, er ekki komin frá neinum illa gefnum né illa læsum stofumanni, heldur frá vegamálastjóra, þótt hann fengi ekki að ráða fyrir ofríki Framsóknar, þegar Krýsuvíkurleiðin var ákveðin. Nú er dálítið skrýtið, að það skuli eiga að skora á hann að láta aftur rannsaka hina leiðina. Ef hv. 1. þm. Árn. vildi kynna sér málin, mætti hann gjarnan ganga milli héraða, þar sem fólk sveltir börn sín vegna mjólkurleysis, en vegi skortir til að koma mjólkinni þangað úr sveitum, þar sem hana er að fá. Hér syðra þykir voði, ef leiðin austur teppist viku. Hvernig er þá á stöðum, þar sem samgönguleysi er vetur, sumar, vor og haust? Skyldi ekki vera komið mál til, að Alþingi sinnti þörf þeirra staða að nokkru, áður en það ákveður 6. veginn austur yfir fjall? Vegir hafa verið lagðir yfir Mosfellsheiði og Hellisheiði, síðan hafinn Krýsuvíkurvegurinn, og þá er rætt um að tengja Grindavíkurveginn við vegina austan fjalls. Og loks er það þessi vegur. Ég get vel fallizt á að tengja Grindavíkurveginn við veg austur til þess að hafa öryggi fyrir mjólkurflutningana í harðindum. En ég get ekki fellt mig við, að varið sé tugmilljónum til að leggja þennan nýja veg austur yfir Hellisheiði, áður en bætt er úr brýnustu þörfum annars staðar. Og steyptur vegur kemur ekki til greina, m. a. af því, að ekki verður hægt að keyra hann í frostum. Það er bara það, að þessi vegur er kjördæmamál 15 þm., sem heimta hann og enga sanngirni vilja sýna öðrum héruðum. Þeir menn gleyma, að einmitt þessi sömu héruð hafa fyrir ásælni þeirra og þeirra líka fengið óforsvaranlega mikið af vegagerðarfénu nú um langan aldur, og þeir trúa því, að þetta geti gengið endalaust. Ef það er slík nauðsyn sem þeir segja, að daglega sé flutt mjólk austan yfir fjall, er það jafnmikil nauðsyn í Barðastrandarsýslu, þar sem allir flutningar teppast þó vikum og mánuðum saman að vetrinum. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að sér væri ókært að fara út í samanburð við vegagerð í öðrum héruðum. Mér er það ákaflega ljóst, hvers vegna hann hlýtur að langa lítið í þann samanburð. Hann er búinn að sitja svo lengi á þingi, að það er meir en lítið, sem hann hefur orðið á samvizkunni. Það var ekkert annað en samvizkubit, sem knúði hann út í þessar umr. Hann lýsti yfir, að hann væri með því að rétta öðrum héruðum einhverja mola, ef þetta mál gengi að óskum. Það eru ekkert nema molar, sem ég hef verið að biðja um fyrir Barðastrandarsýslu, en það hefur staðið á því að fá, þótt ekki væru nema vesölustu molar. Þar er beðið um ódýrustu vegi, ruðningsvegi, þar sem nota má lélegustu tegund bíla, og þar er brýnust nauðsynin. Hv. 2. þm. Árn. (EE) talaði um, að fram hefðu komið hjáróma raddir um nauðsyn þessa nýja vegar. Annaðhvort hefur hann ekki verið í þingsalnum, þegar ég hélt ræðu mína, eða hann hefur ekki tekið vel eftir því, að ég neitaði ekki nauðsyn hans, þótt ég benti á enn brýnni þarfir. Ég hefði gaman af að láta ýmsa hv. þm. trilla yfir Kleifaheiði til dæmis og nokkrar aðrar leiðir í Barðastrandarsýslu. Það kynni að opna sumum augun fyrir því ástandi, sem búið er að koma vegamálunum í. Engin bót er fáanleg, meðan sú þröngsýna hreppapólitík ræður, sem lýsir sér í þessu máli. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að það væri táknrænt fyrir þetta mál, að 15 þm. stæðu að því. Það er rétt, þetta er þeirra hagsmunamál fyrir kjördæmi sín, og þeir sjá ekki lengra. Ég hef aldrei skilið betur en í sambandi við þetta mál, hvað það væri eyðileggjandi fyrir útkjálkahéruðin, ef kjördæmaskipun yrði á þann veg, að val frambjóðenda yrði allt í höndum Reykvíkinga og þeirra, sem nálægt höfuðstaðnum búa. Það væri óglæsileg ævi, sem þeim vesalingum væri þá búin, sem útkjálkana byggja.

Ég hef fært rök fyrir máli mínu og sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta, nema tilefni gefist. Ég fæ kannske tækifæri til að athuga ýmis atriði málsins í n. Ég þakka hv. þm. Rang. (IngJ) fyrir hans skýru svör um það, hvað bak við till. liggur, því að það getur haft mikla þýðingu fyrir meðferð málsins í n.