06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2545)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Emil Jónsson:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en í ræðu hv. þm. Barð. (GJ) voru fullyrðingar, sem ég vil með engu móti láta ómótmælt. Fyrst vil ég segja skoðun mína á þessari þáltill. Hún fer fram á það, að ríkisstj. sé falið að láta rannsaka, hvað kosta muni að gera steinsteyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun, en jafnframt sé athugað, hvað kosta muni nauðsynlegar breytingar á legu vegarins og gerð á þessari leið með tilliti til flutninga að vetrarlagi.

Þessi rannsókn ætti ekki að vekja mótmæli. Þetta á að gera án þess að ákveða fyrirfram, hvar vegurinn skuli síðan lagður, eða önnur vegarstæði skuli alls ekki koma til greina. Ég skal annars ekki blanda mér í sjálfa deiluna, sem hér er risin. Ég ætla, að megnið af þeim athugunum, sem um er beðið, hafi verið gert fyrir nokkrum árum. Það, sem þyrfti að gera, er að fá þessum gömlu áætlunum breytt til nútíðarhorfs og reiknaðan kostnað í samræmi við það. Ef þm. eða þingnefnd hefðu snúið sér til vegamálastjóra með beiðni um, að þetta yrði gert, hefði hann látið gera það á stuttum tíma. En það voru hin furðulegu ummæli hv. þm. Barð. um, að metrinn í steinsteyptum vegi mundi hafa kostað um 1000 kr. fyrir stríð og mætti af því ráða dýrleik hans nú, sem voru aðaltilefnið til þess, að ég tók til máls. Þegar hv. 2. þm. Rang. (IngJ) vildi leiðrétta þetta og kom með tölur, sem eru nærri lagi, vildi þm. Barð. ekki heyra það, 2. þm. Rang. hefði ekkert vit á þessu, metrinn kostaði nú um 5 þús. kr. og í Hafnarfirði kannske 7500 kr. En í lengdarmetrann fer einn m3 af steinsteypu, sem kostað hefur 50–60 kr. Ég get vel fallizt á, að m3 kosti 70 kr. En um þann vegagerðarkostnað í Hafnarfirði, sem þm. nefndi, eru engar niðurstöðutölur til. Ég átti í morgun tal við skrifstofur bæjarstjóra og bæjargjaldkera og fékk þau svör, að enn væri ekki unnt að gera þetta upp. Og þm. ætti að leita upplýsinga, áður en hann fer ákveðið með slíkar öfgatölur, sem hann bar sér í munn. Um vegagerðarkostnað í Hafnarf., þar sem allt viðkomandi er innifalið, jafnvel andvirði húsa, sem ryðja þarf úr vegi, er ekki hægt að segja neitt í þessu sambandi. En ég hef sagt, eftir að ég hafði í morgun borið mig saman við vegamálastjóra, hvað hver m ætti að kosta í venjulegu steinsteypulagi á venjulegum vegi. Hv. þm. Barð. fer þar með 14–15 sinnum hærri tölur en rétt er, og er það meira en menn hafa kallað að ýkja sæmilega. Þegar hann býr til nýja tölu um kostnað vegar í Hafnarfirði, er hún hærri en samanlagðar þær upphæðir, sem til allra vegamóta hafa verið veittar þar á þeim tíma, sem unnið hefur verið að þessum vegi. Það, sem þm. sagði um Krýsuvíkurveginn, var einnig mjög fjarri því að vera rétt. Hann hélt því fram, að lagning hans hefði verið ákveðin fyrst og fremst af pólitískum ástæðum. Það þýðir lítið, þótt rök séu borin fram, hann tekur þau ekki til greina. Krýsuvíkurvegurinn er kominn áleiðis suður fyrir þann stað, sem hæstur er og snjóþyngstur, hálft annað hundrað m yfir sjó, — þar sem Hellisheiðarvegurinn kemst hæst nokkuð á 5. hundrað m og Mosfellsheiðarvegurinn á 4. hundrað m. Ég hef litið til þess, hvernig snjó hagaði þarna undanfarna vetur, og í harðindaskorpum hefur vegurinn verið nær snjólaus. Þótt ekki sé hægt að fullyrða, að hann geti aldrei teppzt af snjó, er bersýnilegt, að það verður afarsjaldan. Enginn nema hv. þm. Barð. getur kallað veginn algera vitleysu.

Það er undarlegt sjónarmið hjá hv. þm. Barð., að ekki megi rannsaka kostnað við þennan veg án þess að ákveða um leið að leggja svo og svo marga vegi í öðrum landshlutum eða kjördæmum. Mér finnst það sýna mjög þröngan skilning og illa sitja á þessum þm. að brigzla öðrum þm. um þröngsýni, kjördæmapólitík og annað slíkt, einmitt þegar svo mjög ber á því hjá honum sjálfum.