06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2546)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Eiríkur Einarsson:

Mér finnst, að orð hafi fallið hér frá ýmsum fræðimönnum, sem sýna, að hér er verið að rannsaka og staðhæfa málefni, sem samkv. orðalagi till. á að fara fram á, að ríkisstj. láti rannsaka. Skoðanirnar eru svo búralegar, að það sýnist ekki framar þurfa vitnanna við, til ríkisstj. þurfi ekki að leita til að komast að fræðilegri niðurstöðu. Ég er þarna á öðru máli, ég álít réttmætt, að ríkisstj. sé falið þetta, af því að við vitum ekkert sjálfir. Við vitum ekki, hvort nauðsynlegt er að færa veginn austur meira eða minna, þó að við höfum okkar skoðanir. Ég sagði áður, þegar ég vildi leggja áherzlu á, að það þyrfti e. t. v. að breyta veginum, að það væri frá mínu sjónarmiði meginatriðið, áður en við kæmum að steinsteypuatriðinu. Ég var svo djarfur að segja þetta út af því, sem haldið var fram um hin svo kölluðu Þrengsli. Þau eru ekki dalverpi, heldur hraunrunnið skarð. Gegnir menn í nágrenninu telja, að þar sé snjólétt. Ég vil því frekari athugun á þessu atriði.

Þegar talað er um öryggi Krýsuvíkurleiðarinnar, álít ég, að það hafi leiðzt inn í umr. meira af ofurkappi og forsögu málsins en af nauðsyn. Á fyrri þ. hef ég látið í ljós, að ég hefði ekki trú á, að hún yrði lausn til frambúðar, en það er þegar búið að leggja svo mikið í hana, að ég álít ekki gerlegt að halda ekki áfram, enda hlýtur svo að verða. Um Þingvallaleiðina hefur verið látið skína í það sama, en till., sem fyrir liggur, er alveg óháð báðum þessum leiðum.

Ég vil að einu leyti taka undir með hv. þm. Barð. Hann vítir gagngerðar vegabætur á þessu svæði, svo að eldri vegir séu brotnir upp og nýir settir í staðinn. Það er of mikið til í þessu, en það stafar af því, að aldrei hefur verið fullnægt nema brýnustu bráðabirgðaþörfum, skyndiklastrið hefur orðið að vera, í stað þess að miða við framtíðina.

Hv. þm. N.-M. beindi fyrirspurn til mín um það, hvort kjarni þjóðarinnar væri á þessu svæði. Ég man ekki, hvort ég komst þannig að orði, en ég get flett upp í Landnámu til að athuga það.