29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2567)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Skúli Guðmundsson:

Ég hef skrifað undir nál. með meiri hl. fjvn., en í nál. hef ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. áskilið mér rétt til að bera fram eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Ég taldi rétt að gera nokkra breyt. á þessari till., en ástæðan til þess, að ég hef ekki, þrátt fyrir það að ég hef áskilið mér þennan rétt, komið með brtt., er sú, að ég get vel fellt mig við brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 209, og mun ég greiða henni atkv. Mér finnst sjálfsagt að fá fram nokkru víðtækari rannsókn á þessu máli en gert er ráð fyrir í till. eins og hún liggur fyrir á þskj. 82.

Það eru eflaust flestir sammála um, að sjálfsagt sé að reyna að finna þá heppilegustu leið, sem völ er á, til þess að gera samgöngur milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins sem greiðastar og öruggastar allan ársins hring. Mér finnst því rétt að fá fram athugun á fleiru í sambandi við það viðfangsefni en því einu, hvað það muni kosta að gera steyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun.

Hv. 2. þm. Árn., sem er einn af flm. till., talaði um þetta mál hér áðan. Dró hann, að því er mér skildist, það nokkuð í efa, að eftir till., eins og hún liggur nú fyrir, eigi að framkvæma rannsókn á vegi yfir Þrengslin. Hins vegar finnst mér, að eðlilegt væri, að gerður yrði samanburður á kostnaði við veg þá leið við aðrar áætlanir, sem fyrir liggja. Ég vil enn fremur benda á, að það er nú þegar búið að leggja mikið fé í hinn svo nefnda Krýsuvíkurveg, og er gert ráð fyrir, að haldið verði áfram vegalagningu á þeirri leið. Mér sýnist sjálfsagt, að það verði m. a. athugað gaumgæfilega, hvort heppilegra muni í framtíðinni að hafa vetrarflutningana yfir Hellisheiði eða eftir þeirri leið. Mér finnst því, að réttara sé fyrir þingið að samþ. brtt. hv. 2. þm. N.-M., þar sem hún er miklu víðtækari í þessu efni. Ég vil einnig benda á það, sem hv. þm. hefur einnig vakið athygli á, að eftir till. á þskj. 82, sem fer fram á, að það eitt verði gert að rannsaka, hvað steyptur vegur kostar, er stj. ekki heimilað að leggja fram fé úr ríkissj. til þessarar rannsóknar, sem þó hlýtur að kosta eitthvert fé.