13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

133. mál, raforkusjóður

Áki Jakobsson:

Það hafa komið fram till. frá þessari n. áður, og þær till. hafa verið svo úr garði gerðar, að menn hafa getað ætlað, að hún væri á skakkri leið, og minntist ég á það í sambandi við virkjun Fljótaár. Hún lét sér sæma að leggja á móti ábyrgð, sem ríkisstj. hafði veitt fyrir virkjun þessa vatnsfalls. Þingið lét þetta ekki ná fram að ganga, enda hefði þá Siglufirði verið gerður mikill óréttur. Þetta orsakaði þó allmikinn hita, og þáv. ráðherra gaf í fyrstu ekki út ábyrgð nema fyrir helmingnum. Þetta tafði svo verkið, að um gífurlega hækkun var að ræða, en af því leiðir, að nú þarf að leita til þingsins í annað sinn.

Það var einnig að undirlagi þessarar n., að hindra átti Keflavíkurveituna. Vildi hún hindra, að efnið yrði keypt, fyrr en ákveðið væri, hvert það ætti að fara. Þessi tillaga er að ýmsu leyti svipuð. Vextir af lánum, sem till. hljóðar upp á, eru um átta þús. kr., og getur sjóðurinn hvergi nærri staðið straum af því. Og þetta leyfir n. sér að koma fram með, meðan ekki er einu sinni farið að hugleiða á hvern hátt verkið skal framkvæmt.

Það eru tvö stór vatnsföll, sem virkja á, Sogið og Laxá úr Mývatni. Frumáætlun að þessu verki liggur ekki fyrir, og tekur það minnst tvö ár að gera hana. Það væri því lítt ráðlegt að taka þessi lán nú og láta þetta fé liggja þannig vaxtalaust. Það er rétt, að dýrtíðin er mikil, og eru það mörg atriði, sem valda henni. Vel getur svo farið, að við getum ekki fengið vörur þær, sem þarf til virkjunarinnar. Ef hægt er að fá virkjunarvörur nú frá Ameríku, þá er það e. t. v. eina tækifærið nú í nokkur ár, og engar upplýsingar eru til um, að ekki sé rétt sagt hér frá.

Ég hef áður bent á, hver yrði eðlilegasta þróunin í virkjunarmálinu, þ. e., að ríkið styðji einstök bæjarfélög. Þegar því er lokið, eru möguleikarnir á því að leggja leiðslur í stærri. þorp meiri. Það er ekki rétt, að ríkið taki framkvæmdir þessar í sínar hendur, heldur á það að styðja bæi og þorp, eins og ég áður tók fram. — Þá er það ekki rétt, að gera veitur, ef orkan er ekki til. Við skulum taka Sogið. Það er ekkert vit í að ganga frá veitunni, áður en búið er að ganga frá virkjuninni. Reykjavík ætlar að hafa þrjár vélasamstæður við Sogið. Akureyri ætlaði að hafa tvær við Laxá, en hefur eina, því að, gjaldeyrisnefnd neitaði um fyrirgreiðslu, þó að möguleikar hefðu verið á að fá lán. Það hafði örlagaríkar afleiðingar, því að nú er ekki hægt að veita þaðan orku til annarra staða. Það liggur fyrir að veita orku frá Soginu um öll Suðurnes. Búið er að gera áætlun um að leggja til Hveragerðis, Stokkseyrar og Eyrarbakka.

Það hefur stórfellda þýðingu fyrir allt atvinnulíf þjóðarinnar, að vel gangi með virkjunarmálið. Vegna hraðfrystihúsa á Reykjanesi er þjóðinni bráðnauðsynlegt að fá raforku þangað. Framleiðslan hlýtur að aukast þá á þessum slóðum. Menn gætu þá farið að stunda landbúnað með. Þá mundi rísa upp margvíslegur iðnaður, sem engin leið er að stunda þar nú vegna rafmagnsleysis.

Þá liggur fyrir að leggja rafleiðslu til Vestmannaeyja frá Soginu. En það er í rannsókn. Frumáætlun bendir til, að ekki sé óhagstætt að fá orku frá Soginu til Eyja. Þetta er einhver mesta verstöð landsins og liggur einna bezt við fiskimiðum okkar. Það mundi verða til stórkostlegrar aukningar á söluhæfni fiskafurða, ef orka úr landi væri leidd þangað.

Það eru víða þorp í myndun. Þangað þarf að leiða orku. Kringum Stórólfshvol t. d. er að myndast þorp, og mundi það gefa þorpsbúum möguleika á að stunda landbúnað betur en nú er, ef þeir fengju orku.

Í sambandi við Laxárvirkjunina var gjaldeyrisnefnd skaðlega þröngsýn, svo að Akureyrarbær neyddist til að leggja háspennulínu, sem ekki er hægt að taka afleggjara af handa öðrum stöðum. Ef það er gert, þarf að gera stöðina sterkari. Það er hægt að leggja um Eyjafjörð og til Siglufjarðar og tengja við virkjun Fljótaár. Vinningurinn yrði sá, að hægt væri að virkja 10 þús. hestöfl. Vatnsaflið er mikið og miklir möguleikar þess vegna, að því er verkfræðingar telja, og álíta þeir hæfilegt að beizla 10 þús. hestöfl.

Akureyri hefur stundum verið raforkulaus í heila viku í einu, og er slíkt geysióþægilegt. Engin olíutæki eru til að grípa til þegar rafmagnið bregzt, og er þetta því hreinasta hörmungarástand. Það þarf að auka mikið öryggi beggja staðanna með því að tengja þá saman. Mundi það verða hin mesta lyftistöng sjávarútveginum. Menn hafa notað olíumótora til olíuframleiðslu, en þeim er hætt við að bila, og því byggja menn vonir sínar á vatnsorkunni. Þjóðin hefur ekki þorað að leggja í að koma upp lýsisherzlustöð vegna skorts á rafmagni. Ef hún hefði verið komin fyrir stríð, hefði verið hægt að selja allt síldarlýsi. Herzlustöðvar Englendinga eru flestar í Noregi. Þeir urðu því að neita sér um þessa vöru, þótt þörfin væri mikil. Engin leið er að komast hjá að fá orku til þessa gegnum vatnsvirkjun, því að annars yrði orkan of dýr til þessarar vinnslu.

Ef víðsýnir menn hefðu setið við stjórn, áður en stríðið skall á, hefðu þeir átt að koma auga á það, að Ísland hlyti að eiga stað í hagkerfi Evrópu, og hefðu þeir þá lagt kapp á að koma virkjununum í framkvæmd til þess að geta notað orku við framleiðsluna, því að það var auðveldara að leysa verkefnin fyrir stríð en nú er — og einfaldara. Ríkið á að útvega efnið og veita smærri stöðunum styrk til framkvæmdanna. Ég álít, að Akureyri, Siglufjörður og Reykjavík geti staðið undir sínum veitum án stuðnings. Ríkið þyrfti að virkja Sogið, þegar vélasamstæðan er komin, sem nú er verið að vinna að, og eru það 20 þús. hestöfl. Í Efra-Sogi eru 50 þús. hestöfl. Þetta er því upplagt efni fyrir ríkið. Það er upplagt fyrir það að ganga í þá virkjun. Þá eru möguleikar á að dreifa orkunni um þá staði, sem ég nefndi áðan. En að vera að rífast um háspennulínu í stað aðalatriðanna er að byrja á öfugum enda. Það eru hreinustu smámunir í samanburði við virkjunina sjálfa.

Það var rangt, að raforkunefnd lagði ekki fyrir ríkisstj. að undirbúa virkjun við Sogið. Það er ekki rétt að láta tímann renna svo úr höndum okkar. Þegar Evrópumarkaðurinn opnast, væri hægt að flytja afurðir okkar út með flugvélum. Það er hart, þegar eftirspurnin kemur, að þurfa að segja: Okkur vantar raforku. — Þá þurfum við að sleppa Evrópumarkaðinum í 1, 2 eða 3 ár.

Möguleikar fyrir stórvirkjun á Íslandi eru afar miklir, og við getum framleitt með aðstoð raforkunnar afar mikið. Járn er nú að víkja fyrir léttari málmum. Magnesíum er unnið úr sjó. Hvergi í Evrópu eru talin eins góð skilyrði til þessarar vinnslu og hér á landi. En hér er lítið hugsað um annað en sjávar- og landbúnaðarafurðir. Auk magnesíumvinnslu má nefna ýmis önnur efni, t. d. sement og áburð og ýmisleg efni unnin úr brúnkolum. Kolalögin á Skarðsströnd eru þykkari en menn hafa vitað. Þetta er allt órannsakað, og um framleiðslu af þessu tagi er ekki hægt að vita, fyrr en við höfum fengið raforkuna og vitum, hvað hún er ódýr. Verkefni raforkunefndar, sem nú hefur unnið að athugunum á þessum málum, er ekki eins erfitt og hún vill vera láta.

Um lánsútboð þau, sem gerð hafa verið, vil ég taka fram, að ekki hefði átt að gera þau út í bláinn, eins og stundum hefur verið gert, og leggja þannig fé raforkusjóðs í hættu.

Það hefur komið fram, að höfuðmarkmið raforkunefndar sé, að mér skilst, að neyða helzt bæjarfélög til að vera öll saman um veitu. Það á að leiða rafmagn inn á hvern bæ og hvert hús í þorpunum. Í framkvæmdinni yrði þetta að tengja sveitar- og bæjarfélög þannig — til þess að leggja skatt á íbúa þéttbýlisins. Þeim yrði seld raforkan dýrar en þyrfti, og þar með yrði lagður á þá hár skattur, sem yrði nokkurs konar styrkur til sveitanna. En út af fyrir sig er þetta ekki það versta. En afleiðingin af þessu verður sú, að raforkunotkun á þessum stöðum, sem þannig eru skattlagðir og þess vegna selt rafmagnið dýrt, hlyti að verða ákaflega takmörkuð. Það er reynsla fyrir því, að það er ákveðið jafnvægishlutfall á milli raforkunotkunarinnar í hverjum bæ og verðsins á rafmagninu. Þegar verðið er komið upp fyrir visst mark, þá lækka tekjurnar af sölu þess. Þetta er reynsla okkar og annarra þjóða. Og það þýðir ekki að ætla sér að brjóta í bág við þetta lögmál, því að það verður til þess, að fólkið neitar sér um að nota raforkuna, og til þess að hindra, að nokkur iðnaður geti komizt upp. Og ef farið yrði inn á þessa braut, þá hefðum við litla raforku, sem notuð væri, því að fólkið mundi sem mest koma sér hjá að hafa rafmagnseldavélar og önnur slík rafmagnstæki, og um raforku til iðnaðar væri ekki að ræða, meðan slíkt ástand ríkti.

Það verður ekki hjá því komizt, ef gera á öllum landsmönnum kleift að nota raforkuna, sem er æskilegt og bráðnauðsynlegt, að viðurkenna líka, að það þarf að breyta fyrirkomulagi landbúnaðarins, færa byggðina saman. Það ætti að vera tiltölulega einfalt. Það er oft talað um það, að ætti að færa byggðina saman, þyrfti að hafa samyrkjubúskap. En þetta er fjarstæða. Það má reka búskap með sama fyrirkomulagi um eignarrétt, sem nú er hér hjá okkur, enda þótt byggðin sé færð saman. Hver fjölskylda gæti ræktað fyrir sig sitt land, þar sem fólkið byggi í eins konar þorpum í beztu sveitum landsins. Í öllum beztu sveitum landsins er upplagt að koma upp slíkum þorpum með öllum þeim kostum, sem þéttbýlið hefur í för með sér, og með fullkomnum samgöngutækjum er þannig kleift að hagnýta jörðina með svipuðum hætti og þar hefur verið gert. Hitt er svo allt annað mál, að viðbúið er, þegar menn eru komnir saman í þorp, að þeir sjái gildi samstarfsins og noti sér það, svo að samstarfið aukist mjög mikið. Og það gæti þá orðið til þess, að vísir skapaðist til samyrkju. En hún verður ekki sköpuð, nema mennirnir, sem taka þátt í henni, séu sannfærðir um, að hún sé það bezta fyrirkomulag í búskapnum. Þess vegna þýðir ekki heldur að fyrirskipa með lagaboði, að bændur skuli taka upp samyrkju. En það þarf að benda á, að það er þeim hagnaður, ef þeir geta sameinað sig um vatnsleiðslur, skolpleiðslur, rafmagn og annað. Þar sem landbúnaður er stundaður í dreifbýlinu, þarf einnig oft að senda smáhlut, sem þarf viðgerðar við, langar leiðir til þess að fá gert við hann, vegna þess að skilyrði eru þar ekki til þess að annast slíkt. En slík skilyrði mundu skapast í sveitaþorpum til hagræðis fyrir bændur. T. d. við Ölfusá eru að skapast ýmis slík þægindi, svo sem bakarí, viðgerðarverkstæði o. s. frv. Þetta kemur, strax og fólkið færir sig saman, en möguleikana til þessara þæginda er ekki hægt að skapa, meðan fólkið býr eins dreift og nú er. Það er sem sagt þetta, sem við þurfum að gera okkur ljóst, að til þess að slagorðið „að koma rafmagni inn á hvert heimili á landinu“ verði að veruleika, þá þarf að fara þessa leið. Það skal þó viðurkennt, að víða er í sveitum slík aðstaða, að hægt er að koma við smávirkjunum, sem eru ódýrar. Og á þeim stöðum er vitanlega sjálfsagt að koma þeim upp. Og það hefur víða verið gert, og þær hafa gert sitt fulla gagn og meira að segja ekki verið neitt tiltakanlega dýrar. Og vitanlega er sjálfsagt að halda því áfram. En víða á landinu — og það í okkar beztu sveitum — er slík aðstaða ekki fyrir hendi, t. d. sunnan lands, þar sem eru okkar blómlegustu landbúnaðarsveitir.

Ég vil ekki lengja þetta mál mitt fram yfir það, sem er nauðsynlegt, og þess vegna mun ég hlaupa yfir ýmislegt það, sem ég annars mundi taka fram, ef tími væri nægur fyrir hendi.

En hvernig verkar stórt lánsútboð, eins og nú standa sakir? Nú er verið að bjóða út 11,4 millj. kr. lán fyrir Reykjavíkurkaupstað. Og viðbúið er, að Reykjavík verði að bjóða auk þess út a. m. k. nokkurra millj. kr. lán til þess að ljúka hitaveitunni. Siglufjarðarkaupstaður á eftir að bjóða út 3 millj. kr. af láni sínu, og ef rafvirkjunin þar fer 1 eða 2 millj. kr. fram úr áætlun, þá þarf að bjóða út lán fyrir því, sem á vantar. Þarna eru því komnar um 20 millj. kr. í lánum, sem þarf að bjóða út hjá þessum kaupstöðum. Hver yrði afleiðingin af því, ef skyndilega væri skellt inn á markaðinn 20 millj. kr. skuldabréfum? Þá yrðu þessi bæjarfélög að hækka vextina af þeim eða selja bréf sín með afföllum. Þau hafa hingað til getað selt bréf affallalaust. Hvaða gagn gerði þá raforkusjóður með því að auka við þessi lánsútboð — Reykjavík og Siglufirði og öðrum stöðum og héruðum hér á landi, sem ráðast í raforkuvirkjanir og verða sennilega mörg á næstu tímum? Það, að þessir staðir yrðu að selja bréf sín með afföllum, en það mundi verða til þess að auka stofnkostnaðinn við virkjanirnar hjá þeim og gera þeim erfiðara fyrir um að standa undir þessum framkvæmdum. Og mér er ekki grunlaust um, að undirrótin að flutningi þessa máls, sem hér liggur fyrir, sé einmitt sú að koma þessu til vegar, vegna þess að annars tel ég líklegt, að fyrir raforkusjóð hefði verið stefnt að lánsútboði, þar sem ljóst lægi fyrir, hvar hugsað væri, að virkjanir ættu að byrja með aðstoð þess sjóðs. Mér er ekki grunlaust um, að þarna sé verið að hyllast til þess að skemma fyrir þessum virkjunum, — þetta sé svona hálfgerður þrái, það sé enn þá hjá þessum mönnum, sem forustuna hafa í mþn. í raforkumálum, dálítill kali og gremja út af því, að þeir komu ekki sínum vilja fram um það að stöðva virkjun Fljótaár og þar með ýmsar aðrar framkvæmdir í landinu. Það hefur verið mikið kvartað undan því, hvað atvinnulíf væri mikið og það yrði til þess að skapa glundroða. Og við vitum, að úrræði Framsóknarfl. hið helzta í því efni var, ef því mætti við koma, að setuliðið minnkaði vinnu til þess að skapa pínulítið atvinnuleysi, til þess svo einnig, að hægt væri að viðhalda gerðardómsl., því að þeir sáu, að þau voru einskis virði, ef ekki minnkaði atvinna. — Mér er ekki grunlaust um, að þetta sé undirrót þess, að sú till. er fram komin, sem hér liggur fyrir. Og mér finnst, að þessir hv. þm. og enda þeir menn, sem eru í mþn. í raforkumálum, sækja það mjög hart að koma á slíku atvinnuleysi með því að vinna á móti því, að atvinna í landinu geti aukizt, þegar þeir hika ekki við að fórna kannske 800 þús. kr. í því skyni í vaxtatapi til þess að koma þessu til leiðar.

Ég vil loks taka það fram, að ef eitthvað ákveðið lægi fyrir um það, til hvers ætti að nota þessa peninga, sem nú á að biðja um með því að taka þetta lán til raforkusjóðs, — ef það lægi fyrir, hvaða verk eða framkvæmd ætti að ráðast í fyrir þetta fé, og ef það lægi fyrir, að það væru stórvirkjanir, annaðhvort við Laxá eða Sogið, þá væri ég tilbúinn að vera með þessu lánsútboði, en auðvitað með því fororði, að ríkisstj. byði það ekki út örar en svo, að það yrði ekki til þess að fella þessi bréf og önnur bréf, sem eru á verðbréfamarkaðinum. Og ég vona það, að þeir menn, sem helzt eru áhugamenn um það að koma þessu frv. fram í því formi, sem það er í nú, þeir losi sig við alla gremju yfir því, að þeir fengu ekki vilja sínum framgengt á síðasta þingi, heldur sætti þeir sig við orðinn hlut og séu ekki að reyna að leggja stein í götu virkjana, sem eru í framkvæmd, því að það verður aldrei til þess að stöðva þær, heldur aðeins til þess, að þær verða dýrari.

Eins og þetta frv. liggur fyrir, er ég andvígur því og mun greiða atkv. móti því og hef í n. lagt til, að það verði fellt. En ef það yrði sett í samband við virkjun eða virkjanir, sem verkfræðingar teldu forsvaranlegar og í samræmi við eðlilega þróun raforkumála í landinu, þá er eðlilegt að samþ. það, þó með því fororði, að varlega sé farið við lánsútboð. Mun ég svo ekki taka frekar til máls um þetta mál. En ég vildi ekki láta hjá líða, að sjónarmið mitt kæmi fram í þessu máli, vegna þess að ég átti sæti í þeirri n., sem hafði frv. til meðferðar, þó að þau mistök hafi orðið hjá hv. 3. þm. Reykv., sem átti að vera frsm. minni hl. n., að það fórst fyrir að skila minnihlutaáliti um málið.