06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

30. mál, einkasala á tóbaki

Haraldur Guðmundsson:

Ég tók eftir, þegar hæstv. fjmrh. svaraði fyrirspurninni, að hann taldi ekkert til fyrirstöðu, að ríkisstj. skýrði nefndum innan þingsins frá, áður en ákvörðun yrði tekin um ráðstöfun á þessum tekjuauka. Þetta er ekki fullnægjandi svar við fyrirspurn minni. Hann svaraði ekki því, hvort þetta yrði gert, en það var það, sem ég spurði um. Ástæðan til þess, að ég spyr þessa, er sú, að ég játa fullkomlega; að ef þörf er á tekjum í ríkissj., þá er að minni hyggju líklegra að fara þá leið, sem bent er á í frv., en ýmsar aðrar leiðir. Ég játa, að hækkun á tóbaki er ekki vel séð af þeim, sem nota það. Einmitt þess vegna vil ég fá glögg svör við fyrirspurn minni áður en gengið er til atkv. Það er rétt, að nokkra hækkun á vísitölunni leiðir af hækkun á tóbaki, en ekki mikla. En það, sem mestu máli skiptir, er, hvort ríkisstj. hugsar sér að ráðstafa tekjuaukanum eftir geðþótta sínum, að sjálfsögðu ekki í bága við landslög og ekki til annars en þess, sem ríkisstj. telur sig hafa heimild til. Ég ber henni ekki á brýn, að hún hafi hugsað sér að gera neitt slíkt. En vitanlegt er, að ríkisstj. telur sig hafa víðtæka heimild í þessu efni, svo víðtæka að mér skilst, að ég held, að fyllsta ástæða sé til þess, að þinginu sé gefið færi á því að gera sínar ráðstafanir, ef það telur, að ekki sé vert að ganga svo langt í þessu efni sem ríkisstj. teldi sig hafa einhverja heimild til.

Hv. 1. þm. Reykv. kvaðst alls ekki geta fellt sig við þann undanslátt, sem var í ræðu minni, og var mjög vígalegur. En mér virtist hann alveg sömu skoðunar og ég. Hann vildi fá yfirlýsingu stj. fyrst. Og ég hygg það hafi verið hans skoðun, að þingið hefði á valdi sínu að taka málið upp og gera sínar ákvarðanir, ef það féllist ekki á ráðstafanir þær, sem ríkisstj. hefði í huga. Ég veit, að nokkur ágreiningur kann að vera um það, hversu víðtæk heimild sú er, sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa til að veita fé úr ríkissj. Því fremur er ástæða til, að hún tilkynni þinginu, áður en þær ákvarðanir eru gerðar bindandi. Það væri óheppilegt allra hluta vegna að vera búinn að gera það, sem er ekki afturkallanlegt, ef þingið skyldi hafa aðra skoðun en ríkisstj.

Hv. þm. Str. veik að því, að þingið hefði að mér skildist — tekið upp óheillastefnu í því að kaupa niður dýrtíðina. Og þess vegna mundi hann greiða frv. atkv. Þetta ætti að styðja óskina um vitneskju frá stj. um það, hvernig nota á þetta fé.

Að lokum vil ég endurtaka þá ósk, að hæstv. ráðh. vildi svara fyrirspurn minni glögglegar en orðið er, áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu, því að það út af fyrir sig, að hann telur ekkert til fyrirstöðu, að fjhn. sé látin um það vita, áður en til framkvæmda kemur, tel ég ekki nægilegt.