13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

133. mál, raforkusjóður

Áki Jakobsson:

Ég get glatt hv. þm. V.-Húnv. með því, — og ég segi það út af síðustu ummælum hans, — að það er svo komið, að raforkustöðin á Siglufirði tekur að öllu forfallalausu til starfa á næsta hausti þrátt fyrir andstöðu hans við það mál, þannig að mér hefur tekizt betur en mþn. í raforkumálum — með allan sinn áhuga á raforkumálum — að koma raforkumálunum í framkvæmd. Og út af því, að hv. þm. V.-Húnv. las hér upp úr þessari þál. frá 4. sept. 1942, þá er vel hægt að leggja þessa mjög svo afkáralegu merkingu í þessi orð, er þarna er um að ræða, sem hv. þm. gerði. En ég fullyrði, að þm. almennt lögðu ekki þennan skilning í þetta, heldur að það ætti að selja raforkuna þannig, að orðin „með sama verði“ þýddu með samsvarandi verði, þannig að maður, sem býr á Siglufirði t. d., verði ekki látinn borga rafmagn fyrir bónda í Eyjafirði. Það verður að miða nákvæmlega við það sama um þetta og vörur yfirleitt, að flutningsskortur verður að bætast við til þeirra, sem raforkuna nota. Og í orðin „sama verð“ eða „ekki hærra verð“ er fullkomlega heimilt að leggja þá merkingu, sem ég nú hef greint, enda mun meiri hl. hv. þm. hafa lagt þann skilning í þessi orð. En ef þingið væri svo ógæfusamt að leggja þann skilning í þessi orð, sem hv. þm. V.-Húnv. gerir, þá væri það mikil ógæfa fyrir þetta land.