06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

30. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Það stafar meðfram af þeim mikla hraða, sem er á þessu máli, að mér sýnist, að ýmsir, sem tala, skilji hverjir aðra mismunandi vel, og virtist mér það sérstaklega koma fram í ræðu hv. 3. landsk. (HG) og rökum hæstv. ráðh. og ef til vill í minni ræðu líka, en ég hef ekki getað skilið hv. 3. landsk. (HG) öðruvísi en svo, að hann telji það fullnægjandi, ef stj. í samráði við n. eða nefndir í þinginu gerði ákvarðanir um það, hvernig ráðstafa skuli þessu fé, sem hér um ræðir. En nú skilst mér á ræðu hv. 3. landsk. (HG), að hann hafi átt við, að það verði að vera búið að ákveða, hvernig ráðstafa skuli þessu fé, áður en málið sé afgreitt. En mér skilst, að nú þegar sé búið að koma í veg fyrir, að þetta sé hægt. Það er vitanlegt um þetta mál, að það er ekki hægt að gera annað með það, úr því að það er komið hér fram, en hraða því svo sem unnt er. Það er eins og hv. þm. Str. (HermJ) sagði, að það er annaðhvort að loka viðkomandi stofnun eða afgreiða málið í skyndi. Hins vegar sný ég ekki aftur með það, að það er mikið atriði, hvernig þeim tekjum verður ráðstafað, sem hér er um að ræða. Og það er skilningur þm. Mér virtist hæstv. ráðh. skilja ummæli okkar hv. 5. þm. Reykv. (BrB) þannig, að við hefðum verið að tala um, að hve miklu leyti ætti að nota heimildina, en það var ekki neitt atriði hjá okkur. Við vorum eingöngu að tala um það, hvernig því fé yrði varið á sínum tíma, sem inn kemur, ef heimildin verður notuð.

Ég sé ekki, að það komi til mála, að þingið gefi stj. fyrst heimild og fyrirskipi henni svo, hvernig hún eigi að nota þá heimild. Þingið má aldrei gefa neinni stj., sízt stj., sem starfar ekki á ábyrgð þingflokkanna, neina heimild, nema hún fái að nota hana, og þar að auki er það óþægilegt fyrir stj. að taka á móti heimild, sem hún má ekki nota. Ef þingið teldi órétt að gefa þessa 150% heimild, ætti það ekki að gefa hana. Ég átti eingöngu við hinn stórkostlega tekjuauka, og ráðh. svaraði því allt of óákveðið, sagði, að því yrði ekki ráðstafað án heimildar og að því yrði ráðstafað ráðvandlega og á fulla ábyrgð. Þessi tvenn síðari ummæli efast enginn um, að stj. stendur við: að féð muni verða ráðvandlega notað og á fulla ábyrgð. Það er náttúrlegt. Það leiðir einnig af sjálfu sér, að stj. gerir þetta ekki án heimildar. Nú veit ég ekki, ég skal játa það, hvaða heimildir stj. hefur í l., en það er áreiðanlegt, að hún hefur nú þegar stórkostlegar heimildir í l. Í dýrtíðarl. eru miklar heimildir til þess að borga það, sem brúsinn kostar. Þar hefur stj. heimild til þess að ráðstafa mörgum milljónum. Það, sem ég átti við, var að fá svar við því, hvort stj. vildi, um leið og málið er afgreitt í skyndi, — af því að það er eðli málsins, að það þarf fljóta afgreiðslu, — hvort stj. vildi lýsa yfir því, að hún mundi ekki ráðstafa þessu, nema bera það sérstaklega undir Alþingi og fá leyfi til þess að verja því með þeim sérstaka hætti. Mér finnst fyrir mitt leyti alveg nauðsynlegt, áður en málið er endanlega afgreitt, að fá skýr svör um þetta, og mér finnst ákaflega undarlegt, ef stj. getur ekki gefið svar um jafneðlilegan hlut og þetta er, því að mér finnst svo sjálfsagt, að stj. óski þessarar heimildar í alveg ákveðnum tilgangi.

Ég get tekið undir það með öðrum, að ríkissj. muni þurfa á tekjum að halda, en það er mikið undir því komið, hvaða ráðstafanir eru gerðar. Við getum verið sammála um það, hv. þm. Str. (HermJ) og ég, að það þurfi að .gera ráðstafanir, en það getur verið, að hvorugur okkar vildi fallast á þær.

Ég skal ekki orðlengja þetta, en óska, að ráðh. gefi yfirlýsingu um, að þessum tekjuauka verði ekki ráðstafað, án þess að það sé borið undir Alþ. og að ráðstöfun hans verði á valdi þess.