10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

139. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál lengi til meðferðar, en hefur ekki orðið fyllilega sammála um það, þótt hún hafi ekki gefið út nema eitt nál. Frv. þetta er eiginlega í tveim höfuðatriðum, annað þeirra fjallar um það, að hækka þann hluta stríðsgróðaskattsins, sem skiptist milli bæjar- og sýslufélaga, þar sem enginn stríðsgróðaskattur er greiddur, úr 5% upp í 15%, en hitt atriðið er það, að þau bæjar- og sýslufélög, sem að vísu fá skatt sem hluta af stríðsgróðaskatti samkv. 2. gr., en er lægri en þau mundu fá samkv. 3. gr., skuli fá stríðsgróðaskatt samkvæmt þeirri gr. Þetta mun hafa verið framkvæmt þannig, að minnsta kosti af stjórn Sjálfstfl. Ef l. hefðu verið framkvæmd samkv. orðanna hljóðan, þá hefði t. d. Siglufjörður eitt árið átt að fá 146 kr. í stað þess að fá skatt samkv. 3. gr., sem gerði 16000 kr. — Hér er því ekki verið að gera annað en að staðfesta „praksis“, sem verið hefur. N. gat ekki verið sammála um að hækka stríðsgróðaskattshlutann, sem úthlutað er samkv. 3. gr. Í nál. er birt bréf frá eftirlitsmanni sveitarstjórnarmálefna og brtt., sem hann leggur fram, en n. varð þó ekki sammála um að taka upp, þó að ekki sé hægt að neita því, að hún sé að nokkru leyti til bóta, og er það til athugunar, hvort ástæða er til að taka hana upp. Á. þessu stigi málsins hef ég ekki gert frekari till. um þetta, en ég býst við, að nm. telji sig hafa óbundnar hendur við að flytja brtt., þó að þeir hafi hafnað því, sem felst í frv.

Samkvæmt þessu hefur minni hl. n., sem er ég einn, lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, en meiri hl. leggur til, að þessum 5% í 3. gr. l. verði ekki breytt.