02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

47. mál, greiðsla á skuldum ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú liðin nokkur stund, síðan þetta mál var tekið hér til umr. Í fjvn. varð niðurstaðan sú, að hvað sem Alþ. kynni að gera við málið í sambandi við meðferð fjárlaganna fyrir næsta ár, þótti okkur eðlilegt að breyta till. á þann hátt eins og nú liggur fyrir á þskj. 236. Í brtt. þessari er gerð áskorun til ríkisstj. að beita sér fyrir athugun á því, hversu unnt væri að koma til leiðar, að íslenzka ríkið greiddi skuldir sínar sem allra fyrst. Ég vil taka það fram, að þegar þessu máli var fyrst hreyft, var því vel tekið af skattgreiðendum landsins. Ég varð víða var við það, að bæjarfélög og nálega allir einstaklingar fylgdust af ákafa með því, hvort Alþ. eða stjórnin mundi ekki reyna að grynnka á skuldum ríkisins. Enn er þó ekki hægt að segja, hvernig þessu máli muni verða tekið af Alþ. Að vísu eru fulltrúar þriggja flokka í fjvn. samdóma um að mæla með till. með þessari breytingu. Fjórði flokkurinn hefur ekki látið álit sitt í ljós enn þá, en mun gera grein fyrir sinni skoðun. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, því að öllum þm. mun vera það jafnljóst, að það er mjög einkennilegt, ef ríkið eitt af öllum aðilum getur ekki greitt skuldir sínar á þessum tímum. Ég tók það fram, þegar þetta mál var fyrst til umr., að ef til þess kæmi, að á þessu þingi yrðu gerðar róttækar breytingar á skattalöggjöfinni og þá ekki sízt í sambandi við eignaaukaskattinn og stríðsgróðaskattinn, að mér fyndist að nota ætti þennan gróðaskatt, sem leiðir af stríðinu, til þess að borga ríkisskuldirnar með. Ég vil minnast á það, að ef ekki verður gert annað en færa nokkurn hluta af útlendu skuldunum inn í landið, þá er það ekki sama og að borga skuldirnar. Ég geri því ráð fyrir, að stjórnin taki vel á þessu máli, ef því verður til hennar vísað. Þá vænti ég og þess, að athugaðir verði möguleikar á því, að komið yrði fram með löggjöf á þessu þingi á þann hátt, sem hér hefur verið um rætt. Tel ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar.