15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

139. mál, stríðsgróðaskattur

Bjarni Benediktsson:

Ég vil gera það að till. minni, að þessu máli verði vísað til n. Ég álít, að hv. d. geti ekki fallizt á það, að hingað séu send mál á síðasta degi þ. og þeim fleygt í gegn, án þess að n. fjalli um þau, enda nægileg reynsla fyrir því, að slíkt hefur ekki gefizt vel.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, skal ég ekki ræða efnislega að öðru en því, að það þyrfti miklu rækilegri endurskoðunar við en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hafði hugsað mér að koma með till. í þá átt, en lét það undir höfuð leggjast, af því að ég vissi um þetta frv. í Nd. og ég hélt, að ég mundi hafa svigrúm til að bera fram till. hér um enn frekari ráðstafanir. En þó er það svo, að ég hefði kosið að athuga þetta mál rækilegar, auk þess sem þar við bætist, að engum hagsmunum er stefnt í hættu, því að hægt er að taka málið upp í janúar og afgreiða það þá fljótt, því að það mundi þá njóta góðs af nefndarmeðferð nú, enda mundu ákvæði frv. ekki koma til greina fyrr en við næstu álagningu stríðsgróðaskatts. En aðalatriðið er, að þessi hv. d. getur ekki látið bjóða sér það, að málin séu rekin í gegn, án þess að þau fái þinglega meðferð.