29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2651)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að bera fram till. til þál., þskj. 244. er heimilar ríkisstj. að verja allt að einni milljón króna til kaupa á efni í langlínu til Keflavíkur ásamt aðalspennustöðvum og öðru efni varðandi rafveitu um kauptúnið. Það er gerð allýtarleg grein fyrir þessari till. í grg., sem prentuð er á sama þskj., og get ég því í aðalatriðum vísað til þeirrar grg., en læt hér nægja að drepa á höfuðefni málsins.

Ég held, að mér sé óhætt að gera ráð fyrir því, að flestir þm. séu svo kunnugir staðháttum í nágrenni höfuðstaðarins, að þeim sé kunnugt um hina miklu þörf íbúa þessara héraða fyrir aukinni raforku. Um nokkurt árabil hefur því aðaláhugi þessara manna verið sá að geta orðið aðnjótandi raforku úr Soginu bæði til heimilisþarfa og iðnaðar. Það hefur farið fram rannsókn á kostnaði við þetta fyrirhugaða mannvirki, og samkv. athugunum forstöðumanns rafmagnseftirlits ríkisins, sem var embættismaður ríkisins í þessu máli, álítur hann, að þetta mannvirki geti staðið undir sér sjálft, þegar það sé komið á laggirnar. Að vísu má þó gera ráð fyrir, að fyrstu árin geti orðið nokkur halli, en það er dómur þeirra, sem betur til þekkja, að innan fárra ára muni þetta fyrirtæki að minnsta kosti bera sig, þó að ekki verði hægt að telja það beinlínis arðvænlegt.

Á síðastliðnu ári réðst ríkisstj. í það, er hún hafði kynnt sér allar aðstæður í málinu, að fela sendiherra Íslands í Washington að sækja um útflutningsleyfi á efni til þessarar rafveitu, en þá var aðeins talað um Keflavík, en í síðari fyrirmælum, sem sendiherrann fékk frá ríkisstj., var honum falið að sækja um útflutningsleyfi á efni í rafmagnsleiðslu um Reykjanes og sömuleiðis til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Þetta var gert í fullu trausti þess, að Alþ. mundi síðar veita samþykki sitt. Var því hafizt handa um að fá stjórnarvöld Bandaríkjanna til þess að heimila útflutning á þessu efni. Var málum svo langt komið, að á síðasta hausti lágu fyrir loforð frá öllum aðilum nema einum um, að útflutningur á þessu efni fengist. Sú varð þó reyndin á, að á síðustu stundu voru gefnar út nýjar reglur í Bandaríkjunum, sem hnigu í þá átt, að sala efnis til rafstöðva var bönnuð, ef efnissmíði þeirra var ekki lokið. Þetta varð til þess, að þá í bili brugðust vonir manna um útvegun efnis til þessa fyrirtækis. Vegna knýjandi þarfar fyrir Keflavík sérstaklega á aukinni raforku og þar sem vélar þær, sem þeir höfðu yfir að ráða, voru orðnar gamlar, slitnar og úreltar, var hafizt handa um að reyna að bæta úr þessu með því að kaupa nýjar vélar og mótor. Fór þetta ráðabrugg fram í Ameríku undir umsjá sendiherra Íslands í Washington, forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins og hr. Grettis Eggertssonar verkfræðings, sem starfað hefur þar fyrir ríkisstj. í þessum málum. Í sambandi við þetta neyðarúrræði, hurfu þeir að því ráði að reyna enn til úrslita að fá útflutningsleyfi á efni til rafmagnsveitu Keflavíkur einnar. Þeir gerðu sér þó litla von um þetta, en svo vel hefur málum skipazt, að þetta leyfi hefur nú fengizt. Ég hef því borið fram þessa till., til þess að heimild þessi verði þegar hagnýtt, með tilliti til þeirrar knýjandi þarfar, sem ég hef áður frá skýrt, — því að verði þessi heimild ekki notuð nú, getur svo illa til tekizt að hún verði afturkölluð eða verðhækkun geti átt sér stað. Slíkt átti sér stað í fyrrahaust, þegar eina og sama efnið, sem í raun og veru var búið að heimila, var með einni reglugerð útilokað frá öllum frekari aðgerðum. Slíkt gæti komið fyrir aftur á hvaða stundu, sem er. Ég tel það því mjög miður fara, ef nokkurt tækifæri yrði látið ónotað í þessum efnum. Að sjálfsögðu hefði ég óskað eftir, að hér væru fyrir hendi möguleikar til þess að fá efni til allrar rafmagnsveitunnar um Suðurnesin og til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Þar sem ég var sá ráðherra, sem gaf fyrirmæli um kaup á efni á öllum þessum línum, en legg nú fyrir Alþ. till. um kaup á línu aðeins til Keflavíkur, stafar af því, að í dag liggur fyrir leyfi á efni í þessa línu eina, en synjun um hinar línurnar. Nú vil ég taka það fram út af þeim brtt., sem hafa komið fram, bæði frá 9. landsk. og 2. þm. Árn., að mér er mjög geðfellt, ef Alþ. vill fallast á þessar brtt., því að þær fjalla um það, sem ég hef áður beitt mér fyrir, en er hins vegar mótfallinn þeim eða mun að minnsta kosti ekki leggja ofurkapp á þær, ef þær eru til þess að hindra ríkisstj. í að kaupa það efni, sem nú er fáanlegt. Ég vil því mælast til þess við flm. þessara brtt., hvort þeir, eftir að þeir hafa talað hér fyrir þeim, sjái sér ekki fært að taka þær aftur til síðari umr. þessa máls. Þær gætu þá farið til þeirrar n., en það er fjhn., sem fær þetta mál til athugunar. Ég gæti vel hugsað mér, að það mætti sameina þær óskir, sem bornar eru fram af þessum þm., og mínar óskir með því, að ríkisstj. yrði heimilað eða falið að kaupa efni til þessara rafveitna jöfnum höndum og það er fáanlegt.

Ég vil svo aðeins geta þess, að forstjóri rafmagnseftirlits ríkisins, sem góðfúslega hefur látið mér í té allar upplýsingar í þessu máli, lét í ljós á fundi, sem hann átti með 9. landsk., hreppsnefnd Keflavíkur og mér í gær, að hann teldi nokkra hættu á ferðum, ef óþarfa bið yrði á þessum efniskaupum. Hann upplýsti einnig, að þrjú símskeyti hefðu borizt frá hinum fyrrnefnda verkfræðing, þar sem rekið er á eftir svari um efniskaupin. Forstjórinn sagði enn fremur, að það verðtilboð, sem nú lægi fyrir, væri aðgengilegt. — Vildi ég svo leyfa mér að vona, að mál þetta geti tafarlaust náð fram að ganga, því að að öðrum kosti getur orðið hætta á, að leyfi til þessara efniskaupa verði afturkölluð. Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til fjhn.