29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (2656)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram brtt. á þskj. 261 við þskj. 244. Mér þykir rétt að taka fram að gefnu tilefni, frá hv. þm. G.-K., að mín till. er ekki komin fram til þess að spilla málinu, heldur til þess að undirbúa það enn betur, ef verða mætti. Eins og flm. tók fram, þá er það sameiginlegt áhugamál allra Suðurnesjamanna að fá rafmagn frá Soginu til suðu, ljósa, hita og iðnaðar. Þetta hefur verið rætt utan héraðs og innan, og er það einróma álit Suðurnesjamanna, að hér sé um að ræða hið mesta nauðsynja- og framfaramál, og hafa þeir ákveðið að standa saman að lausn þess.

Skipuð var n. til að hafa á hendi þessi mál. Þessi n. stuðlaði að því 1944, að ríkisstj. hét að leita fyrir sér um efni. Um þetta leyti fór rafmagnsstjóri utan, og var honum falið að annast um þetta. Þegar hann kom heim frá Ameríku kvað hann efnið fáanlegt. Var nú hafin herferð til þess að reyna að útvega efnið, þegar það kæmi. Þá kom það fram, sem raunar var áður vitað, að Suðurnesjamenn gátu ekki staðið undir því af eigin rammleik að greiða efnið. Þá var það, að ríkisstj. veitti leyfi til að flytja inn efnið, sem þó var ekki gert vegna útflutningsbanns í Ameríku. Þegar hér var komið, gaf ríkisstj. sendiherra heimild til að kaupa allt efnið, og síðan hefur stöðugt verið reynt að fá leyfið allt til þessa. Nú komust fróðir menn að þeirri niðurstöðu, að væri Keflavíkurveitan tekin út úr, þá mundi efnið fást til hennar. Sú leið var farin, en áður var leitað til formanna flokkanna um stuðning, og voru þeir sammála um að styðja málið. Var þá enn leitað til stj. og hún beðin að halda áfram tilraunum um efnisútvegun. Þetta hefur ríkisstj. gert, og er nú svo komið, að ekki er vonlaust um, að takast megi að fá efnið til Keflavíkurveitunnar. Ríkisstj. mun halda þessum tilraunum áfram, og tel ég ekki vonlaust, að meira fáist, — þá í áföngum, ef ekki öðruvísi. Byggi ég þetta einkum á upplýsingum frá forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins. En þannig stendur málið nú, að leyfi er fengið fyrir efni í Keflavíkurveituna, en unnið er að því að fá leyfi fyrir efni í Reykjanessveituna.

Hv. þm. G. K. hefur borið fram till. til þál. um, að ríkið leysti inn efni til rafmagnsveitu Keflavíkur. Ég er henni samþykkur og tel óhjákvæmilegt að samþ. hana. En ég álít, að ekki sé nógu langt gengið. Það verður að miða að því að innleysa efni í rafmagnsveitu fyrir öll Suðurnes, veita ríkisstj. heimild til þess. En hún hefur lýst yfir, að hún sjái sér það ekki fært, nema fyrir liggi heimild til þess frá Alþingi. En ef efni í Keflavíkurveituna eina yrði innleyst, ættu Suðurnesjamenn á hættu að missa af efni í sína rafveitu með því að bíða og sleppa tækifæri, sem bjóðast kynni til að innleysa efni í hana. Tel ég því óhjákvæmilegt að innleysa í heild efni til Reykjanessveitunnar. 1942 leit ríkisstj. eins á málið og nú. Hún taldi sig ekki hafa heimild til að innleysa rafveituefni, sem þá lá fyrir að innleysa, en hún tók sér það, af því að hún vildi ekki eiga á hættu að missa af því efni.

Ég hef leitað upplýsinga um kostnaðarhliðina. Efni í Keflavíkurveituna um ein milljón kr. og í Reykjanessveituna um 1.670.000 kr. Þegar efnið í Keflavíkurveituna er innleyst, er meiri hluti kostnaðarins kominn.

Það hafa komið tilmæli um, að ég dragi brtt. mína út til síðari umr., en ég sé ekki ástæðu til þess, og legg ég til, að hún verði rædd við þessa umr. Getur það þá komið til athugunar síðar að athuga málið nánar.

Það hefur komið fram brtt. frá 11. landsk. þm., og á hún að vera leiðrétting. En ég hef lagt málið fyrir raffræðinga, og hafa þeir sagt, að till. mín sé rétt orðuð samkv. eðli málsins, en ekki eins og fram kemur hjá þessum hv. þm. Verð ég því að leggja til, að brtt. mín verði samþ. og vísað til 2. umr.