29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2663)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Sigurður Thoroddsen:

Það, sem fyrir mér vakir í þessu máli, er einungis, að málið nái fram að ganga, og ég er með öllum till., sem miða að því, að svo geti orðið. Þess vegna get ég vel orðið við því, hvort heldur sem yrði úr, að málinu verði frestað, eins og þeir hv. 2. þm. Árn. og hv. 9. landsk. þm. leggja til, eða, eins og hæstv. forseti fór fram á, að ég taki brtt. mína aftur til síðari umr., — alveg eftir því, hvað verður úr. Það vakir eingöngu fyrir mér, að málið nái fram að ganga.

Ég er búinn að boða hér þáltill., sem felur í sér báðar till. þessara hv. þm., þannig að mér finnst, að þeir ættu að vera reiðubúnir til þess að taka till. sínar aftur. En ég vil gera það í málinu, sem verða má, til þess að þessu verði hraðað sem mest.

Hæstv. forseti drap á það hér áðan, að í brtt. minni hefði fallið úr, hvaðan ríkisstj. bæri að taka þetta fé, sem verja ætti til þessara kaupa, og ég skal játa, að það er yfirsjón, annaðhvort hjá mér eða í prentun, að það féll niður, að það átti að vera úr ríkissjóði. En mér finnst allt benda til þess, að ríkisstj. beri að verja því fé úr ríkissjóði, sem til þessa þarf.