12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2670)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var rætt í fjvn., kom það fram, að allir nm. voru sammála um, að rétt væri, að ríkið greiddi fyrir því, að hægt væri að ná í það efni til rafveituframkvæmda, sem á annað borð væri mögulegt að fá útflutningsleyfi fyrir nú í Ameríku. Ágreiningurinn í fjvn. er því meira um það, í hvaða formi eigi að afgreiða þessa þáltill., en um efnisatriði. Við höfum, minni hl. n., lagt til á þskj. 385, að þáltill. verði orðuð eins og þar hermir, að ríkisstj. verði heimilað að verja fé úr ríkissjóði til kaupa á rafveituefni, sem útflutningsleyfi fæst fyrir í Ameríku, þar til er næsta reglulegt Alþingi kemur saman. — Þessi þáltill., sem hér er til umr., er aðeins um heimild til þess fyrir ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði til að kaupa efni í línu til Keflavíkur ásamt spennistöðvum þar. Við þessa aðaltill. hafa svo komið fram brtt. Brtt. á þskj. 261 er um það að láta heimildina ná til kaupa á efni til langlínu til sjávarþorpa á Suðurnesjum yfirleitt, og er efnið úr þeirri till. tekið upp í brtt. hv. þm. Ísaf. á þskj. 395. Auk þess hefur hv. 2. þm. Árn. borið fram brtt., sem hér liggur einnig fyrir, á þskj. 275, um það að veita ríkisstj. einnig heimild til þess á sama hátt að greiða fyrir innflutningi á efni með því að leggja fram fé úr ríkssjóði fyrir slíku efni, sem kynni að fást í rafveitu til kauptúnanna í Árnessýslu.

Nú hafa komið upplýsingar um það, að fengið sé útflutningsleyfi í Ameríku fyrir efni í Keflavíkurlínuna eina út af fyrir sig, og talið er, að nú þegar þurfi að ganga frá kaupum á því efni, til þess að leyfið fyrnist ekki. Verði till. okkar minnihlutamanna samþ., þá er eftir henni hægt nú þegar að festa kaup á þessu efni, en eftir okkar till. er stj. einnig heimilt að kaupa efni í aðrar rafveitur, sé það fáanlegt. Við ætlumst til, að heimildin gildi, þar til Alþingi kemur saman næst, væntanlega snemma á næsta ári. Vera má, að litlar horfur séu á, að útflutningsleyfi fáist fyrir meira efni í Ameríku en til Keflavíkurlínunnar, en þó virðist mér það ekki útilokað, og þykir minni hl. þá rétt, að hæstv. stj. hafi heimildina víðtækari en gert er ráð fyrir í aðaltill., til þess að hægt sé að kaupa efnið, ef það er fáanlegt, t. d. til annarra þorpa á Suðurnesjum eða kauptúnanna austan fjalls. Engin hætta er í sambandi við að veita hæstv. stj. þessa heimild, því að ég geri ekki ráð fyrir, að keypt verði annað en það, sem að athuguðu máli telst skynsamlegt að festa kaup á, enda mun, eins og áður er fram tekið, það vera takmarkað, sem nú er hægt að fá af þessum vörum í Ameríku.

Mér sýnist því, að allir, sem hlut eiga að máli, ættu að geta fallizt á að samþ. till. eins og lagt er til á þskj. 385, að hún verði orðuð, vegna þess að verði hún samþ., þá er í raun og veru fullnægt öllum þeim óskum, sem fram hafa komið í þessu efni, hún nær yfir það allt saman.