12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen) :

Það er út af ræðu hv. 9. landsk., að ég segi nokkur orð. Það, sem honum sást yfir að athuga hér, er, að það er ekki vani, að n. geri ákvörðun um mál, fyrr en búið er að vísa því til hennar. Og auðvitað getur fjvn. ekkert ákveðið um till., sem er ekki einu sinni komin til 1. umr., hvað þá heldur, að búið sé að vísa henni til n. Meiri hl. gerir hér ákveðinn greinarmun í samræmi við það, að fyrir efni því, sem þáltill. fjallar um, er útflutningsleyfi þegar fengið, og mátti því ekki dragast, að sú till. fengi afgreiðslu. Hins vegar er ekki þannig ástatt um hinar till., og vænti ég því, að það komi ekki í bága við neitt, þó að það dragist. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram til að leiðrétta þennan misskilning hv. þm., að því er snertir starfshætti á Alþ.

Út af orðum hv. frsm. minni hl., að það séu einkennileg vinnubrögð að fara að taka málið upp aftur í stað þess að samþ. heimildina í einu lagi, er það að segja, að hér er alls ekki um það að ræða að taka málið upp aftur, því að auðvitað þurfa till. að fá rétta þinglega meðferð, áður en kemur til kasta fjvn.

Ég hef svo ekki meira að segja fyrir hönd meiri hl. n., því að hv. flm. veik að þeim atriðum, sem annars var ástæða til að minnast á.