12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2685)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. G.-K. Hann lét skína í, að ég hefði tekið máli hans illa, þegar hann kom til viðtals. Ég ætla ekki að fjölyrða um okkar orðaskipti, en vil benda hv. þm. á till. okkar minni hl., og er það fullnægjandi svar til hans. Hv. þm. segist ekki hafa brúk fyrir aðrar till. en sínar, en samt fór hann að vitna í, að fram væri komið frv. eða þáltill. frá þm. sósíalista, sem honum var mikið kappsmál að lýsa fylgi sínu við. En það mál er ekki komið til umr. hér enn. Má vel vera, að það sé gott mál, ég skal ekkert um það segja að svo stöddu, en mér virðist það heppilegri vinnubrögð að afgreiða heimildina í einu lagi en fara að taka upp málið að nýju.