12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2686)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætlaði að spyrja um tvennt. Öðru hefur nú hæstv. forsrh. þegar svarað, en hin spurningin er til hæstv. forseta. — Í brtt. okkar minnihlutamanna á þskj. 385 ætlumst við til, að ríkisstj. sé veitt heimild til að kaupa rafveituefni, sem útflutningsleyfi fæst fyrir í Ameríku. Nú skulum við segja, að þessi till. verði felld, og er ég þá að koma að spurningunni. Er þá hægt að bera fram á Alþ. aðra till. rétt á eftir um að veita ríkisstj. þessa heimild? Það liggur hér fyrir till. á öðru þskj., þar sem farið er fram á hina sömu heimild og er eins og okkar till. að öðru en því, að hún er ótímabundin. Ég skil ekki, hver munur er á því fyrir rafmagnsveitu Keflavíkur, hvor till. verður samþ., og sízt eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. Ég hef aldrei skilið það, og ég skil ekki, að nokkur muni skilja það.