15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

144. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér á þskj. 310 ásamt hv. þm. Snæf., felur í sér, að inn í mjólkursölul. skuli sett ákvæði um lögbindingu á verðjöfnunarsvæðunum, en ákvörðun á þeim hefur fram að þessu verið á valdi mjólkurverðlagsnefndar. Ég geri ráð fyrir því, að menn hafi veitt því athygli í grg., að tilgangur þessa frv. er að gefa þeim sýslum á Norður- og Vesturlandi, sem hafa möguleika á því að koma mjólk á markað í kaupstöðunum, tækifæri til þess með því að taka þær inn á verðlagssvæðin, enda er hægt að flytja mjólk úr þeim sýslum, sem við leggjum til, að teknar verði inn á verðlagssvæði Reykjavíkur, á jafnskömmum eða skemmri tíma en það tekur að flytja mjólkina úr þeim sveitum, sem nú eru fjarlægastar á verðlagssvæðinu. Þetta er nú orðið mögulegt vegna þess hve mjög ástandið hefur breytzt, síðan mjólkursölul. voru sett. Sú breyt. liggur einkum í því, að samgöngur hafa batnað mjög og auk þess hefur fólkinu í kaupstöðunum fjölgað meira en í hlutfalli við vöxt mjólkurframleiðslunnar á verðlagssvæðinu, þannig að það hefur komið í ljós, að framleiðslan hefur ekki fullnægt þörfinni fyrir mjólk og mjólkurafurðir, og hefur þetta komið gleggst fram í haust, þótt það hafi nokkuð sýnt sig áður, einkum með smjörið.

En aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv. er þó sú, að atvinnuskilyrði í þeim héruðum, sem hér um ræðir, hafa breytzt mjög til hins verra, vegna þess að fjárpestirnar hafa höggvið mjög stórt skarð í fjárstofninn, svo að útlit er fyrir, að mjög verði örðugt um alla atvinnuhætti í þessum héruðum, ef þau eiga að bjargast á sauðfjárrækt eingöngu. Sama máli er að gegna með Suður-Þingeyjarsýslu, sem við höfum lagt til, að tekin verði upp á verðlagssvæði Akureyrar og Siglufjarðar. Þar mun ástandið nú vera einna verst á öllu landinu, vegna þess að þar lifa menn nær eingöngu á sauðfjárrækt og fjárpestirnar hafa gert þar enn þá tilfinnanlegri usla en víðast annars staðar á landinu. Það er staðhæft af mönnum þar norður frá, að það horfi til fullkominna vandræða, ef ekki verði fundin einhver ráð til úrbóta. Í Þingeyjarsýslu eru ekki góð skilyrði til mjólkurframleiðslu, en það gæti þó létt undir með mörgum, ef þeir gætu komið einhverri mjólk frá sér á markað.

Þessu frv. verður sennilega andmælt með þeim rökum, að úr þessum héruðum þurfi að flytja mjólkina svo langa leið að hún hljóti að verða léleg neyzluvara. En hluturinn er sá, að eins og ég gat um áðan, hafa samgöngur batnað svo mjög, að fjarlægðanna vegna munar það nær engu, þótt þessi héruð verði tekin inn á verðlagssvæðin.

Ég skal svo að öðru leyti láta nægja að vísa til grg. og mun ekki ræða þetta meira að sinni, nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði vísað til landbn. að lokinni þessari umræðu.