06.09.1943
Efri deild: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

30. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. (Magnús Jónsson):

Eins og hv. þdm. munu geta skilið, hefur ekki unnizt tími til að prenta nál. Ég býst því við, að ég verði að lesa upp það álit, sem samið hefur verið. Það er eitt álit að vísu, en þó er n. klofin. Álit meiri hl. er þannig:

„Nefndin hefur átt tvo stutta fundi um frumvarp þetta og rætt það við fjármálaráðherra. Meiri hl. telur ekki óeðlilegt, að rýmkuð sé álagningarheimild á tóbaki eða ákveðnum tegundum þess, og getur af þeim ástæðum mælt með því, að frv. verði samþ. En um ráðstöfun á því fé, sem aflað verður með frv., hefur fjmrh. skýrt frá yfirlýsingu, er hann muni gefa við 2. umr., og telur meiri hl. þá yfirlýsingu fullnægjandi til þess að tryggja vald þingsins til ráðstöfunar fjárins.

Samkv. framansögðu mælir meiri hl. með því, að frv. verði samþ.

Minni hl. (BrB) telur yfirlýsingu fjmrh. ekki fullnægjandi og leggur til, að frumv. verði fellt.“

Ég hef að svo vöxnu máli enga ástæðu til að bæta neinu við þetta, en við 1. umr. málsins kom aðallega fram, að þeir, sem létu í ljós nokkurn ugg við að samþ. þetta frv., væntu yfirlýsingar frá stj., sem ber þetta frv. fram, að því fé, sem aflast með þessu frv., ef að l. verður, verði varið þannig, að tryggt sé, að það sé í samræmi við vilja meiri hl. Alþ. Við í meiri hl. teljum, að með þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. hefur skýrt n. frá, sé þetta tryggt, og viljum því mæla með, að frv. verði samþ.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þetta mál.