22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2730)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Flm. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. á þskj. 185 er flutt af þm. úr öllum flokkum. Fyrri hluti till. stefnir að því, að rannsókn fari fram á bókum olíufélaganna og á því, hvort skattaframtöl þeirra séu rétt. Samkv. útsvarsskrá Reykjavíkur er allur skattur þessara tveggja olíufélaga rúmlega kr. 1.100.000.00. Nemur þá skattskyldur ágóði sem næst l milljón og 600 þús. kr.

Sú verðlækkun, sem félögin buðu ríkisstj., var um 2 millj. og 500 þús. eða um 900 þús. kr. meiri en skattskyldur ágóði þessara félaga hefur verið samkv. skattskránni. Í fyrsta lagi vilja þau lækka olíuverðið upp undir 1 millj. meira en ágóðinn nam. Það virðist ærið rannsóknarefni, af því að félögin setja það skilyrði fyrir þessari verðlækkun, að ríkisstj. hlutist til um, að þau verði laus við samkeppni á markaðinum.

Í öðru lagi hefur komið í ljós, að þau hafa vitað það á undan ríkisstj., að í ráði var að láta fram fara breytingar á olíuverzluninni, sem hafa mundu talsverða verðhækkun í för með sér.

Flm. telja hvort tveggja þessara atriða þannig vaxið, að eðlilegt sé, að sett verði opinber rannsókn um það, hvort eitthvað sé þar á bak við, sem hættulegt sé gagnvart hagsmunum sjávarútvegsins og hagsmunum Íslendinga yfir höfuð, og sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það. Flm. líta svo á, að þingið mundi standa á bak við ríkisstj. um rannsókn málsins.

Seinni liður till. fjallar um það, að ríkisstj. og löggjafinn hlutist til um umbætur á olíuverzluninni í þá átt að tryggja notendum, að þeir fái olíuna við sannvirði. Vitað er, að ríkisverksmiðjurnar keyptu olíu á sama stað og tíma og olíufélögin á s. l. sumri. Þær seldu hana aftur á 38 aura lítrann á sama tíma og félögin seldu olíuna á 51 eyri lítrann. Get ég fullyrt, að ríkisverksmiðjurnar töldu sig hafa vel fyrir kostnaði og sæmilegan hagnað af sölunni.

Eins og nú er komið, eru miklir erfiðleikar hjá sjávarútveginum vegna hinnar miklu verðhækkunar, sem orðin er á útgerðarvörum. Mundi útgerðinni vera það mikil þörf að þurfa ekki að una við okur á þeim vörum, sem hún þarfnast. Reynslan hefur orðið sú, að útgerðin hefur þurft að borga olíufélögunum óþarflega mikið fyrir dreifingu olíunnar. Gildir það bæði fyrir og eftir ófriðinn. Það þarf að koma málum sjávarútvegsins í það horf, að útgerðin og hluthafar geti fengið hagnaðinn af olíuverzluninni. Ég get búizt við, að menn greini á um leiðir. Sumir mundu kjósa, að tekin yrði upp hreinlega einkasala á bæði brennslu-, ljósa- og smurningsolíu, — aðrir, að þetta yrði einhvers konar samlags- eða samvinnuverzlun. Ég tel fyrir mitt leyti, að skjótari árangur mundi nást, ef fyrri leiðin yrði farin. En ég mundi ekki vilja skera mig úr um það, að gerðar yrðu athuganir í þessu sambandi og reynt eftir öðrum leiðum að ná sama takmarki.

Allir flokkar standa saman um, að nauðsynlegt sé að athuga skjöl olíufélaganna nú þegar og fá olíuverzlunina þegar á þessu ári í hendur útgerðarinnar sjálfrar, en vitanlega verður það á engan hátt gert án tilstyrks ríkisins á einn eða annan hátt, og það þyrfti að ganga þannig frá þessu máli, að væntanleg olíusamlög yrðu opin fyrir öllum og trygging yrði fyrir því, að olíufélögin gætu ekki þröngvað kosti væntanlegra samlaga eins og þau sannanlega hafa þröngvað kosti þeirra tveggja eða þriggja olíusamlaga, sem nú eru í landinu. Ég held, að Alþingi geri vel í því að sýna, að það geti í slíkri nauðsyn, sem hér er, brugðið skjótt við og verið einhuga. Það væri hægt að hafa stór orð um þessa olíuverzlun, en ég ætla að sleppa því, vegna þess að ég lít svo á, að nauðsyn sé stórra aðgerða í stað stórra orða.

Ég vil vænta þess, að þessi till. verði samþ., án þess að hún fari til n., þar sem hér er um að ræða mál, sem allir flokkar þingsins standa saman um.