22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (2732)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég vildi skipta þessari till. á þskj. 185 í þrennt: Í fyrsta lagi rannsókn á bókum og skjölum olíufélaganna og samanburð á verðlagi, í öðru lagi samanburð við skattaframtöl og í þriðja lagi undirbúning að löggjöf og till. um olíuverzlunina. Ég get gefið upplýsingar um það, að viðskiptaráð hefur þegar gert ráðstafanir, hvað 1. lið snertir, og er þessi rannsókn þegar í undirbúningi, þó að ekki sé hægt nú þegar að leggja málið fyrir þingið. En það mun verða gert svo fljótt sem kostur er á og skal ekki verða dregið lengur en nauðsyn krefur. Í þessu sambandi vildi ég gjarna gefa upplýsingar út af skrifum og umr., sem hafa orðið um þetta mál, bæði utan þings og innan. Það kom fram í ræðu á þingi, þegar rætt var um þetta síðast, að verðlagseftirlitið hefði sýnt deyfð gagnvart félögunum. Félögin hafa einnig í yfirlýsingum, sem þau hafa gefið, viljað láta skína í það, að þau hafi ekki fengið að tala við verðlagseftirlitið síðan 11. des. 1942, og verður það ekki öðruvísi skilið en þau hafi gengið á eftir ríkisstj. og verðlagseftirlitinu með grasið í skónum um að fá að lækka verðið. Verðlagsstjóri og verðlagseftirlitið hefur á engan hátt gefizt upp við félögin, og þau hafa haft greiðan aðgang að honum, hvenær sem er, en sú ósk hefur aldrei komið fram frá þeirra hálfu að lækka verðið. Maður skyldi ætla, að slík ósk hlyti að byggjast á því, að þau hefðu keypt olíuna lægra verði en hún var keypt, þegar útreikningarnir 11. des. 1942 voru gerðir, en það vill svo einkennilega til, að verðið er nú hærra en lagt var til grundvallar í útreikningnum þá, og skal ég koma að því síðar.

Dómnefnd í verðlagsmálum ákvað hámarksverð 11. des. 1942 miðað við það, sem var á olíu þann 14. sept. það ár. Þegar núverandi stj. tók við, hafði, eins og kunnugt er, staðið deila út af verðhækkun, sem flotastjórnin vildi ákveða á olíu. Það stóð í þófi þangað til í marz s. l. um að fá þetta lagfært. Skömmu síðar kom upp önnur krafa, að vísu miklu minni, en um verðhækkun, sem ekki fékkst lagfærð fyrr en í byrjun júlímánaðar þ. á., en öllu lauk á þann veg, að um sama og enga hækkun var að ræða. Hinn 1. júlí sendu svo félögin verðlagsstjóra útreikninga með eftirfarandi verði miðað við sölu í Rvík: Benzín 68,7 aura lítrinn, steinolía 62,8 aura kg og hráolía 45,6 aura kg. Þetta er að heita má sama verð og ákveðið var af dómnefnd í verðlagsmálum í desember, en þá ákvað dómnefndin verðið: Benzín 66 aura, steinolía 61½ og hráolía 46 aura. Útreikningur olíufélaganna byggist á grundvelli, sem lagður var fyrir löngu og fyrst notaður af verðlagsn. og síðan af dómn. í verðlagsmálum, sem sætti að sjálfsögðu mikilli gagnrýni á þessu tímabili, svo að ekki er hægt að segja, hvað grundvöllinn snertir, að þar sé um handahófsverk að ræða. Það, sem hér er um að ræða, er verð vörunnar í höfn, raunverulegur kostnaður og heimiluð álagning. Í þessu tilfelli var heimiluð 5% álagning á vöruna, eins og hún verður með kostnaði og dreifingarkostnaði úti um land. Þessi álagning verður til samanburðar við þá lækkun, sem orðin er: á benzíni 4,3 aurar, á steinolíu 2,8 aurar, á hráolíu 2,1 eyrir. Þetta er sú álagning, sem á að vera handa olíufélögunum og heimiluð er af verðlagseftirlitinu, en lækkunin nemur: af benzíni ca. 8 aurum kg, af steinolíu 8½ eyri, af hráolíu 9 aurum. Álagningin er því ekki nema brot af þeirri verðlækkun, sem um er að ræða. Hér er því að mínu áliti til athugunar, hvort félögin hafa frá því fyrsta gefið upp ranga kostnaðarliði.

Í byrjun júlí, þegar séð varð endanlega, hvað verðið mundi verða á olíu, hóf verðlagsstjóri undirbúning að því að gera athugun á þessum kostnaðarliðum félaganna með það fyrir augum, hvort hægt væri að færa verðið niður, en svo gerðist það í byrjun ágúst, að síldarverksmiðjur ríkisins hófu sölu á hráolíu, og skömmu síðar hóf stj. umr. við félögin, og gerði hún þá verðlagsstjóra þau orð að taka ekki neinar sérstakar ákvarðanir í þessu máli, á meðan þessar umr. færu fram, og álít ég, að ekki sé hægt að bera á verðlagsstjóra neinar sakir í þessu máli. En eins og ég gat um áður, hefur viðskiptaráð ákveðið, að rannsókn og endurskoðun skuli fara fram, til þess að fá úr því skorið, hvernig í þessu liggur.

Það innkaupsverð, sem lagt er til grundvallar í útreikningi félaganna og í verðlagsákvæðunum í des. 1942, er sem hér segir: Benzín komið í höfn hér kr. 242.19 tonnið, verður nú komið í höfn hér kr. 279.03 tonnið. Steinolía kr. 201.76 nú 216.17 Hráolían er það eina, sem hefur lækkað lítillega, úr kr. 204.58 í kr. 190.02 eða um 1.4 aura kg.

Síðasta greinargerð félaganna, sem þau sendu frá sér, verð ég að segja, að er blekkingarvefur og annað ekki. Þau segja, að útreikninga þá, sem þau sendu frá sér 1. júlí, hafi þau ætlað að nota sem „viðræðugrundvöll“. Það er ekki hægt að senda frá sér útreikninga af þessu tagi til verðlagsstjóra sem viðræðugrundvöll, því að mönnum ber að senda verð vörunnar, raunverulegan kostnað, og annað ekki. Þess vegna er það fjarri hinu sanna að halda því fram, að hægt sé að senda slíkt inn sem viðræðugrundvöll. Félögin hafa, eins og ég gat um áður, leyfi til að leggja á vöruna 5%. Það, sem þar er fram yfir, getur ekki verið annað en hreinn raunverulegur kostnaður, að viðbættu innkaupsverði vörunnar. Í greinar gerð félaganna segir líka, að á fyrsta fundi, sem ég átti með þeim, hafi þau lagt fram tilboð sín. Þetta eru bein og ófyrirleitin ósannindi. Þeir komu á minn fund fyrst án þess að leggja fram nokkurt tilboð, en á öðrum fundinum lögðu þeir fram tilboð sitt, eftir að þeim hafði verið gert ljóst, að stj. mundi taka til sinna ráða, ef ekki fengist lækkun á verðinu.

Ég tel ekki ástæðu til að fara lengra út í grg. þeirra, en ég vildi aðeins minnast á það, að eitt dagblaðanna gerist á sunnudaginn málsvari félaganna með því að fullyrða, að olíufélögin hafi fyrir löngu boðið að lækka verðið, en það hafi lent í undandrætti fyrir verðlagsstjóra eða stj. að sinna því, en aftur hafi útsöluverðið lengi verið miðað við hærra innkaupsverð eða meiri tilkostnað og ekkert gert til þess að samræma útsöluverðið, fyrr en sölufélögin hafi hafizt handa til þess að fá þessu kippt í lag. — Ég verð að segja það, að enginn fótur er fyrir því, sem hér er sagt, og er það nokkuð langt gengið, þó að menn séu ekki ánægðir með stj., að rægja gerðir hennar og gerast málsvarar olíufélaganna á þann hátt, sem hér er gert.