15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2741)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þetta mál lýsa óánægju minni yfir því, hvernig haldið hefur verið á þessum skattamálum, sem voru til meðferðar á síðasta Alþ., þó að það hafi kannske litla þýðingu að láta slíka óánægju koma fram. Það var samþ. þá að kjósa mþn., sem átti að ljúka störfum fyrir 15. ágúst s. l., og átti ríkisstj. að velja formann n. En þetta tókst þannig, að n. lauk ekki störfum fyrr en komið var langt fram í október. Svo dróst það enn talsvert hjá ríkisstj. að koma niðurstöðum n. til þingsins, og er nú aðeins fyrir örskömmu þetta frv. komið til hv. fjhn. þessarar d. Það er eins og þarna hafi mörg öfl verið að verki til þess að draga afgreiðslu á störfum þessarar n. með öllu móti, og fer ég ekki nánar út í það að sinni, en lýsi óánægju minni yfir þessu.

Þá hefur það komið í ljós, að innan mþn. í skattamálum hefur hver höndin verið upp á móti annarri um flest af því, sem mestu máli skiptir og fyrir hana var lagt í þessum efnum, þannig að árangur af starfi n. hefur orðið sáralítill, — eiginlega aðeins sá að tefja þessi mál í meðferð þingsins. Auðvitað hefði þingið ekki þurft að láta þessa málsmeðferð í mþn. tefja sig, en sú hefur orðið raunin á, að þetta hefur orðið að þeirri töf, sem dugir til þess, að ekki er nokkur von til þess, að á þessu þingi verði afgreitt nokkuð, sem að gagni má koma í þessum málum, ef að vanda lætur um afgreiðslu þeirra atriða, sem menn greinir á um, um það, hvaða tíma það tekur að afgreiða mál, sem menn eru ekki sammála um.

Ég ætla ekki að fara mikið út í efni frv. við þessa umr., en vegna ummæla hv. flm. vil ég minnast á skattadómaraembættið. Í frv., sem ég flutti með tveim öðrum þm. í byrjun þings, var gert ráð fyrir, að skattadómara yrði skylt að taka upp mál til rannsóknar. Í þessu frv. er það ekki gert, en hins vegar á í staðinn að skipa skattstjóra í öllum kaupstöðum og gera þeim skylt að leita aðstoðar héraðsdómara að kalla menn fyrir rétt, og þar hafa þeir réttindi til að bera fyrir menn spurningar. Heimild til að fjölga skattstjórum er í lögum, og e. t. v. er ekkert móti því að ákveða nú, að það skuli gert og þeim veittur þessi aukni réttur að bera fram spurningar. En þarna er gengið fram hjá því, hvert hlutverk skattadómara sé, og ekkert tillit tekið til frv. okkar um það efni. Ef n. og Alþingi getur ekki fallizt á að skipa skattadómarastörfum nokkuð á þann veg, sem við lögðum til, væri réttast að fella embættið niðar. Bæði hefur þannig til tekizt um val manns í stöðuna, að áhrifin eru lítil, enda er honum ekki lögskylt að taka mál upp að fyrra bragði. Fyrir 2. umr. þætti mér rétt, að rætt yrði milli okkar, sem fluttum fyrra frv., og flm. þessa frv. og fjhn., hvort ekki yrði samkomulag um brtt.