22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2745)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Einar Olgeirsson:

Ég vil mótmæla því eindregið, að umr. sé frestað. Ég álít, að ríkisstj. hafi allt of lengi tekið of lint á þessum félögum. Þær eru orðnar nógu margar milljónirnar, sem olíufélögin eru búin að reyta af bátaútveginum. Ég get ekki séð annað en það sé hneyksli að láta dragast að samþ. þessa þáltill. Það liggur fyrir, að ákveðnir menn hér í landi hafa gefið ríkisstj. rangar upplýsingar, beinlínis logið að henni, til þess að ekki kæmist upp um óleyfilega álagningu olíufélaganna, og það er ekki einu sinni farið að láta þau borga sektir fyrir álagninguna, hvað þá meira. Mér þykir það hart, ef Alþingi þorir ekki að láta lögin ganga jafnt yfir alla, þor ir ekki að snerta við olíufélögunum af því, að álitið er, að þau hafi sterka menn erlendis að styðjast við. Samanborið við það, hvernig smákaupmenn hafa orðið fyrir barðinu á l. eða saumakonur, er það hart, ef þetta mál er dregið á langinn viku eftir viku og ekkert fæst gert. Mér finnst sómi Alþingis liggja við, að röggsamlega sé tekið á málinu. Ég tek alveg undir till. þm. Ísaf., að málið sé afgr. án nefndar.