22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2753)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Einar Olgeirsson:

Þar kom að því, að þeir sjálfstæðismenn kæmu að sjálfu málinu: þetta sé ofsókn gegn olíufélögunum. En það, sem hér er í rauninni um að ræða, er sókn olíufélaganna innan Sjálfstfl. í þeirri von að drepa málið. Það er góð og gömul aðferð, ef drepa þarf mál, að vísa því til n. Og til hvaða n. á nú að vísa því? Til allshn. vænti ég, ekki satt? Og hver er formaður þeirrar n., er það ekki hv. 2. þm. Eyf. (GÞ)? (Þrír þm.: Jú). Alveg rétt. Við getum ímyndað okkur áhuga hans á að flýta fyrir opinberri rannsókn, þegar hann er búinn að fá málið í n. Þangað var t. d. vísað málinu um eignarnám kvikmyndahúsanna. N. og formaður hennar ætluðu að athuga það mál. Hvað hefur svo gerzt? Það mál hefur af náttúrlegum ástæðum ekki sézt enn. Þegar þetta mál kæmi í n., tækju formaðurinn og hv. þm. Snæf. að tala um, að það þurfi að sýna olíufélögunum sanngirni. Eftir viku yrði haldinn fundur, en þá lægju engar upplýsingar fyrir, svo að málinu yrði frestað. Hálfum mánuði eftir það yrði haldinn annar fundur, en því miður hefðu ekki borizt nein svör frá olíufélögunum, svo að fresta yrði málinu. Þá samþ. allshn. að skrifa olíufélögunum og biðja um svör hið bráðasta. Síðan liði annar hálfur mánuður, þangað til n. tæki málið upp á fundi, — skemmri tími alls en liðinn er, síðan mál kvikmyndahúsanna kom í n., — og þá yrði n. óþolinmóð og skrifaði félögunum mun ákveðnara bréf. Enn liði hálfur mánuður, og enn yrði formaður að tilkynna á fundi, að því miður hefðu olíuhringarnir ekki svarað enn, þrátt fyrir hin ítrekuðu tilmæli. Kannske n. klofnaði þá og meiri hl. vildi krefja hringana svars enn einu sinni, en einir tveir nm. kæmu kannske með nál., en degi síðar en það minnihl.-álit kæmi fram, yrði þinginu slitið. Þetta er bara ein aðferðin til að svæfa málið, þetta mál, sem þjóðin óskar eftir, að sé afgreitt, og ætti að vera búið að afgreiða.