22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2757)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Sigfús Sigurhjartarson:

Þessi varnarbarátta hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. Eyf. fyrir olíufélögin er sveipuð í mjúkar umbúðir. Það er ofur einfaldlega farið fram á athugun í n., því að um svo athugavert lögfræðilegt atriði sé að ræða. Það er rétt, að það komi fram, hvaða meðferð málið er þegar búið að fá. Ríkisstj. hefur tvívegis gefið sjútvn. beggja d. skýrslu um málið, og málið hefur verið rætt í öllum þingflokkum. Loks hefur stj. gefið skýrslu í þ., og málið hefur verið rætt þar. Það hefur því fengið mjög rækilega þingmeðferð, og það er ekki út í bláinn að koma með till., sem reist er á þessu. En það er því gersamlega tilefnislaust að krefjast þess nú, að málinu sé vísað til nýrrar athugunar.

Annar verjandi málsins, hv. þm. Snæf., hefur lagt fram ágæta till., að fram fari rannsókn á annarri mikilli stofnun, mjólkursamsölunni, svo að ég skil ekki, á hverju byggist þessi mikla viðkvæmni gagnvart olíufélögunum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vil eindregið mótmæla því, að málinu verði frestað með því að taka það af dagskrá eða vísa því til nefndar.