22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2758)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Þóroddur Guðmundsson:

Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í umr., en hv. 2. þm. Eyf. dró mig inn í þær og hélt því fram, að mér væri kunnugt um, að þær ásakanir, sem hv. 2. þm. Reykv. kom fram með á hendur honum sem form. allshn., væru ekki á rökum reistar. Ég skal ekki deila á hann, þó að dregizt hafi afgreiðsla bíómálsins, en ég veit, að hún hefur dregizt allt um of. Það hefur verið leitað umsagnar nokkurra manna og samþ. að láta rannsaka l. um þetta mál á Norðurlöndum, en svo fundust ekki í háskólanum norsku l., en sænsku og dönsku l. voru borin saman, og svo var farið að tala um, að bráðum mundi kannske koma fram frv. um bíórekstur. Ég veit ekki, hvað verður, en ég veit, að hann getur ekki ætlazt til, að nm. beri það, að hann hafi lagt kapp á afgreiðslu málsins. Ef ofan á verður að vísa málinu, sem hér liggur fyrir, til n., má það ekki vera allshn., því að svo virðist sem form. n. og hv. þm. Snæf. hafi ákveðnar skoðanir í þessu máli. Hv. þm. Snæf. fullyrti, að hér væri um ofsókn gegn olíufélögunum að ræða, frekari vitna þarf ekki við. Ég held, þegar ég hef heyrt álit þessara tveggja þm., að ég geti nokkurn veginn séð fyrir, hvernig fer í n., og ég get sagt það, að mér þætti ekki ólíklegt, ef málið kæmi fyrir allshn., að kallaðir yrðu fulltrúar úr olíufélögunum og lagt mest upp úr framburði þeirra. Það var fyrir skömmu mál um eignarnámsheimild fyrir n. Það upplýstist, að á þ. átti sæti einn af eigendum landsins, sem taka átti eignarnámi, og hann var kallaður á fund allshn. Það varð ofan á að fara mest eftir því, sem þessi jarðeigandi sagði, en hafa að engu vilja bæjarstj., sem skipuð var öllum flokkum. Ég er anzi hræddur um, að eins gæti farið um þetta mál, að hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Snæf. krefji til fulltrúa frá olíufélögunum og taki allt trúanlegt, sem þeir segði, — Málið liggur þegar svo skýrt fyrir, að ástæðulaust er að þvæla því til nefndar.

Ég vil segja út af orðum hv. þm. Snæf., að honum fatast stundum, þegar hann er að tala um pólitík, þó að löglærður sé, og slær út í fyrir honum. Það er kunnugt, að hann hefur haldið ræður og skrifað greinar, þar sem hann býðst til að verja tvö mismunandi sjónarmið. Ég hugsa, að honum dytti ekki í hug á almenna vísu að vera báðum aðilum jafntrúr, enda kemur það fram hjá honum, að í þessu máli talar hans pólitíska samvizka, og þó að hann tali um að vera allra fulltrúi, kemur það fram, að hann lítur fyrst og fremst á málstað þessara auðhringa og fullyrðir, að um ofsókn sé að ræða á hendur þeim.

Ég legg áherzlu á, að þetta mál verði afgr. nú þegar, en fari það til n., vil ég, að það sé sjútvn.