22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Ólafur Thors:

Ég hef ekki blandað mér í umr., en mér komu ummæli hæstv. forseta á óvart. Hann upplýsti, að hér vantaði 5 þm., sem hafa ekki lögmæt forföll. Þó að þeir fari til að halda stjórnarfundi, eru það ekki lögmæt forföll. Það er ekki einu sinni leyfilegt að ræða ákveðin mál, af því að þeir eru fjarstaddir, en hvernig má það samræmast hinu, að teknar séu ákvarðanir í svona miklu deilumáli, án þess að þeir séu við? Ég efast ekki um, að a. m. k. sumir hinna fjarstöddu þm. mundu telja máli skipta, að hæstv. ráðh. skýrir beinlínis frá því hér í viðurvist okkar, að frá hans hendi liggi ekki fyrir neinn grundvöllur um það, hvort slík rannsókn, sem hér er um að ræða, sé réttmæt eða ekki. Eftir að ég hef heyrt það, er ég ekki bær um að heimta sakamálsrannsókn á vissa borgara í landinu, og það er kannske einsdæmi, að Alþ. taki sig fram um slíkt.

Hæstv. forseti sagðist ekki vita, hvort þeim þm., sem fjarstaddir eru, væri nokkur greiði ger með því, að beðið væri með málið. Ég veit það ekki heldur, en ég veit, að öðrum mönnum hér í d. er greiði ger með því, að þeir segi sína skoðun með atkv. sínu. Ég treysti mér ekki til að ákveða sakamálsrannsókn á meðborgara mína, og ég sé ekki, að neinn voði sé fyrir dyrum, þó að málið bíði til mánudags.

Ég skora á hæstv. forseta að taka til nýrrar athugunar, hvort hann sér sér ekki fært að verða við ósk um frestun. Ég veit ekki, hvenær þessir fjarstöddu þm. geta mætt. E. t. v. gætu þeir mætt á fundi á morgun, þó að laugardagur sé.