11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2776)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Frsm. 1. minni hl. ( Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Þegar þetta mál var rætt fyrr hér í hv. d., þá átti ég vegna fjarvistar ekki sæti í d. og fylgdist því ekki með umr. á því stigi málsins. Ég fjallaði ekki heldur um það í allshn., þar sem ég á sæti, einnig af þeirri ástæðu, sem áður greinir. Varamaður minn, sem sæti átti á þ. og í n. í fjarveru minni, var kjörinn frsm. þess minni hl., sem leggur til, að till. verði samþ. óbreytt, og held ég mér því að málflutningi þess minni hl., sem mælir með till. eins og hún liggur fyrir á þskj. 185.

Ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að rekja aðdragandann að þessari till. Það mál hefur líka verið ýtarlega rakið við framsögu málsins í hv. deild og umr. á Alþ. út af skýrslum hæstv. ráðh. út af olíusölunni yfirleitt. En ég held ég megi fullyrða, að þingheimur sé allur á einu máli um, að framkoma þeirra tveggja olíuhringa, sem hafa sölu á megninu af þeirri olíu, sem útgerðin notar, hafi v erið þannig, að full þörf og ástæða sé til, að Alþ. og ríkisstj. geri einhverjar ráðstafanir til að binda enda á hana. Að vísu vil ég taka fram, að hæstv. ríkisstj. hefur þegar gert nokkrar ráðstafanir, sem ganga í þá átt að koma í veg fyrir, að hinu óeðlilega háa verði væri haldið uppi. En þó að tekizt hafi fyrir atbeina ríkisstj. með stuðningi Alþ. að taka fyrir það, að olían vær í seld svo háu verði sem olíufélögin vildu, þá hefur þessi reynsla gert að verkum, að mönnum er ljóst, að ástæða er til að hafa vakandi auga á olíuhringunum og rannsaka rekstur þeirra til þess að tryggja, að slíkt geti ekki komið fyrir aftur. Hæstv. ríkisstj. er nokkuð kunnugt um, hvernig háttað er starfi olíuhringanna, en hins vegar er lagt til í till. á þskj. 185 að skora á ríkisstj. að láta fara fram opinbera rannsókn á bókum og skjölum olíufélaganna. Af þeim fregnum, sem ég hef haft af umr. um þetta mál, þegar till. var lögð fram, skilst mér, að deilt sé um, hvort ástæða sé til að ætla, að með orðalagi till., eins og það var í upphafi, sé verið að fyrirskipa ríkisstj. að hefja sakamálsrannsókn á hendur olíufélögunum: Ég hef einnig fengið það upplýst, að hæstv. dómsmrh. hafi skilizt af orðalagi till., að svo væri.

Nú er ég þeirrar skoðunar, að það sé ekki fyrirskipun til ríkisstj. beinlínis, að hún léti fara fram sakamálsrannsókn nú þegar. Það er talað um „opinbera rannsókn“, ekki „réttarrannsókn“. En mér skilst, að ríkisstj. gæti ákveðið það að lokinni hinni opinberu rannsókn, hvort hún léti fara fram sakamálsrannsókn að henni lokinni, ef hún teldi, að þau gögn hefðu komið fram í málinu, sem réttlættu það.

Nú er það að vísu svo, að það er erfiðleikum bundið fyrir hvaða stj., sem er, að láta fara fram rannsókn á flóknu fjárhagsmálefni, án þess að sú rannsókn fari fram fyrir rétti. Árangurinn af þeirri rannsókn færi mikið eftir því, hvernig hinn aðilinn hagaði sér. Ef hann væri fús til að gefa upplýsingar, þá gæti svo farið, að ekki þyrfti opinbera réttarrannsókn. En svo gætu þessar upplýsingar einnig leitt í ljós, að bæði rétt og skylt væri að höfða mál.

Ég sé því enga ástæðu til að fallast á brtt. hv. 1. þm. Árn., sem hann ber fram við till. á þskj. 185. Að efni til er brtt. skyld aðaltill. og ekki verulega frábrugðin í neinu. Þar er nánar farið í sum atriði og gert ráð fyrir almennri rannsókn utan réttar, en einnig gert ráð fyrir möguleikanum á opinberri réttarrannsókn. Það er því óþarfi að samþ. þessa brtt., þar eð hún er sama efnis og aðaltill.

Aftur er brtt. þriðja minni hl. veruleg efnisbreyt., sérstaklega varðandi fyrri lið till., þar sem rannsóknin á eingöngu að vera bundin við viðskiptaráð, hvernig sem því tekst að framkvæma hana. Þetta er of skammt gengið. Viðskiptaráð er önnum kafið fyrir og því hæpið, að það geti rekið rannsóknina af þeirri röggsemi, sem þörf er á í jafnalvarlegu máli og hér blasir við Alþ. Með þessu er reynt að gera málið sem minnst og rannsóknina ófullkomna, svo að ekki fáist nægar upplýsingar um það, sem rannsaka þarf. En það er illa farið og í ósamræmi við mikilvægi málsins.

Ég þarf ekki að halda langa framsöguræðu á þessu stigi málsins. En ég vil skjóta því til hv. dómsmálaráðh., að ég er þeirrar skoðunar, að upphafið á fyrri tölulið þáltill. á þskj. 185 sé á þá lund, að það sé á valdi ríkisstj., hvort hún beitir opinberri réttarrannsókn í upphafi, því að henni er falið að láta fara fram opinbera rannsókn, en ekki opinbera réttarrannsókn. Hins vegar hefur hún heimild til þess síðara, ef rannsóknin leiðir í ljós, að þess er þörf.

Niðurstöður mínar verða því þær, að samþ. beri nál. fyrsta minni hl. óbreytt, að brtt. annars minni hl. sé óþörf og skaðlegt sé að samþ. brtt. þriðja minni hl., sem reynir að gera málið sem minnst. Við leggjum því til, að till. verði samþ. óbreytt.