11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2778)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Frsm. 3. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í nál. okkar, er n. þríklofin um þetta mál. Vilja tveir nm. samþ. till. óbreytta, en till. gengur, eins og kunnugt er, út á það, að Alþ. láti fara fram sakamálsrannsókn á hendur forstjórum olíufélaganna til þess að ganga úr skugga um, hvort réttar séu skýrslur þær, sem olíufélögin hafa gefið viðskiptaráði um rekstur sinn, í sambandi við verðlag á olíu og benzíni og enn fremur í sambandi við skattaframtöl þeirra.

Það er, sem betur fer, eins dæmi, að fram komi till. til þál. um það, að Alþ. fyrirskipi sakamálsrannsókn, því að eins og kunnugt er, er ákæruvaldið hjá dómsmrh., og það er því hans eða ríkisstj. að taka ákvörðun um sakamálsrannsóknir.

Mér þykir nú rétt að rekja með nokkrum orðum það, sem gerzt hefur undanfarið í sambandi við verðákvarðanir á olíu og benzíni.

Eins og kunnugt er, hafa olíufélögin olíugeyma og benzíngeyma víða úti um land, þótt olían sé víða seld í tunnum. Flutningskostnaður til hinna ýmsu staða er því eðlilega mjög mismunandi, en verðið á olíu er þó víðast utan Reykjavíkur hið sama, þannig að flutningskostnaði til þeirra staða, sem dýrast er að flytja til, er jafnað á hina staðina, sem ódýrara er að flytja til. Síðan fyrir stríð hafa félögin miðað verð sitt á olíu og benzíni við kostnað eins og hann í öllum aðalatriðum var 1938. — 1940 er þeim Ara Thorlacius og Birni Árnasyni, endurskoðendum, falið af verðlagsn. að athuga bækur félaganna og reyna að finna af þeim grundvöll að verðlagi á olíu. Lögðu þeir til grundvallar kostnað samkv. bókum 1938. Niðurstöðutölur endurskoðendanna voru síðan af verðlagsn. lagðar til grundvallar við verðlagninguna. — 1942, er dómnefnd í verðlagsmálum var starfandi, ákvað hún, að verðlagsgrundvöllur þeirra Ara Thorlaciusar og Björns Árnasonar skyldi endurskoðaður og breytt þannig, að kostnaður við sölu og dreifingu olíu og benzíns skyldi fara eftir raunverulegum kostnaði félaganna, eins og hann var 1941, í stað 1938. Á þessum tölum var síðan ákveðið verðlag á olíu og benzíni af dómnefnd í verðlagsmálum 11. des. 1942. Þetta verðlag var ekki gert ráð fyrir, að gilti nema til áramóta, vegna þess að von var á mikilli verðhækkun, en 18. des. 1942 voru samþ. lög, sem bönnuðu verðhækkun til 1. marz 1943, og varð síðan engin verðbreyting á olíunni fyrr en nú 1. okt. s. l., og hefur viðskiptaráð á þessum tíma, frá því er það tók til starfa, aldrei gert neitt til að athuga eða semja nýjan brundvöll. Þannig hefur verð á olíu, bæði af verðlagsn., dómnefnd í verðlagsmálum og nú síðast af viðskiptaráði byggzt á grundvelli, sem hinir löggiltu endurskoðendur gerðu, en hinir ýmsu kostnaðarliðir breytast að sjálfsögðu til hækkunar eða lækkunar vegna breyttrar vísitölu o. s. frv.

Ég vil þá koma með nokkrum orðum að því, hvað það á að vera, sem forstjórar olíufélaganna hafa unnið saknæmt, hvort þeir hafa gefið upp rangar tölur eða rangar skýrslur eða tekið ólöglegan hagnað, þannig að fyrir liggi upplýsingar um saknæmt athæfi, en á því á það að byggjast, hvort till. þessi verður samþ. eða ekki.

Eins og kunnugt er, hækkaði verð á olíu og benzíni stórkostlega, þegar Bandaríkjaflotinn tók við af Bretum að flytja og selja olíu hingað, og lagfæring á því fékkst ekki fyrr en í byrjun júlí s. l., þannig að til þess tíma hlutu olíufélögin að selja með stórtapi, ef þessi lagfæring hefði ekki fengizt. Fyrr en þá a. m. k. var verðlag á þessari vörutegund ekki óeðlilega hátt. Í byrjun júlímán. sendu olíufélögin viðskiptaráði verðlagsáætlun, og var hún, eins og áður hefur tíðkazt, byggð á grundvelli endurskoðendanna miðað við vísitölu eins og hún var þá, 246, og mun það vera það fyrsta, sem gert er í þessu máli, frá því að Bandaríkin féllu frá verðhækkun. Síðan, — 1. ágúst, — var viðskiptaráði sendur nýr verðútreikningur, sem að því eina leyti var breyttur, að gert var ráð fyrir minni hráolíusölu á Siglufirði, vegna þess að þá höfðu ríkisverksmiðjurnar fyrir milligöngu ráðherra sent þangað olíu og hf. Nafta var að byrja sölu á benzíni hér í Reykjavík. Það er öllum alveg ljóst, að minnkandi sala hlýtur að skapa einhverja verðhækkun, þegar sú sala á að fara fram á stað, sem tiltölulega ódýrt er að flytja til. Við athugun á rekstrarafkomu félaganna fyrstu 6 mánuði ársins kom í ljós, að afkoma þeirra var mjög góð, og töldu forstjórarnir því, að þeir gætu lækkað verð á olíu og benzíni. Verðlagsstjóri, sem kom á fund allshn., upplýsti, að forstjóri annars félagsins hefði hringt til sín í byrjun ágúst og óskað eftir því, að viðskiptaráð héldi fund næsta dag og verð á benzíni og olíu yrði ákveðið. Verðlagsstjóri var þá að fara í sumarfrí og gat ekki náð saman fundi og var málinu frestað. Sagðist hann hafa lofað að ganga frá þessu um miðjan ágúst. En þegar þar að kom, hafði ríkisstj. tekið þessi mál í sínar hendur.

Þær skýrslur, eins og það er orðað í till., sem olíufélögin hafa af hendi látið við viðskiptaráð, eru þær tvær verðlagsáætlanir, sem þau sendu aðra 6. júlí, en hina 1. ágúst. Ég veit ekki til, að í þeim skjölum hafi neitt verið, sem var rangt eða villandi. Í báðum þessum áætlunum var byggt á grundvelli endurskoðendanna, eins og siður var, og kostnaðartölunum breytt til samræmis við vísitöluna, í hinu fyrra miðað við venjulega sölu, en í hinu síðara reiknað með minnkandi sölu vegna sölu ríkisverksmiðjanna á olíu og hf. Nafta.

Verðlagsstjóri upplýsti á fundi allshn., að allar sömu grunntölurnar hafi verið í báðum áætlununum, en aðeins mismunur á sölumagni. Það er engin ástæða til að ætla, að olíufélögin hafi ekki tekið réttar kostnaðartölur eftir bókum sínum. Hitt er svo rétt, að ætíð hlýtur að vera meira eða minni ágiskun um sölumagn og ýmsa liði í sambandi við dreifingu og flutning, en jafnframt er það þá viðskiptaráðs — eins og það var áður dómnefndar í verðlagsmálum — að gera sér grein fyrir, hvort áætlunarliðirnir séu of hátt taldir.

Eins og kunnugt er, er hægt að setja hámarksverð á vöru með tvennu móti: að seljandinn megi ekki leggja á vöruna nema ákveðinn hundraðshluta miðað við kostnaðarverð hennar eða, að ákveðið sé útsöluverð vörunnar. Bæði verðlagsn., dómn. í verðlagsmálum og viðskiptaráð hafa viðhaft síðari regluna, að því er snertir sölu á olíu og benzíni. Útsöluverð hefur verið ákveðið og auglýst.

Upphaflega mun olíufélögunum hafa verið reiknað í hagnað ca. 5–10%. Viðskiptaráð og dómnefnd í verðlagsmálum munu hafa reiknað með 5% „margin“. Af þessu leiðir, að ef sala eykst sérstaklega eða hægt er að minnka kostnað við dreifingu, eins og t. d. verður með lækkun vísitölu, þá getur hagnaður seljanda orðið meiri en hin áætluðu 5%, eins og hann líka getur horfið við minnkandi sölu eða aukinn kostnað. Það er þess vegna ekki rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í ræðu við fyrri umr. þessa máls, að olíufélögin mættu hafa 5% hagnað og meira ekki. Þegar verðið er ákveðið, er reiknað og gengið út frá 5% „margin“, en það er ekki ólöglegt, þó að hagnaður verði meiri við það, að sala eykst eða kostnaður minnkar. Ég fæ þess vegna ekki séð, hvað það er í „skýrslum“ þeim til viðskiptaráðs, sem talizt geti rangt, eða hvað það sé, að öðru leyti, sem gefi tilefni til sakamálsrannsóknar. — Verðlagsstjóri tók einnig fram, eins og tekið er orðrétt upp í nál., að ekkert væri fram komið, sem gæfi tilefni til sakamálsrannsóknar, og það sama hefur hæstv. fjmrh. sagt í ræðu hér á Alþingi. Ráðuneytið hefur falið verðlagsstjóra að athuga þetta mál, og sú rannsókn stendur nú yfir og er framkvæmd af Ragnari Ólafssyni, löggiltum endurskoðanda og einum starfsmanni viðskiptaráðs. Ég vil einnig upplýsa, að verðlagsstjóri skýrði frá, að olíufélögin hefðu aldrei neitað um neinar þær upplýsingar, sem beðið hafi verið um. Samkv. l. um verðlag hefur viðskiptaráð aðgang að öllum skjölum og bókum olíufélaganna. Það þarf því ekki sakamálsrannsókn til að fá þær upplýsingar, sem með þarf.

Það er einnig krafizt sakamálsrannsóknar í sambandi við skattaframtöl félaganna. Aðalflm. hefur rökstutt þetta með því að láta orð falla um það, að sú verðlækkun á olíu, sem olíufélögin hafi boðið, hafi numið hærri upphæð en þau borguðu í skatt og útsvar fyrir s. l. ár eða að verðlækkunin hafi átt að nema 2½ milljón, en skattar og útsvör hafi ekki numið nema nokkuð á aðra milljón. Hér er um algeran misskilning að ræða. Félögin greiddu af tekjum sínum 1942 í skatt og útsvar samtals kr. 1.618.898,10. Þau hafa samkv. l. heimild til að leggja í varasjóð 20% af tekjum sínum, þannig að þau hafa haft meira en 2 milljónir skattskyldar tekjur. Þá er það upplýst, að fyrri hluta þessa árs höfðu olíufélögin meiri hagnað en á s. l. ári, og það er jafnframt vitað, að samkv. gildandi skattal. rennur meginhluti af háum tekjum til ríkis og bæjar. Af þessum ástæðum gátu olíufélögin staðið sig við að bjóða þá verðlækkun, sem þau buðu, þar eð jafnvel þótt þau hefðu beðið tap frá 1. sept. til áramóta, mundi hagnaður þeirra samt sem áður hafa numið verulegri upphæð. Verðlækkunin átti að koma til framkvæmda 1. sept., og frá þeim tíma til áramóta gat lækkunin í hæsta lagi . numið 600 til 700 þús., en ekki 2½ millj., eins og 1. flm. hefur haldið fram.

Það er algerlega rangt, sem haldið hefur verið fram, að þessi verðlækkun væri miðuð við stríðslok eða ákveðinn tíma. Hún var ótímabundin með öllu, og þó að olíufélögin mættu ekki aftur hækka verð sitt nema með leyfi viðskiptaráðs, þá verður að gera ráð fyrir, að það leyfi hefði fengizt, þegar sýnt var, að reksturinn bar sig ekki.

Þessi ástæða, sem færð er fram fyrir sakamálsrannsókn í sambandi við skattaframtöl þeirra, er því hreinn misskilningur. Ég veit ekkert dæmi þess, að Alþingi álykti, að höfðuð væri sakamálsrannsókn í sambandi við framtal til skatts. Þessir skattþegnar eins og aðrir eru bókhaldsskyldir. Þeir eru skyldir til að telja fram tekjur sínar, eignir og skuldir og til að gefa skattayfirvöldunum allar upplýsingar, sem óskað er eftir. Skattaframtöl umrædds árs hafa farið til niðurjöfnunarn., yfirskattan. og ríkisskattan., og enginn þessara aðila hefur fundið minnstu ástæðu til að vefengja framtöl þeirra. Samkvæmt l. starfar sérstakur skattadómari, sem hefur vald eins og hver annar dómari, sem með opinber mál fer. Mætti ekki ætla, að skattayfirvöldunum hefði þótt ástæða til einhverrar aðgerðar gagnvart þessum aðilum, að þau hefðu snúið sér til skattadómarans, og væntanlega væri það eðlilegra en Alþ. færi að samþ. að höfða sakamálsrannsókn vegna þessa.

Ég vil að síðustu taka það fram, að verð á benzíni kann að hafa verið of hátt og gróði félaganna því óeðlilega mikill. Það er allt annað mál og því máli raunverulega óviðkomandi, sem hér liggur fyrir. Hér snýst málið um það eitt, hvort rétt sé, að Alþ. hefjist handa og samþ. sakamálsrannsókn þrátt fyrir yfirlýsingu verðlagsstjóra og ráðh. um, að ekki sé vitað, að neitt saknæmt liggi fyrir, — sem þó stöðu sinnar vegna eiga að þekkja bezt til þessara mála. Mér er ekki grunlaust um, að þeir, sem fyrir þessari till. standa, hugsi meir um pólitískan hagnað en að þjóna réttlætinu.

Rétt afgreiðsla þessa máls væri að mínu áliti sú að vísa því frá með rökstuddri dagskrá, vegna þess að ríkisstj. hefur þegar gert það í þessu máli, sem gera ber, með því að fyrirskipa viðskiptaráði athugun málsins, en hins vegar get ég fellt mig við það, að Alþ. staðfesti það, að það óski eftir því, að þeirri rannsókn, sem þegar er hafin, verði haldið áfram til hlítar.