11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (2779)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Eysteinn Jónsson:

Ég er einn af flm. þessarar þáltill., sem hér er um að ræða. Ég var ekki viðstaddur þegar fram fór fyrri hl. umr., og tel ég þess vegna viðeigandi að gera örlitla grein fyrir þeim ástæðum að flytja till. og einnig afstöðu minni til brtt., sem fram eru komnar.

Ég vil þá með örfáum orðum minnast á ræðu hv. 2. þm. Eyf., en hann hefur nú tekið það að sér að reyna að sýna fram á, að það sé misskilningur, að nokkuð athugavert sé við framkomu olíufélaganna í þessu máli. Og svo mikið þykir honum við þurfa, að hann les hér upp skrifaða málsvörn fyrir þessar niðurstöður, og var málið af hans hálfu flutt, vægast sagt, ákaflega einhliða. Ég sé ekki sérstaka ástæðu til þess að fara að ræða þessar skýrslur svo mjög, sem hv. þm. Eyf. lagði sig svo mikið eftir. En aðalatriði ræðu hv. þm. fannst mér vera það, að upplýsingar þær, sem olíufélögin hafa gefið til verðlagsyfirvalda á hverjum tíma, séu þannig, að engin ástæða sé til annars en ætla, að þær séu allar réttar og fái fullkomlega staðizt. En þetta er alveg í mótsögn við skilning okkar flm. Við lítum svo á, að málin liggi þannig fyrir, að ástæða sé til að ætla, að þær skýrslur fái ekki staðizt og í þessu efni greinir okkur mjög á við hv. 2. þm. Eyf.

Hv. 2. þm. Eyf. rakti nokkuð sögu málsins og sagði, að verðlagsgrundvöllurinn, eins og hann kallaði það, sem upphaflega var settur, hefði verið ákveðinn af löggiltum endurskoðendum. Ég veit, að það er rétt, að löggiltir endurskoðendur athuguðu plögg olíufélaganna snemma á stríðstímanum, en vitaskuld byggðu þeir ályktanir sínar á því, sem olíufélögin lögðu fyrir þá, þannig að þetta er ekkert atriði í því máli, sem hér er um að ræða, auk þess sem þetta gerir framkomu félaganna alltortryggilega, eins og hún var í öndverðu.

Það, sem mest stingur í augum manna í sambandi við þetta, er það, að olíufélögin gerðu tilboð til stj. í september s. l. um að lækka olíuverðið stórkostlega, þannig að það mundi nema um 2½ milljón króna, ef þau fengju loforð um að sitja ein að olíuverzluninni í landinu. Þetta er nokkuð tortryggilegt. Hér koma einnig til greina upplýsingar, sem fjmrh. hefur gefið hér í d., og upplýsingar, sem fjmrh. og atvmrh. gáfu á fundi í sjútvn. um það, að skömmu áður en þetta var — eða um mánaðamótin júlí og ágúst — hafi olíufélögin farið fram á það, að verðlagið, eins og það var þá, yrði endurskoðað, ekki til þess að lækka verðið, heldur fyrst og fremst til þess að hækka verðið frá því, sem verið hafði. Þetta er aðalatriði málsins, og fram hjá þessu gekk hv. 2. þm. Eyf. algerlega. Það má heita hreint furðulegt, að nokkrum hv. þm. skuli geta skotizt yfir þetta og þá sérstaklega, þegar leggja á megináherzluna á það, að olíufélögin hafa getað boðið þetta góða boð í september 1943, af því að þau hafi á árinu verið búin að græða svo mikið, að þau gætu séð af þessu.

Hvað ætluðu þau að gera við þennan gróða um mánaðamótin júlí og ágúst, þegar þau ætluðu að endurskoða verðlagninguna, ekki til þess að lækka, heldur til þess að hækka? Fram hjá þessu er ekki hægt að ganga, og hlýt ég að byggja á því, sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst, bæði framan af umr. og síðar.

Ég vil vekja athygli á tveim atriðum, sem mega ekki gleymast, og það er, að þegar olíufélögin buðust til þess í sept. að lækka olíuna, af því að þau væru búin að hagnast svo mikið á árinu, að þau þyldu það, þá var slík lækkun ekki boðin fram skilyrðislaust, heldur með því skilyrði, að félögin fengju einkarétt á olíusölunni. Hvað átti að verða af þessum 2½ millj., ef félögin fengju ekki þennan einkarétt? Fram hjá þessu er ekki hægt að ganga, þegar talað er um sérstaka athugun á viðskiptum félaganna við yfirvöld landsins. Það er einnig mjög nauðsynlegt, að það liggi glöggar upplýsingar fyrir um lækkunina, sem knúin var fram 1942, og er það atriði þannig vaxið, að undarlegt er, ef hv. 2. þm. Eyf. stendur ekki einn uppi með þann skilning sinn, — sem fram kom í ræðu hans, — að ekki sé ástæða til að ætla, að neinar rangar upplýsingar hafi verið gefnar. Ég segi, að það sé full ástæða til að ætla, að rangar upplýsingar hafi verið gefnar. Ég segi ekki, að þær hafi verið gefnar, en kveð ekki fastara að orði en ástæða er til.

Hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) leggur mikla áherzlu á það, — og mun gera það í því augnamiði að spilla fyrir, að Alþingi láti í ljós eindreginn vilja sinn um rannsókn í málinu, — hann leggur áherzlu á það, að í þessari till., sem fyrir liggur, sé fyrirskipuð sakamálsrannsókn, og vill með þessu gera till. svo óvinsæla, að jafnvel þeir, sem vilja rannsókn í þessu máli til botns, geti ekki fallizt á till. eða till., sem ganga í sömu átt. Nú vil ég segja það, að í fyrsta lagi er ekki um neina fyrirskipun að ræða, heldur áskorun af hálfu Alþingis um opinbera rannsókn, og í öðru lagi hefur það verið tekið fram af hv. 4. þm. Reykv., — og er ég honum alveg sammála um þann skilning, sem hann leggur í orðið opinber rannsókn, — að það geti legið milli hluta, hvort samkvæmt þeirri málsgreiningu fari fram rannsókn utan réttar eða innan. Ég skal játa það, að ég er ekki lögfræðingur og hafði ekki ástæður til þess, þegar till. var sett í letur, að hnitmiða orðalag hennar eftir hárfínum snúrum lögfræðinnar. Aðalatriðið í þessu máli er það, að það þarf að fara fram ýtarleg rannsókn vegna þess, sem fram er komið fyrr og síðar um þessi mál. Það þarf að rannsaka skýrslur þær, sem gefnar hafa verið til opinberra stofnana, til þess að komast að raun um, hvort gefnar hafa verið rangar upplýsingar eða ekki. Til þess að ganga úr skugga um þetta þarf rannsókn að vera ýtarleg á bókum, bréfum og skjölum. Aðalatriðið er, að Alþingi láti skýrt í ljós vilja sinn um, að ýtarleg rannsókn fari fram, og að málið verði allt rannsakað í botn. Hitt er atriði, sem segja má, að dómsmrh. eigi að hafa á sínu valdi að ákveða, hvort rannsóknin skuli vera utan réttar eða innan. Ef ráðh. tekst að ná fram öllum upplýsingum, sem nauðsynlegar eru, og fá aðgang að öllum skjölum, bréfum og bókum, sem félögin varða, og gengið er út frá, að að sá, sem rannsóknina framkvæmir, leggi sig fram um að heimta þær upplýsingar, sem upplýsa málið til hlítar, — ef þetta er fyrir hendi, þá eru upplýsingarnar jafngóðar, þótt þær séu fengnar utan réttar, en ef þetta fæst ekki, þá er réttarrannsókn nauðsynleg. Nú mundu kannske sumir spyrja sem svo, hverjir segja ættu til um, hvort öll gögn væru komin fram í málinu, en ég vil segja það, að um það atriði geta engir aðrir ákveðið en dómsmálastjórn landsins. Ef farið væri strax af stað með opinbera réttarrannsókn, mundi ráðh. ákveða rannsóknardómarann, og hann mundi ákveða, hvort réttarrannsókn færi fram, eftir að utanréttarrannsókn hefði verið lögð fyrir ráðuneytið. Þingið á að láta koma fram af sinni hálfu alveg glöggt, að það óski þess og krefjist, að þetta mál verði rannsakað til fulls. Síðan hlýtur það að heyra undir ráðh., hvernig hann framkvæmir rannsóknina og hvenær hann lætur staðar numið. Rannsóknin verður gerð á hans ábyrgð, en vilja þingsins veit hæstv. ráðh., ef ályktun v erður gerð.

Af þessari afstöðu minni, sem ég hef lýst og læt nú við sitja, leiðir það, að ég get fallizt á að vera með brtt. þeirri, sem hv. fyrri þm. Árn. flutti, — ekki vegna þess, að þar sé um að ræða neina verulega efnisbreyt. á því sem fyrir liggur, heldur er till. hans skýrari. Í fyrsta lagi er það, sem fyrir mér vakti í þessu máli, gleggra tekið fram en í upphaflegu till., og enn fremur eru nokkur atriði ýtarlegar tekin fram, hvað snertir þörfina á rannsókn, og sérstaklega þar sem tekið er fram, að rannsaka einkum þær skýrslur, sem hafa verið gefnar dómnefnd í v erðlagsmálum og verðlagsnefnd. Þessi plögg þarf líka að rannsaka, en þess láðist að geta í upphaflegu till. Ég mun því fylgja þessari till. af þeim ástæðum, sem ég hef tilgreint. Ég get ekki skilið annað en hv. 1. minni hl. allshn. ætti einnig að geta stutt þá till. En auðvitað verða þeir að gera það upp við sig. Mér virðist það bera svo lítið á milli flm. og tveggja þeirra minni hl. sem hér hafa skilað áliti og gert grein fyrir áliti sínu, að það eru formsatriði ein, sem á milli ber, og þeir ættu því að geta komið þessu máli í höfn. En viðvíkjandi till. eins af minni hl., þeirra hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) og hv. þm. Snæf. (GTh), virðist mér sú till. flutt til þess að drepa málinu á dreif, eins og mér fannst ræða hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) bera glöggt vitni um.