06.09.1943
Efri deild: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

30. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég ætlaði ekki að segja nema örfá orð út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. eða minni hl. n. tók fram um skoðun sína á því, hvort ríkisstj. hefði þessa heimild samkvæmt dýrtíðarl. Ég skal geta þess, að í áliti n. og yfirlýsingu hæstv. ráðh. felst engin fullyrðing um þetta, og við nm. erum algerlega óbundnir um það, hverja skoðun hver um sig hefur á því. Hæstv. Alþ. dæmir að sjálfsögðu um það sjálft, hvenær telja beri, að fengnar séu þær tryggingar, sem um er að ræða. Og ég sé nú ekki, hvers vegna hv. 1. þm. Eyf. þurfti að hafa sérstöðu í þessu máli. Það er ekki nema eðlilegt, þegar borið er fram frv., sem felur í sér svona stórkostlega tekjuöflun, án þess að því fylgi nokkur yfirlýsing um tilganginn, að þá sé nokkuð sérstök aðferð viðhöfð. Um þá hugmynd að setja inn í frv. ákvæði um það, hvernig fénu skuli varið, vil ég segja það, að um slíkt er alls ekki að ræða á þessu stigi málsins, en fyrir n. vakti að tryggja það, að þegar til kæmi, yrði viðhöfð hin þinglega aðferð, að hæstv. Alþ. ákvæði þetta. Nú er hins vegar nauðsyn, að málið fái fljóta afgreiðslu, og skal ég þá ekki verða til þess að lengja umr., enda ekki ástæða til þess.