24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. gerði hér ríkisskattan. nokkuð að umtalsefni. Ég hef átt sæti í þessari n. og vil gjarnan leiðrétta nokkurn misskilning hjá honum.

Það er alveg rétt hjá þessum hv. þm., að þeir, sem í ríkisskattan. vinna, eiga jafnt að hafa hag skattþegna og ríkisins fyrir augum og gera öllum þar jafnt undir höfði. En einmitt af því, að víðar er tilhneiging til að draga undan skatti en telja fram of miklar tekjur, kemur það þannig út, að n. virðist fremur vinna fyrir ríkið en skattþegnana.

Það er líka rétt, að n. hefur alloft sent menn til Vestmannaeyja, stundum eftir beiðni yfirskattan. þar. En það hefur ekki ævinlega gengið vel að fá þar þær upplýsingar hjá skattþegnum, sem þurft hefur. Hefur ósjaldan komið fyrir, að þurft hefur að biðja um bækur manna, og hafa þær ekki æfinlega fengizt. T. d. var þar einn gjaldandi, sem taldi fram milli 20 og 30 þús. kr. tekjur. Sendimanninum virtist, að tekjurnar ættu að vera meiri, og lagði fram drög fyrir því. Manninum var skrifað, og komst hann þá upp í milli 60 og 70 þús. kr., en hann hafði neitað að láta fram bækurnar. Við rannsókn síðar reyndust tekjurnar á annað hundrað þús. kr., og þær varð hann að viðurkenna, eftir að búið var að skoða bækur allar. Ég held því, að ekki sé hægt að álasa n. fyrir þessar sendiferðir, eins og hv. þm. vill gera. Þær eru alls ekki óeðlilegar og hafa verið farnar til fleiri staða en Vestmannaeyja. Það hafa stundum orðið árekstrar, en það hefur þá helzt verið af stífni og að menn hafa neitað að gefa fulltrúum n. upplýsingar.

Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að fyrst fara á að breyta þessum l., þá er nauðsynlegt að afnema skattfrelsi hlutafélaga, sem engan áhætturekstur reka, svo sem félög, sem stofnuð eru til að leigja út lóðir og húseignir. Að láta slík félög njóta skattfrjáls frádráttar til þess að stofna varasjóði er svo mikil fjarstæða og vitleysa, að það eru undur, að það skuli ekki hafa verið afnumið fyrir löngu. Sama er að segja, þegar félög hafa margskipt sér niður til þess að geta fengið sem mest skattfrelsi.