15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2817)

95. mál, fjörefnarannsóknir

Flm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú um það bil ár síðan eða þó nokkuð meira, að rannsóknarráð ríkisins samdi frv. til l. um rannsóknargjald af lýsi og sendi ríkisstj. Með þessu frv. var ætlazt til þess, að fengnar yrðu nægilegar tekjur til þess að standa straum af nauðsynlegum fjörefnarannsóknum á lýsi. Þetta frv. var síðan sent sjútvn. Alþ., en um það náðist ekki samkomulag. Hv. sjútvn. taldi, eins og kannske að sumu leyti er rétt, að þau gjöld, sem á sjávarútveginum hvíldu nú, væru svo mörg og margþætt, að ekki væri ástæða til að bæta einu gjaldinu enn víð. N. flutti því annað frv. um breyt. á l. um vinnslu, verkun og mat meðalalýsis, þar sem ríkisstj. var heimilað að ákveða, að allt meðalalýsi skyldi fjörefnarannsakað af Atvinnudeild háskólans og að lýsiseigandi greiði gjald fyrir slíka rannsókn. Enn fremur var þar lagt til að heimila ríkisstj. að ákveða, að öllum meðalalýsissendingum til útlanda yfir 10 kg skyldi fylgja vottorð um þunga, fjörefni, tegund og gæði lýsisins. Þetta frv. taldi rannsóknarráðið hins vegar ekki viðunandi, því að með því yrði ekki náð þeirri tryggingu, sem það ætlaðist til, að náð yrði. Fór þetta nokkuð á milli mála, þannig að sá tilgangur náðist ekki, sem ætlaður var.

Ég ræddi um þetta mál, þegar frv. sjútvn. var hér til umr., og lýsti þá, hvernig þessi mál stóðu. Það hefur verið starfrækt A- og D. fjörefnarannsókn frá 1936 og stöðugt þangað til nú, og sá árangur, sem þær rannsóknir hafa gefið, hefur verið með ágætum. Það eina, sem á hefur skort, er, að ekki hefur verið til staðar D-rannsókn á nema mjög litlum hluta af lýsismagninu eða ¼ hluta. Það, sem þess vegna er flutt til útlanda fram yfir þennan ¼ hluta, sem rannsakaður er, fer, án þess að vottorð fylgi því um, að það sé rannsakað, og er það illa farið, því að með þessum rannsóknum hefur tekizt að fá upp verð lýsisins miklu meira en þekkzt hefur annars, og er það rannsóknunum að þakka. — Ufsalýsi var talið lélegra en þorskalýsi, en nú hefur komið í ljós við fjörefnarannsóknir, að ufsalýsi er fjörefnaríkara en þorskalýsi. Þetta og þvílíkt hefði ekki getað komið fyrir, þ. e. a. s., að betri varan væri talin lélegri í þessu efni, ef fjörefnarannsóknir hefðu verið fullkomnar frá byrjun og framkvæmdar í því formi, sem æskilegast hefði verið. En þetta fjörefnainnihald er svo breytilegt á ýmsum tímum árs, og þess vegna er nauðsynlegt, að fylgzt sé með því allt árið, þannig að hverr í lýsissendingu af hæfilegri stærð geti fylgt vottorð um fjörefnainnihaldið. Lýsisframleiðendur sjálfir voru fúsir til að sætta sig við það gjald, sem rannsóknarráðið ákvað í till. sínum. Þetta gjald var ½ eyrir á kg með eðlilegu vísitöluálagi. En sjútvn. þingsins vildi ekki fallast á það, einungis vegna þess, að hún taldi gjöldin svo mörg á sjávarútveginum, að ekki væri á það bætandi, og það út af fyrir sig er kannske rétt.

Til þess nú að beina þessu máli inn á enn aðrar brautir hef ég eftir ósk rannsóknarráðsins borið fram þessa þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 153. Hún fer fram á það, að úr ríkissjóði verði veittar þær fjárupphæðir, sem nægja til þess að skapa aðstöðu til aukinna rannsókna, þ. e. a. s., að veittar verði 50 þús. kr. úr ríkissjóði í tvö ár, 1943 og 1944, til þess að bæta og auka skilyrði Atvinnudeildar háskólans til fjörefnarannsókna. En fyrir þessi framlög er hugsað að kaupa nauðsynlegan dýrastofn til þessara rannsókna og áhöld og annað, sem nauðsynlegt er til þessara hluta. Þegar svo þessi stofnkostnaður væri greiddur og keypt inn fyrir hann það, sem nú hefur verið lýst, þá er ætlazt til þess, að sjálfar rannsóknirnar verði kostaðar af lýsiseigendum og þannig, að ríkið þurfi engan skaða af því að hafa. Og reyndar er ekki gert ráð fyrir neinum rekstrarkostnaði af því, heldur að þessar rannsóknir standi undir sér fjárhagslega.

Það, sem mér þykir þó á skorta í þessu, er, að ekki eru allir lýsisframleiðendur skyldaðir til þess að láta fjörefnarannsaka allt sitt lýsi. En það hefur komið fram, að a. m. k. eitt firma kýs heldur að láta fjörefnarannsaka sitt lýsi erlendis en hér. En óskandi væri, að þessar rannsóknir á lýsinu kæmust undir eitt rannsóknarkerfi, hver sem í hlut á. En þáltill. er nokkurs konar tilraun til samkomulags í þessu efni. Og ég vona, að hv. þm. skilji, hvað hér er í húfi og hve hér er kastað á glæ miklum verðmætum, ef ekki er tryggt, að þetta vítamínmagn, sem í raun og veru er í þessari vörutegund á hverjum tíma, sé vitanlegt og vottfest af rannsóknarstofu í þeim efnum, því að ef þessar rannsóknir fara ekki fram, þá selst varan ekki fyrir nema heldur lægra verð en annars, en það er hins vegar hægt að færa upp verðið, ef vörunni fylgir vottorð um vítamíninnihald.

Ég tel sjálfsagt, að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn., þannig að hún geti tekið hana til athugunar og tekið hana inn í fjárl. En af því að þetta mál kom hér fram áður á þingi í öðru formi, þá taldi ég rétt að láta þessa þáltill. koma fram frekar en að fjvn. yrði beint skrifað um málið, svo að hv. þm. vissu, hvernig það stæði.