16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (2864)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Skúli Guðmundsson:

Ég geri ráð fyrir, að þessi till. fari til athugunar í n., og er því ekki ástæða til að fjölyrða um hana nú á þessu stigi. Ég vildi aðeins vekja athygli á, að í þeirri dagskrártill., sem samþ. var um þetta efni á þingi 1941, sem hv. frsm. veik að og einnig er birt í grg., er farið fram á það, að ríkisstj. geri tvennt: Í fyrsta lagi að láta fara fram athugun á framboði og verðgildi hlutabréfa bankans, sem nú hefur verið gert, eins og skýrsla sú sýnir, sem hér hefur verið útbýtt. Í öðru lagi var ríkisstj. falið að leggja fyrir Alþ. till. sínar um, hvort ríkissj. skuli kaupa hlutabréfin og með hvaða skilyrðum, ef til kæmi. Ég hef ekki séð neinar till. frá hæstv. ríkisstj. um málið, og þætti mér eðlilegt, að þær kæmu fram, eins og Alþ. hefur ætlazt til, þegar það samþ. þessa umtöluðu félagskrártill. fyrir 2 árum.

Nú vildi ég beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, hvort hún sæi ekki ástæðu til að leita eftir þessum till. ríkisstj. um málið. Annað atriði má einnig nefna í þessu sambandi. Það kemur ekki fram í grg. með till., við hvaða verði hlutabréfin munu hafa verið seld, ef um sölu á bréfum hefur verið að ræða undanfarið. En þar sem það er álit n., sem hefur athugað hag bankans, að bréfin séu a. m. k. í nafnverði, þá mætti ætla, að það hefði verið mögulegt á þessum tíma fyrir eigendur þeirra, sem hafa viljað selja, að losna við þau. Því að maður verður að gera ráð fyrir því, að ekki sé til lengdar um óarðbæra eign að ræða, ef bréfin teljast með nafnverði eða e. t. v. meira. Í þáltill. er talað um að kaupa bréfin með matsverði. En í skýrslu þessara þriggja manna, sem ríkisstj. fékk til að athuga hag bankans og verðgildi hlutabréfanna, kemur ekki ákveðið fram — það hef ég séð —, hvers virði þeir telja bréfin. Þeir munu taka svo til orða, að bréfin séu að minnsta kosti í nafnverði. En það virðist nokkuð óákveðið, hvert verðgildi bréfanna í raun og veru er, að þeirra dómi. Það getur eftir orðanna hljóðan, verið eitthvað meira en nafnverð. Ég vildi aðeins láta þessi atriði koma fram og vænti þess, að þau verði tekin til athugunar í hv. fjvn.