16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2867)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Ég hefði ætlað mér á sama hátt og hv. þm. V.-Húnv. gerði að inna ríkisstj. eftir því, hvort hún hefði ekki till. fram að bera í málinu, með tilvísun til dagskrártill., sem hér var samþ. á sínum tíma. Ég heyri, að hæstv. ráðh. ætlar að ræða við fjvn., sem fær till. til athugunar, og tel það fullnægjandi svar.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að beina því til fjvn. og hæstv. ráðh. um leið, hvort ekki sé rétt að taka til athugunar, jafnframt því sem þessi till. verður athuguð, hvort ekki sé ástæða fyrir ríkisstj. að fá heimild til frekari hlutafjárkaupa. Á ég við þær rösklega 1200 þús. kr., sem erlendir bankar og félög eiga af hlutafé bankans. Nú skal ég játa, að mér er ekki kunnugt um óskir eigenda þessara hlutabréfa. En vitað er, að á sínum tíma var það fé lagt fram að nokkru leyti til þess að hjálpa bankanum að halda áfram starfsemi sinni. Mér þykir því ekki ósennilegt, að þessir erlendu bankar og vátryggingafélög vildu gjarnan láta þessi hlutabréf af hendi.