17.12.1943
Efri deild: 69. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) :

Eins og hv. frsm. meiri hl. veik að er ekki ástæða til að metast um það, hvort afbrigði mætti veita, með það fyrir augum, að málinu yrði lokið á þeim eina klukkutíma, sem er til stefnu, þar til þinglausnir eiga að fara fram. En þar sem hér er um stórt og þýðingarmikið mál að ræða, að það þurfi að ræða allýtarlega í n., ef einhver árangur ætti að nást af þeim viðræðum, held ég, að það sé tæplega hægt að ljúka því á svo skömmum tíma, svo að í nokkru lagi sé. Það má því einu gilda, hvort afbrigðin yrðu leyfð eða ekki.

Þetta frv. er, eins og það kemur til okkar, breytt frá því, er það var lagt fram í Nd. af fjhn. þeirrar d. Eins og getið er um í grg., er frv. samið af mþn. í skattamálum, sem starfað hefur undanfarið. Fjhn. hafði aðeins stuttan tíma til umráða, og á þeim stutta tíma var ekki hægt að finna sameiginlegan grundvöll til þess að við gætum gefið út sameiginlegt nál. Ég tel það mjög óheppilegt að leggja mikið kapp á að afgreiða málið nú. Hér er um verulega grundvallarbreyt. að ræða, og við vitum, að þingið kemur fljótt saman aftur, og þá ætti að vinnast betri tími til þess að fjalla um málið heldur en nú er um að ræða. Ég skal ekki fara langt út í einstakar breyt. Þarna er t. d. um það að ræða að fjölga skattstjórum upp í sjö. Ég skal ekkert hafa á móti því, en þó er þetta nokkurt tímanna tákn. Hér eru komnir sjö embættismenn eingöngu vegna þess, hvað skattheimtan er orðið umfangsmikið starf í þjóðfélaginu. Þessir sjö skattstjórar munu nú rísa upp til þess að standa fyrir þessum málum, og það er út af fyrir sig ekki ágreiningsmál, vegna þess að þegar þessi l. eru í landinu, er áríðandi, að hægt sé að framfylgja þeim. Ég álít, að skattal. eigi að vera sanngjörn, en það verður að framfylgja þeim, jafnvel þó að þau séu ósanngjörn, en ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar.

Annað atriði í breyt. við frv., sem við í minni hl. erum alveg með, er hækkun persónufrádráttarins. Þessi hækkun er allveruleg. Í Rvík er hún úr 900 kr. í 1500 kr. fyrir einstakling, fyrir hjón úr 1800 kr. í 3000 og fyrir hvert barn úr 700 kr. upp í 1200 kr. Það getur alltaf verið álitamál, hvað persónufrádrátturinn eigi að vera mikill, en mín skoðun er sú, að hann eigi að vera mynd af því, sem talið er, að menn geti komizt af með minnst. Hjón með eitt barn hafa 7500 kr. skattfrjálst, ef frv. verður samþ., en þá er miðað við það ástand, sem er, áður en vísitalan sjálf er á lögð. Ég held, að víðast þar, sem tekjuskattur er á lagður, t. d. í Englandi, þar sé hann ekki lagður á, fyrr en menn hafa nokkuð háar tekjur, og það er í sjálfu sér góð regla. En við höfum ekki getað beitt þeirri reglu hér, af því að það hefur alltaf verið tekið verulega af tekjum manna, hvort sem þær hafa verið háar eða lágar.

Aðalbreyt. þessa frv. frá því, sem nú er, er um hið skattfrjálsa tillag til varasjóðanna. Samkvæmt tekjuskattsl. hafa þessi félög rétt til þess að draga 20% frá skattskyldum tekjum, ef þau hafa varið því til varasjóða. En um hlutafélög, sem sjávarútveg stunda sem aðalatvinnuveg, er það að segja, að þau mega draga frá allt að 1/3 af tekjum sínum, og í 3. lagi getur einstaklingur, sem gerir út, lagt 20% af hreinum tekjum sínum í varasjóð. Um útgerðarfélögin gildir svo sú aukaregla, að af 1/3, sem skattfrjáls er, verða þau að leggja helming í nýbyggingasjóð. Þetta er engum takmörkunum háð. En upphaflega gátu þau varið 1/3 í varasjóð með því skilyrði að leggja helming þess í nýbyggingasjóð, án tillits til þess, hvað miklar tekjur félagsins yrðu. Hér er farið fram á þær stórvægilegu breyt., að þetta skattfrelsi verði með öllu afnumið. Með þessu frv. er skattfrjálst varasjóðstillag almennra hlutafélaga, sem áður höfðu 20% ívilnanir, afnumið. Þá er skattfrádráttur einstaklinga, er sjávarútveg reka og ákveðinn var 33½% í stað 20% af tekjum ársins 1942 með l. um dýrtíðarráðstafanir, í frv. ákveðinn til frambúðar. Þetta er bein afleiðing af því, að varasjóðstillagið er afnumið. Þetta tillag er allt lagt í nýbyggingarsjóð. Ég vil segja fyrir mitt leyti um þessar breyt., að ég get ekki fylgt þeim, þar sem þær eru teknar upp svo einhliða. Annað mál er það, að um það mætti tala, hvort ekki mætti miða varasjóðshlunnindin við það, að varasjóðstillagið væri ákveðin fjárhæð, sem varið væri til þess að tryggja reksturinn. En svo vil ég segja það, að það hefur reynzt þannig, að iðnaðarfyrirtæki og þess konar sérfyrirtæki eru áhættusöm fyrirtæki. Þessi hlunnindi hafa víða orðið til blómlegs atvinnurekstrar, og það væri ranglátt að hugsa sem svo, að verzlunin mætti tapa, ef vildi, en útgerðina bæri að efla, enda þótt hún sé mikilvæg. Þar að auki er þess að gæta, að mörg þessi félög hafa fjölda manns í þjónustu sinni, og þótt ekki væri nema til að tryggja atvinnu þessa fólks, þá þarf að fara hér einhverja millileið. Það dugir ekki eingöngu að afnema þessi réttindi, enda óréttmætt gagnvart félögum, sem nú eru nýstofnuð í trausti þessara hlunninda. Þetta mundi loka fyrir allan nýgróður fyrirtækja.

Ég held nú, eftir því sem fram kom í n., að þá hefði nú verið hægt að brúa þetta bil, ef tími hefði unnizt til þess. En eins og skattfríðindi útgerðarinnar eru eftir þessu frv., þá sé ég ekki betur en breyt. sú, sem fyrirhuguð er, verði fremur til að rýra en auka möguleikana á endurnýjun skipaflotans og atvinnumöguleika. Að vísu er sjálft nýbyggingarsjóðstillagið hærra eftir frv. en eftir núgildandi l., en sú hækkun er keypt fyrir mikla rýrnun á varasjóðstillaginu, svo að ágóðinn ézt upp af þeirri hækkun, þegar öll kurl koma til grafar. Þótt ekki sé að vísu skylt að láta varasjóðstillagið ganga til endurnýjunar skipastólsins, þá gerir það fyrirtækin vitanlega miklu sterkari og atvinnulífið tryggara.

Eins og ég sagði áðan, þá hefði vel getað farið svo, ef n. hefði getað haft þetta mál nægilega lengi til meðferðar, að þessu hefði eitthvað fengizt breytt og betri lausn náðst. En þar sem tími er ekki fyrir hendi til að reyna þetta til þrautar og þar sem ég játa, að ekki sé hægt að fallast á frv. óbreytt, þá legg ég til, að það verði fellt. Að vísu hefði verið hægt að bera fram við það brtt., en þær hefðu að líkindum aðeins verið felldar, ef ekki hefði tekizt áður að ná um þær samkomulagi.