17.12.1943
Efri deild: 69. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (2874)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Ef ekki stæði svo á, að kominn væri jólahugur í menn og þinglausnir stæðu fyrir dyrum,. þá væri freistandi að ræða um glundroða þann, óheilindi og stefnuleysi, sem fram kemur hjá flm. þessa frv. og eignaaukaskattsins.

Hv. þm. Str. er nú eins og krossfestur milli tveggja ræningja í þessu máli og hefur ekki látið sjá sig hér nema til þess eins að greiða atkv. Aðrir höguðu sér eins og Júdas og stukku út og sýndu með því heilindin, er á átti að herða. Sannleikurinn er sá, að mál þetta var uppblásið af flm. þess, er þeir voru að braska við að mynda ríkisstj. á síðasta þingi. Síðan urðu þeir nauðugir viljugir að halda áfram með það, gátu illa dregið sig til baka, og e. t. v. hefði bara verið rétt af Sjálfstfl. að hjálpa þeim til að koma því í gegn, svo að þeir sætu í gildrunni og öllum lýðum yrði ljóst, hvílíkt þjóðskemmdarstarf þeir hefðu unnið. Hv. 3. landsk. er svo viti borinn, að hann veit vel, hvers kyns þessi mál eru.

Ég hef þó ekki tíma til að rekja þá sorgarsögu, og sný ég mér því beint að málinu og því ranglæti, sem framið væri gegn útveginum, ef það næði fram að ganga, þótt þm. allir viti og viðurkenni, að hann er það, sem allt hvílir á.

Það er um nýbyggingarsjóðsákvæðin. Það er lagt til í þessu frv., að allt varasjóðstillagið, sem er 1/3 af hreinum árstekjum, skuli allt lagt í nýbyggingasjóð. Ég veit ekki, hvort þeir menn, sem að þessu standa, vita, hvernig dæmið kemur til með að líta út í veruleikanum, ef fara á að framkvæma þetta. En við, sem í þessu vinnum, vitum ofur vel, að við verðum oft að starfa undir l., sem sett eru af litlum skilningi, stundum af illgirni eða pólitískum hrossakaupum.

Ég skal taka til dæmis útgerðarfélag, sem græddi 268 þús. kr. á síðasta ári að ófrádregnum sköttum. Félagið greiddi svo af þessu 164 þús. kr. í skatta og útsvar. Ef það ætti nú að búa við þau skattalög, sem þetta frv. fer fram á, þá greiddi það 90 þús. kr. í nýbyggingasjóð, eða 254 þús. kr. í sjóð og opinber gjöld. Þá væru eftir 16 þús. kr. af tekjunum. Þá er og vitað, að ekkert slíkt fyrirtæki kemst hjá töluverðum útgjöldum vegna alls konar kvabbs, til sjómannaheimilis, til kirkjubygginga, til vetrarhjálpar o. s. frv. — Já, hv. 5. þm. Reykv. má hlæja að þessu, það hefur sjálfsagt aldrei verið leitað til hans í þessu skyni, svo að hann þekkir þetta ekki. —Þessar 16 þúsundir gengju þá til þess að mæta öllum óhöppum í atvinnurekstrinum, og það sér hver maður, að þau mega ekki vera mikil né mörg, svo að fyrirtækin verði ekki að sökkva sér í skuldir eða taka úr nýbyggingarsjóðunum til þess að greiða skuldir, og þá eru fyrirmælin þau, að af hverjum 100 krónum, sem fyrirtæki tekur úr sjóðnum, skal greiða 90 krónur til ríkisins, en 10 ganga í fyrirtækið.

Allir sjá, að undir slíkum l. væri ekki hægt að vinna. Annaðhvort hafa þessir menn ekki lagt afleiðingar frv. niður fyrir sér eða það er eingöngu fram borið í pólitísku auglýsingaskyni. Ég sé nú, að hv. 5. þm. Reykv. er illa við þessar upplýsingar, því að þær fletta greinilega ofan af þeirri staðreynd, að með þessu er verið að leggja útveginn í rúst.

Nú vildi ég taka annað dæmi. Ef útgerðarfélag væri það heppið, að það græddi eina millj. kr., þyrfti það að greiða 904.850,00 í útsvar, skatta og nýbyggingarsjóð. Þá héldi það eftir 95 þúsundum fyrir allri áhættu, ef frv. þetta næði fram að ganga. Það má geta nærri, hve 10% af tekjunum hrökkva fyrir mikilli áhættu. Mér er því alveg óskiljanlegt, hvernig þessir menn geta barið sér á brjóst í Sþ. og glamrað um fjandskap Sjálfstfl. við útgerðina á sama tíma og þeir eru að ræna hana öllum möguleikum. Hvílík frámunaleg tvöfeldni. Mig undrar hreinlega, að hv. 3. landsk. og hv. þm. Str. skyldu leyfa sér að krefjast umræðna um þetta mál. (BSt: Hver biður hv. þm. um að tala?) Var meiningin, eftir að málið var fram komið, að það skyldi keyrt umræðulaust í gegn móti öllum þingsköpum, þm. neitað um orðið og neitað, að það gangi til n.? Það væri svo sem ekki nema í framhaldi af heimskunni. (BSt: Það græðir enginn á þessari ræðu a. m. k.) Í nótt var samþ. þál. í Sþ. á þeim forsendum, að búið er að íþyngja þessum atvinnuvegi þannig, að ríkisstj. er gefin heimild til að veita útgerðinni skattívilnanir vegna sérstakra afskrifta á fiskiskipum. Till. þessi var samþ. með miklum meiri hl. atkv., þótt vitað sé, að þetta stappar nærri lagabroti. En nauðsynin er svo mikil, að þetta er álitið sjálfsagt. Það er eins og hv. þm. finni, að núgildandi skattalög eru að sliga útveginn. — Með því að forseti hefur nú óskað eftir, að ég ljúki máli mínu, þar eð fundur á að hefjast í Sþ. innan stundar, þá læt ég hér staðar numið að sinni. En ég vænti þess, að ég fái ótakmarkaðan ræðutíma við 3. umr. þessa máls.