19.11.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2882)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að tala f. h. 3. minni hl. n., því að við atkvgr. fjvn. var ég ekki tilbúinn að taka afstöðu til þessa máls, því að ég hafði þá eigi kynnt mér málið nógu vel. Síðan hef ég reynt að mynda mér skoðun um málið, og hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að heimila að kaupa þessi bréf. Mér skilst, að hér sé um að ræða talsvert af gömlu fólki, sem á þarna gagnslaus hlutabréf, en hefur þörf fyrir þessa peninga. Hins vegar er ljóst, að bréfin eru fyllilega í nafnverði eftir því mati, sem fram hefur farið í bankanum, og meira að segja þeir, sem kunnugir eru, vilja meta þau a. m. k. á 150% af nafnverði. Ég átti tal við fjármálamann fyrir nokkru, og taldi hann áreiðanlegt, að þau væru í 150%-virði. Þess vegna verð ég að segja, að þessi bréf eru trygg og góð eign fyrir þann, sem hefur efni á að eiga þau, en sumir hafa ekki efni á að liggja með eignir, sem þeir fá ekki arð af, hvað verðmætar sem þær eru, og margir þeirra, sem eiga þessi bréf, þurfa að koma þeim í peninga til að geta lifað af. Ég held þess vegna, að aðeins þeir, sem þurfa á peningum að halda, verði til þess að selja bréfin, ef sú skoðun nær að festa rætur, að þau séu a. m. k. 150%-virði. Og ef svo er, þá tel ég sjálfsagt að kaupa þau, meðan þau fást fyrir 100%.

Það hefur komið fram, að það sé ekki æskilegt, að ríkið stofni til skulda af þessum ástæðum. En ef bréfin eru 150%-virði, þá hygg ég, að aðeins þeir, sem beinlínis þurfa á peningum að halda, selji þau, og það verði þess vegna ekki nærri því öll bréfin, sem ríkið þarf að kaupa, og aðeins af þeim, sem nauðsynlega þurfa á þessum peningum að halda sér til lífsviðurværis.

Ég tel því rétt að samþ. till. eins og hún kemur frá 1. minni hl. á þskj. 358.