19.04.1943
Efri deild: 3. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

3. mál, eignaraukaskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Í frv. því um dýrtíðarráðstafanir, er ríkisstj. lagði fyrir Alþ., var kafli um eignaraukaskatt. Sá kafli var með þeim hætti, að ég gat engan veginn á það fallizt. Enda hef ég persónulega jafnan verið þeirrar skoðunar, að það væri ýmissa hluta vegna óeðlilegt, að hafa í einu frv. ákvæði um beinar dýrtíðarráðstafanir og verðlagsákvarðanir og um skatta fram yfir það, sem bein þörf er á í sambandi við hinar ráðstafanirnar. Skattamálin eru einnig svo umdeild, að sú ástæða ein er nóg til að blanda þeim ekki við þau mál, sem samkomulag allra flokka þyrfti um. Hér er gert ráð fyrir sérstökum eignarskatti fyrir 3 s. l. ár, 1940–42. Sá eignaauki þessara ára, sem farið hefur fram úr vissu marki, er tvímælalaust að okkar hyggju fenginn mestmegnis án tilverknaðar þess eðlis, að verðlauna þurfi hann, fenginn, án þess að hann stafi af dugnaði sérstaklega, sparsemi né skarpskyggni og framsýni. Hverja skoðun sem menn annars hafa á einkaeign og atvinnurekstri einstaklinga, munu menn ekki deila mjög um, að þetta er rétt, gróðinn kom af óviðráðanlegum ástæðum upp í hendur flestum þeim, sem um er að ræða. Þess vegna álítum við flm. eðlilegt, að eignaaukinn verði látinn sæta annarri skattmeðferð en eignir almennings yfirleitt og nokkur hluti hans tekinn til að jafna kjör almennings, tryggja þau betur en orðið er og skapa undirstöðu atvinnulífs í framtíðinni. Við viðurkennum þó, að nauðsyn sé að undanþiggja skattinn þær eignir atvinnufyrirtækja, sem verða eiga þeim til endurnýjunar (nýbyggingarsjóður), og tillit þarf að taka til örðugleika, sem miklar verðsveiflur hafa í för með sér. Markið, þar sem skatturinn byrjar, er sett nokkuð hátt, 80 þús. kr. hjá einstaklingi eða 26–27 þús. kr. eignaauki á ári, en það er það, sem talið er eðlilegt, að einstaklingur hafi getað safnað, án þess að slíkar stríðsgróðaskattur eigi að koma á hann.

Ekki er unnt að sjá, hver eignaauki landsmanna hefur orðið á hverju ári, því að skýrslur eru ónógar. En talið er, að skattskyldar tekjur hafi aukizt árin 1940–41 um 70 millj. kr., og minni aukning mun ekki þurfa að gera ráð fyrir s. l. ár, svo að ætla má, að aukningin þetta 3 ára bil nemi röskum 100 millj. króna. Mjög mikill hluti þess er hjá eigendum, sem komizt hafa yfir 80 þús. markið. Þessar skýrslur, sem skattstofa Rvíkur hefur látið í té, eru þó aðallega vísbending um eignaaukann, en ekki fullkomin heimild, og má færa rök að því. Samkv. skýrslum banka voru inneignir manna þar komnar upp undir 450 millj. kr. um s. l. áramót. Þá höfðu og aukizt innstæður erlendis upp í 285 millj. kr., en þær áttu bankarnir að langmestu leyti. Auk þess hafði mjög mikið af skuldum verið greitt að fullu, svo að greiðslujöfnuður við útlönd hafði batnað miklu meira en innstæðunum nam. Þá höfðu verið gefin út og seld mjög mikil skuldabréf, sem flest eru handhafaskuldabréf og munu að litlu leyti koma í ljós á skattskýrslum. Lágmarkið fyrir skattfrjálsa menn hefur verið hækkað úr 5 þús. kr. í 10 þús. Það mun svara til 7–8 millj. kr. lækkunar skattskyldra tekna á landinu. Árið 1942 var sú breyt. gerð, að hlutabréf skyldi ekki telja fram eftir verðmæti, heldur nafnverði án tillits til söluverðs, og veldur það áreiðanlega margra milljóna lækkun á framtölum eigna. Stórmikið hefur verið byggt af fasteignum og skipt um eigendur þeirra og bundið í þeim feiknafé. Mismunur kostnaðarverðs og matsverðs dregst frá þeim eignum, þegar þær eru taldar fram á skattskýrslum. Eignaaukningin er því miklu stórfelldari en skýrslur skattstofunnar sýna, en þær eru góð ábending um aukninguna. Eftir því, hver hún reynist, fer, hve miklar tekjur skattur þessi gefur, og með nákvæmni verður ekkert sagt um það fyrir fram. Framkvæmd laganna og eftirlit geta ráðið miklu. Ég hef reynt að skapa mér nokkra skoðun um þetta og virðist, að þá sé mjög slælega á málum haldið, ef ekki fáist nálægt 15 millj. kr., og er þá miðað við örlítið hærri upphæð en skattstofan telur fram. Eitt, sem taka verður tillit til, er það, að skattar verða til muna hærri árið 1943 en 1940, og lækkar það eignaaukann, sem skattskyldur verður.

Við flm. höfum ekki séð ástæðu til þess að semja margbrotinn skattstiga fyrir þennan skatt. Við teljum, að þegar komið er upp fyrir 80 þús., sé ekki mikill munur á, hve háan hundraðshluta rétt sé að taka. Af því, sem er umfram 80 þús., allt að 200 þús. kr., er gert ráð fyrir, að l/5 sé tekinn í skatt, síðan 24 þús. af 200 þús. kr. og 25% af afgangi, en af l millj. greiðist 224 þús. og 30% af því, sem þar er fram yfir. Áður er dregið frá það, sem lagt hefur verið í nýbyggingarsjóði.

Okkur flm. er það ljóst, að ekki er hægt að fylgja fram 1. um tekju- og eignarskatt svo sem bezt verður á kosið. Við leggjum til, að er um eigendaskipti á fasteignum hefur verið að ræða á þessu tímabili og vafi leikur á um það, að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um kaupverð eignarinnar, þá skuli ríkisskattan. eða fulltrúar hennar meta eignina. Á þetta einungis við, þegar um eigendaskipti fasteignar er að ræða, eins og ég tók fram.

Þá er okkur flm. ljóst, að mikið veltur á því, að hægt sé að fá rétt framtöl eignaaukningarinnar, og ætla má, að mikið skorti á, að verðbréfaeignir og innstæðufé í bönkum komi allt fram í eignaframtölum. Ráðh. hefur og heimild til þess að gefa út reglugerð, þar sem setja skal m. a. ákvæði um nafnskráningu verðbréfa. Svo getur ráðh. og gefið greiðslufrest allt að þremur árum, ef nauðsyn þykir til bera.

Vil ég þá að lokum geta þess, að þótt svo megi virðast sem um nokkurt nýmæli sé hér að ræða, þá er þetta mál í raun og veru athugað þó nokkuð í sambandi við dýrtíðarfrv. hæstv. stj. í fjhn. beggja d., þar sem þar var ákvæði um eignaraukaskatt. Vil ég því mega vænta þess, að mál þetta gangi greitt í gegnum báðar d. Legg ég til, að málinu að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og fjárhagsnefndar.