03.12.1943
Efri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

3. mál, eignaraukaskattur

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Þetta frv. á nokkuð langa sögu á Alþ. að þessu sinni, þótt ekki hafi verið mikið um það rætt af d. hálfu. Það var borið fram í byrjun þ. á síðast liðnu vori. Síðan var það sent til skattan., sem valin var á síðasta þ., en n. varð ekki sammála, og engar till. hafa komið frá n. um breyt. á frv. né heldur till. um að fella það eða samþykkja, enda ætla ég, að 4 mismunandi nál. hefðu komið út varðandi þetta frv. Málið var tekið fyrir í fjhn. þessarar d., og kom í ljós, að n. var ekki sammála um það. Ætlunin var að taka það fyrir aftur, en skömmu síðar veiktist form. n. Hér liggur fyrir álit meiri hl., sem í eru 1. þm. Eyf. (BSt), 5. þm. Reykv. (BrB) og ég. Við leggjum til, að frv. verði samþykkt að efni til sem sagt óbreytt eins og það var lagt fram á þskj. 3, en þær einar breyt. gerðar, sem leiðir af því, að gildistaka l. færist aftur um næstum eitt ár, og þar af leiðandi er gert ráð fyrir, að skatturinn nái til 4 ára, í staðinn fyrir, að í frv. er gert ráð fyrir, að hann nái til áranna 1940, 1941 og 1942. Í samræmi við þetta er lagt til, að skattfrjálst hámark eignaaukningar hækki nokkuð. Í frv. er gert ráð fyrir, að það sé 80 þús. kr., en samkvæmt brtt. okkar er lagt til, að það verði nú 100 þús. kr. Það er lagt til, að sú breyt. verði gerð á 2. gr., að í upptalningu þeirra skatta, sem frá skuli dregnir eignaauka í árslok 1943, skuli fella niður verðlækkunarskatt. Það stafar af því, að l. um verðlækkunarskatt falla úr gildi um næstu áramót, þannig að hann kemur ekki til á árinu 1944. Þá stafar breyt., að í staðinn fyrir „1943 og 1944“ komi 1944 og 1943, af því, að gert er ráð fyrir, að l. komi til framkvæmda í árslok 1943, í staðinn fyrir árslok 1942, eins og það er í frv. Þá er lagt til, að gerð sé sú breyt., að við bætist, að eignaauki, sem stafar af útborgun líftryggingarfjár, örorku- eða dánarbóta, sé ekki skattskyldur skv. l. þessum, og er það í samræmi við frv. eins og það var lagt fram og í samræmi við það, að þetta eru ekki skattskyldar tekjur, eins og liggur í hlutarins eðli. Þá eru nokkrar brtt. við 3. gr. um, að hún orðist um. Þetta eru mest orðabreyt., en er ætlað að taka skýrar fram en í 3. gr. er, þegar um er að ræða eignatilfærslu, þ. e. a. s., þegar skattgreiðandi breytir eign sinni úr einni fasteign í aðra. Ætlunin er, að með því orðalagi eins og nú er á gr., sé það nokkurn veginn tryggt, að skatturinn sé ekki á aðra eignaaukningu en þá, sem er raunveruleg, þ. e., ef efnahagur manns sé gerður upp við sölu eða á annan hátt. Þetta eru þær breyt., sem meiri hl. leggur til, að gerðar verði á frv., og mælir hann mjög með því, að hv. d. samþ. frv. með þessari breyt.

Um réttmæti þessa skatts og það, hve mikils tekjuauka megi af honum vænta, skal ég fátt eitt segja. Ég gerði grein fyrir því hér í d. við 1. umr. og skal ekki bæta við það öðru en að segja, að skv. upplýsingum, sem mþn. í skattamálum aflaði sér, er ætlað, að skatturinn nemi nokkru lægri upphæð en við höfðum gert ráð fyrir. Ætlunin er, að skatturinn nemi hér í Reykjavík 6 millj. kr. á 3 árum. Að vísu er ætlazt til, að árið 1943 bætist við, og ætti hann því samkvæmt áætlun skattstofunnar að nema 8 milljónum kr. Ef það er eins og um aðra skatta, mætti búast við, að skatturinn næmi annars staðar frá 50% eða 12 millj. kr., þ. e. a. s., ef miðað er við skattaframtöl, sem skattstofan hefur lagt til grundvallar. Því er ekki að neita, að þessum skattaframtölum er mjög áfátt. Það er hverjum manni vitanlegt, að það eru margir tugir millj. kr., sem eru í eigu manna í verðbréfum og hundruð millj., sem menn eiga í sparisjóðum, og enginn vafi er á því, að þessi framtöl eru mjög fjarri því að gefa rétta hugmynd um eignir manna. Við lítum svo á, flm., að það, hvað mikils megi vænta af þessum skatti, sé mjög undir því komið, hvað vel er af stj. hálfu gengið eftir réttum framtölum, og því er í frv. heimild um víðtæka reglugerð um framtöl, og er beinlínis tekið fram í 4. gr. eftirfarandi: „Nánari ákvæði setur fjármálaráðherra með reglugerð, og skal þar m. a. setja ákvæði til tryggingar réttum framtölum, svo sem nafnskráningu verðbréfa, „— ef ekki þyki önnur leið nægilega sterk til þess að fá rétt framtöl á þessum eignaliðum.

Það skal játað, að þessi skattur er nokkuð annars eðlis en aðrir skattar hér, þar sem gera má ráð fyrir, að skattur þessi geti orðið hærri en svo, að hægt sé að greiða hann af tekjum ársins. Hér er því um beinan skatt af eignum að ræða eða fyrirmæli um það, að viss hluti eignanna skuli ganga til hins opinbera. Þó má ekki blanda þessum skatti saman við það, sem venjulega er kallað eignarskattur, þ. e. sá eignarskattur, sem verkar eins og eignarnám. Hann er þeim skatti frábrugðinn að því leyti, að hann er aðeins lagður á þær ákveðnu eignir, sem hafa orðið til eftir 1939 sem afleiðingar af hinu óvenjulega ástandi síðustu ára, er hefur valdið því, að einstöku menn hafa rakað saman fé alveg af hreinni tilviljun. Þessi eignaaukaskattur, sem hér er um að ræða, er ekkert annað en lítilsháttar leiðrétting á því, sem vanrækt hefur verið undanfarin 4 ár. Það er ætlazt til þess, að þessi skattur sé notaður í ákveðnum tilgangi. Hann á að verða varanleg eign, sem hægt verður að nota til þess að létta byrðar framtíðarinnar. Hér er því ekki verið að afla ríkisstj. venjulegs eyðslufjár, heldur er hér verið að leggja til hliðar hluta af stríðsgróðanum til þess að tryggja afkomu fólksins betur í framtíðinni. Ég læt þetta svo nægja að sinni, en óska þess, að málið fái skjóta afgreiðslu.