03.12.1943
Efri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

3. mál, eignaraukaskattur

Gísli Jónsson:

Það er nú eiginlega leiðinlegt, þegar menn hafa lagt höfuðið í bleyti við að semja frv. til að bjarga þjóðinni, að þeir skuli þá ekki hafa tíma til að vera við umræður, eins og hv. þm. Str., sem er einn af flm. þessa frv., nema því sé þá þannig háttað, að hann sé fyrirfram seldur hv. 3. landsk. með sál og samvizku og greiði atkv., ef aðeins er klipið í lærið á honum. En þá sný ég mér beint að málinu.

Ég vil benda hv. 1. flm. á, að nái þetta frv. fram að ganga, þá mun skatturinn skiptast þannig samkvæmt núgildandi skattstiga á fyrirtækin eða atvinnuvegina í landinu: Verzlunin mun greiða 1.099.703 kr. Ég get fallizt á, að sérstaklega beri að athuga, hvort ekki megi leggja nýjan tekjuskatt á verzlunina, en ekki neinn arðránsskatt. Ég er fús til að ræða þetta við hv. 3. landsk. á skynsamlegan hátt. Það er vitað, að verzlunin hefur fleytt rjómann af stríðsgróðanum og þá jafnt samvinnufélögin, sem þessir menn vilja slá skjaldborg um.

Þá er það annar aðili, iðnaðurinn, sem kemur til með að greiða 364.490 kr. í þennan skatt. Ég tel nú ekki viturlegt að íþyngja iðnaðinum um of, þegar tekið er tillit til þeirrar hörðu samkeppni, sem hann verður að heyja eftir stríð. Hann á að verða ein meginstoðin í atvinnulífi landsmanna ásamt útveginum og landbúnaðinum og það á ekki eingöngu að vægja honum hans vegna, heldur einnig vegna hinna atvinnuveganna. Það er lífsskilyrði, að hann komist á það stig, að hráefnin, sem eru sótt í djúp hafsins og skaut jarðarinnar, séu unnin til útflutnings. Ég held því, að það sé vanhugsað, að skattræna þennan atvinnuveg eins og hér er gert ráð fyrir.

Þá er þriðji aðilinn, sem mun greiða rúmlega 234 þúsund kr. Ég ætla ekki að bera blak af þeim mönnum. En ef fremja á þvílíkt glapræði og ranglæti til þess að ná þessari upphæð, þá er málið ekki djúpt hugsað. Það gæti líka orðið svo, að þessir menn yrðu ofan á, áður en lýkur, ef þannig á að fara að.

Þá er aðeins einn aðili eftir, og það er útvegurinn. Hann á að greiða 3.427.575 kr. Nú bar hv. 3. landsk. fram hér till. í gær við annað skattafrv., þar sem hann lagði til að leggja fé í sérstakan sjóð til eflingar sjávarútveginum. Má gera þá kröfu til þessa hv. þm., að hann sé svo samkvæmur sjálfum sér, að hann arðræni ekki annan daginn þann atvinnuveg, sem hann þykist vilja styðja hinn daginn? Það er vissulega ekki hægt að taka þessa menn alvarlega um skattamál. Og svo bera sósíalistar fram till. um að leggja fram 5 eða 10 milljónir til eflingar útveginum, en eru jafnframt með því að taka af honum 3, 4 milljónir með þessu frv.

Hv. 3. landsk. hélt því fram, að þetta ætti ekki að verða eyðslufé, heldur til þess að auka varanleg verðmæti í landinu. Hið sama var sagt um verðlækkunarskattinn í fyrra. Ég er sammála hv. þm. um það, að þetta ætti að tryggja, og ef þetta er meining hans, þá ætti hann að geta verið samþykkur brtt., sem ég ætla að leyfa mér að bera fram við 5. gr. til þess að tryggja þennan árangur. Brtt. mín hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjum þeim, sem aflað er samkvæmt l. þessum, skal varið til að standast kostnað við dýrtíðarráðstafanir“.

Sé það rétt, sem hv. fjmrh. heldur fram, að hann vilji tryggja eignir manna, og það rengi ég ekki, og sé það rétt hjá hv. 3. landsk. að taka eignir til að tryggja eignir, eins og hann orðar það, en það skil ég ekki, þá er eðlilegast að sameinast um, að þetta fé sé lagt til dýrtíðar ráðstafana. Ég ætla svo ekki að ræða þessa hlið nánar. Ég hef bent á þá hugsunarvillu að taka fé úr einum atvinnuvegi og setja það í annan. Í því felst eigin björgun í málinu. En í sambandi við það, sem gefið er í skyn í grg. fyrir þessu frv., að fénu hafi skolað upp að landinu í hafróti ófriðarins, þá vil ég gefa svolítið yfirlit um þau mál, og taka einkum eitt dæmi máli mínu til skýringar.

Öllum eru kunn gjaldeyrisvandræðin hér á árunum 1933–1939, sem voru svo mikil, að atvinnuvegirnir voru að kikna af þeim orsökum. Hverjir voru það þá, sem sköpuðu gjaldeyrinn, aðrir en einmitt útgerðarmenn? Var þó ekki hver eyrir tekinn af þeim til að kaupa nauðsynjar handa þjóðinni? Voru það ekki þeir, sem börðust í bökkum allan þennan tíma, þótt betur hafi látið í ári nú um skeið? Hvernig hefði farið, ef þessir menn hefðu bognað við erfiðleikana? Þá væri engum milljónum að skipta hér. Þá hefði hv. 3. landsk. ekkert í kassanum til að moða úr. Og hann er þó ekki svo gersamlega laus við rökrétta hugsun, að hann skilji ekki, að atvinnuvegirnir verða fyrst og fremst að bera sig og græða, til þess að nokkru fé sé yfirleitt hægt að ráðstafa. Hvernig sem hann reiðir skattabrjálæðið á öðrum klakk og tryggingaæðið á hinum, þá verður þó alltaf að fóðra truntuna á einhverju.

Árið 1933 mynduðu nokkrir bláfátækir sjómenn félag með sér til þess að kaupa skip ásamt nokkrum efnaðri mönnum. En þeim var neitað um gjaldeyri fyrir skipinu. En þá gátu þeir útvegað sér skipið á þann hátt, að þeir fengu lán úti. Þetta fyrirtæki starfaði í landinu þar til árið 1940. Þá hafði það greitt eina milljón í skatta og margar milljónir í vinnulaun og gjaldeyri. Þegar þessir menn seldu svo skipið, þá heimtaði ríkið 90% af söluágóða þess í krafti gildandi skattalaga.

Hv. 3. landsk. ætti að kynna sér lítils háttar þróunarsögu þessara mála, áður en hann fer að tala um, að þessu fé hafi skolað upp að landinu.

Ég vil í sambandi við þetta benda á, að þeir menn, sem ég sagði frá áðan, vildu kaupa sams konar skip og þeir seldu 1940, og það fyrir gott verð, en þeim var fyrirmunað það af þáverandi viðskmrh. Þeir nenntu þá ekki að taka upp fyrri baráttu sína, þess vegna kom það skip aldrei til landsins, og engar milljónir skoluðust hingað með því.

Ég ætla mér svo ekki að eyða fleiri orðum að þessu, en vænti þess, svo framarlega sem frv. þetta verður samþ., að brtt. mín við 5. gr. verði einnig samþ., svo að tryggt sé, að féð gangi til dýrtíðarráðstafana.