23.11.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2959)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Frsm. 1. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Það hafa nú komið fram við umr. um þetta mál ýmsar hinar venjulegu bollaleggingar í sambandi við þetta mál. En ég held þó, að rétt sé fyrir þá, sem vilja gefa sparifjáreigendum, sem hafa verið neyddir til að gera fé sitt, sem þeir áttu inni í Íslandsbanka, að hlutafjáreign í Útvegsbankanum á sínum tíma, að halda sig við till. fyrri minni hl. fjvn. Ég vil geta þess fyrir hönd þess minni hl., að hann er samþykkur hinni skrifl. brtt. hv. þm. Vestm. (JJós) um að tímabinda þetta, og mælir því fyrir minni hl. fjvn. með því, að sú brtt. verði samþ. ásamt aðaltill.

Þær bollaleggingar, sem hér hafa átt sér stað um það, hve þessi bréf væru mikils verð, ef þetta og þetta ástand ríkti, ef stjórnin á bankanum væri eins og á venjulegum hlutafélögum, hafa í þessu tilfelli ekkert að segja. Því að það er ekki tilfellið, að hann sé þannig rekinn, og það er ekki heldur von til þess, að því verði breytt. Ríkissjóður ber ábyrgð á sparifjárinnstæðum í bankanum á hverjum tíma, og það er ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður sporni við því, að greiddur verði arður af þessu fé, enda hefur hann ekki verið greiddur í 12 ár. Þessir fyrrverandi sparifjáreigendur hafa átt fé sitt þannig inni í bankanum vaxtalaust í þessi 12 ár. Og eins og nú hefur verið tekið fram, var þetta eins konar ellitrygging þeirra manna, sem fé þetta áttu. Og það er tekið fram í till. okkar, að það beri ekki að kaupa af öðrum þessi hlutabréf en upphaflegum eigendum, og þá ekki, þó að hlutabréfin hafi skipt um eigendur í millitíðinni. Það getur vel verið, að þessi hlutabréf yrðu í 200 eða 300% verði, ef arður væri greiddur af hlutafénu. En það eru bara ekki líkindi til þess, að svo verði gert, á meðan ríkissjóður ábyrgist sparifjárinnistæður í bankanum og getur ráðið þessum banka.

Nú er það skoðun ýmissa manna, að bankarnir eigi að vera ríkiseign, eins og Landsbankinn og Búnaðarbankinn eru. En ef verzla ætti með þá aðstöðu yfirleitt, sem bankinn veitir, þá væru þessi hlutabréf margfalt meira virði en gert er ráð fyrir hér í þáltill. að kaupa þau fyrir. En það er bara alls ekki um það að ræða að verzla með þessa aðstöðu. Og þar sem það liggur nú fyrir, að þessi bréf ganga ekki kaupum og sölum fyrir nafnverð einu sinni, þá er það engin ásælni af hæstv. Alþ. að samþykkja þessa till., sem hér liggur fyrir. Alþ. væri þá aðeins að gefa þeim, sem það vilja, kost á að losa sig við þessi hlutabréf. Og ég tel, að það ætti ekki að dragast lengur. Það er búið að draga það nóg.