23.11.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (2960)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Frsm. 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þeir hafa þegar allmargir talað, hv. þm., sem eru fylgjandi því, að ríkisstj. verði falið að kaupa þessi hlutabréf Útvegsbankans. Þeir hafa vikið að því, nokkrir þeirra, að það hafi verið lagt mjög að innstæðueigendum hjá bankanum 1930 um að leggja fram sem hlutafé sparifé sitt. Og hv. þm. Barð. lét svo um mælt, að það mundi stappa nærri stjórnarskrárbroti að láta það svo ganga lengur, að þessir hlutabréfaeigendur fengju ekki selt bréfin, heldur ættu þau áfram. Hvað, sem um þetta má segja, — og það er víst nokkuð til í því, að það hafi verið lagt að mönnum að kaupa hlutabréf, þegar Útvegsbankinn var stofnaður, — þá er vitanlegt, að það hefur verið öllum í sjálfsvald sett, hvað þeir gerðu í því efni. Það hefur enginn verið til neyddur að leggja fram hlutafé. Og sést það af því, að eftir því sem ég hef heyrt haldið fram, þá munu einstakir menn, sem áttu fé hjá Íslandsbanka 1930, bæði á hlaupareikningi og í sparisjóði, hafa komizt hjá því að leggja fram hlutafé. Þeir, sem hins vegar hafa þá keypt hlutabréf fyrir einhvern part af innstæðum sínum hjá bankanum, hafa vitanlega gert það ótilneyddir, vegna þess að þeir hafa álitið, að það væri þeim sjálfum fyrir beztu, því að með því gætu þeir þó tryggt einhvern hluta inneigna sinna, sem þar var.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) segir, að það sé ómögulegt að samrýma eign ríkis og einstaklinga í fyrirtæki sem þessu. Ég get nú ekki á þetta fallizt, og ég skil ekki, hvernig það má vera, því að ég held, að það hljóti að vera sameiginlegt áhugamál þeirra einstaklinga og stofnana, sem þar eiga hlutafé, að þetta fé beri arð, að rekstur stofnunarinnar verði þannig, að þetta fé geti orðið arðvænleg eign. Ég veit ekki betur en ríkið eigi hluti í fleiri félögum, eins og t. d. í Eimskipafélagi Íslands. Og ég hef ekki heyrt þess getið, að það hafi komið í ljós neinir sérstakir annmarkar í sambandi við þá sameign ríkis og einstaklinga. Því er haldið fram, að í þessu hlutafélagi, Útvegsbankanum, ráði ríkisstj. öllu, en aðrir engu. Þetta eru öfgar. Það er rétt, að ríkið hefur þar meirihlutavald, en að aðrir hluthafar ráði þar engu, er ekki rétt. Þeir hafa atkvæðisrétt í stjórn bankans í samræmi við hlutafjáreign sína. Og ég hygg, að í mörgum tilfellum sé tekið tillit til þess, sem aðrir segja um málefni bankans en ríkisstjórnin.

Annars hafa þeir flestir, sem hér hafa mælt með því, að ríkisstj. verði falið að kaupa þessi hlutabréf, rætt mjög um það, að þessi hlutabréf, sem kaupa ætti, væru aðallega í eigu gamalmenna, sem þyrftu að selja bréfin til þess að fá þar handbært fé. Þeir hafa látið í ljós mikla umhyggju fyrir þessu gamla fólki. Nú er þetta vitanlega ekki nema að litlu leyti rétt, því að ef þessi þáltill. verður samþ. samkv. till. fyrri minni hl. fjvn., þá er ríkisstj. ekki heimilað, heldur fyrirskipað að kaupa m. a. hlutabréf útlendinga í bankanum, sem nema töluvert á aðra milljón kr., svo framarlega sem ekki hafi orðið eigendaskipti að þeim bréfum, síðan bankinn var stofnaður. (FJ: Þetta er ekki rétt). Mér virðist það vera þannig. Ég fæ ekki betur séð eftir brtt. 358 en hún eigi við alla upprunalega eigendur hlutabréfanna, og er þar ekkert tekið fram um það, að þetta gildi aðeins fyrir Íslendinga. En hvað, sem um þetta má segja, sem hv. þm. Ísaf. heldur fram um það, að þessi hlutabréf séu ellitrygging gamla fólksins, þá býst ég ekki við, að það verði nú hægt að halda því fram, að þetta sé sérstök ellitrygging hinna erlendu stofnana, sem létu part af innstæðum sínum hjá Íslandsbanka til hlutabréfakaupa. Það hefur komið fram að undanförnu sá vilji hjá mörgum að borga nú erlendar skuldir ríkisins. Og virðist mér því stefnt hér í öfuga átt við það, ef nú á að fara að fyrirskipa, að ríkisstj. stofni til skulda erlendis með því að ástæðulausu að fara að kaupa hlutabréf af útlendingum fyrir allháa fjárhæð.

Hv. 2. þm. Rang. (IngJ), sem greiddi ekki atkvæði um þetta mál í fjvn., hefur nú áttað sig á því og mælir nú með því, að þessi bréf verði keypt. Hann talaði, eins og fleiri hafa gert hér, um umhyggju sína fyrir gamla fólkinu. En síðan sagði hann, að þessi bréf væru 50%o meira virði en þau eru talin að nafnverði og það væri sjálfsagt að nota tækifærið nú fyrir ríkið að kaupa þau, meðan þau fengjust fyrir nafnverð. Annar hv. þm. sagði, að sennilega væri hægt fyrir ríkið, ef það vildi selja hlutafjáreign sína í bankanum, að selja hana fyrir allt að því tvöfalt nafnverð og væri því rétt af ríkinu að nota nú þá aðstöðu, sem það hefði, til þess að kaupa þessi bréf, sem fáanleg væru. — Þá var umhyggjan fyrir gamla fólkinu allt í einu fokin út í veður og vind hjá þessum hv. þm. Nú væri um að gera að fá þessi bréf fyrir nafnverð, áður en þau hækkuðu í verði. Þannig rekur sig eitt á annars horn hjá meðmælendum þáltill.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég tel enga nauðsyn á því, að ríkið fari nú að stofna til skulda í sambandi við þessi bréf. Hagur bankans er og verður væntanlega þannig, að það ætti að vera mögulegt fyrir þá, sem eiga hluti í honum og vilja selja þá, að koma þeim í viðunandi verð, án þess að ríkið sé að ásælast þessar eignir.