23.11.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er nú svona. Manni getur dottið ýmislegt í hug, án þess að það sé í samræmi við umhverfið. Nú til dæmis datt mér í hug fuglategund ein, sem kvað vera á eyjum úti, og er fugl sá vanur, ef hann er í vanda kominn, að verja sig á þann hátt að senda á þann, sem að honum sækir, fram úr sér það, sem inni fyrir býr, — og þykir illt undir því búa að fá slík skeyti, því að af kvað leggja illan fnyk. En ég er ekki að skensa hér neinn hv. þm. með þessu. Hitt verð ég að segja, að þegar nú hv. þm. Vestm. var að tala um hjartagæzku mína og vildi henda þar heldur gaman af, að mér væri ekki svo vel við hluthafana í Útvegsbankanum sem ég vildi vera láta, þá verð ég að segja, að ég heyri ekki neinn grátklökkva heldur hjá hv. þm. Vestm., þegar hann vill láta kaupa bréfin fyrir nafnverð og koma því fyrir sem nokkurs konar auglýsingu um umhyggju vissra hv. þm. fyrir gamla fólkinu. En ég verð að telja, ef á að gera þetta fyrir nokkurs konar náð við hlutafjáreigendur að láta ríkissjóð kaupa þessi bréf, með nafnverði, að þá er lítil ástæða fyrir hv. þm. Vestm. að ganga með grátþela yfir manngæzku sinni. En ég vil láta kaupa þau eftir mati.