06.12.1943
Efri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

3. mál, eignaraukaskattur

Gísli Jónsson. Herra forseti. Það var rætt töluvert um þetta frv. hér á síðasta fundi í þessari hv. d., og komu lítil svör frá hv. 3. landsk. þm. (HG) við því, sem spurt var um, og verð ég að taka þögn hans í flestum þeim atriðum, sem spurt var um, sem samþykki, þótt það hins vegar komi í bága við skoðun hans á málinu almennt, eftir því sem kom fram í ræðu hans. Hann minntist á nokkur atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni hér. M. a. sagði hann, að Alþ. gæti ekki setið hér ár eftir ár án þess að gera tilraun til að ná sköttum af skattsvikurunum, sem ekki teldu fram. Ég vil spyrja:

Telur hann, að þetta sé bezta leiðin, að fara inn á enn strangari skattalög? Verður það ekki eins og með Stóradóm, þegar átti með honum að uppræta öll sifjaspjöll? Ég held, að það væri hollt fyrir hv. 3. landsk. að kynna sér þá sögu til þess að vita, hver árangurinn varð. Ég vil benda hv. 3. landsk. (HG) á það, að þau ummæli eru höfð eftir mjög þekktum lögfræðingi, að það væru nú orðin föðurlandssvik að svíkja ekki skatt í þessu landi, því að skattalöggjöfin væri þannig, að ef ekki væri eitthvað gert til þess að komast undan henni, væri allt atvinnulífið í landinu lagt í rústir. Það væri rétt fyrir hv. 3. landsk. (HG) og aðra flm. að kynna sér þetta nánar, áður en þeir halda lengra. Það hefur mikla þýðingu, að gera skattal. þannig úr garði, að skattþegnarnir geti borið virðingu fyrir þeim. Skattal. eru einhver viðkvæmustu l. hverrar þjóðar. Það er hægt að móta hverja þjóð með fyrirmælum skattal., og þess vegna er nauðsynlegt, að rætt sé skynsamlega um þau mál og þau athuguð gaumgæfilega og reynt sem mest að hafa eina stefnu í skattamálum, en ekki eina í dag og aðra á morgun. Að vísu er eðlilegt, að það þurfi á tímum eins og nú eru ýmsu að breyta um skattal., en grundvallarreglunni á ekki að breyta, heldur hafa hana fasta, svo að þegnarnir viti, við hvað þeir eiga að búa.

Hvað snertir þessi l. vil ég segja, að einn af nm. í mþn. dregur það skýrt fram, að ef þessi l. verði samþykkt, komi þegnarnir til með að búa við mismunandi skattal. í landinu. Það er hv. 9. landsk. (GÍG), sem segir, að ef farið sé inn á það að undanskilja sjóði samvinnufélaganna, séum við látin búa við tvenn skattal. Þetta er ekki frá sjálfstæðismanni komið, en frá manni, sem er flokksmaður 1. flm. Ég vil spyrja hv. þm. Str. (HermJ), sem er meðflm. að þessu frv., hvort hann viti, hvaða stefnu hann er að innleiða hér. Það er ekki loku fyrir það skotið, að flokkarnir, sem eru meira til vinstri, haldi áfram fordæminu og taki svo og svo stóran hluta af sjóðum samvinnufélaganna, byggt á þeim ábendingum, sem hv. 9. landsk. hefur tekið svo skýrt fram í áliti sínu um þetta mál, og þá er ekki ugglaust um, að til væru þeir menn í þinginu, sem barizt hafa á móti frv., en væru til í að taka hluta af sjóðum samvinnufélaganna, og vil ég benda á, að það eru ekki sjálfstæðismenn, sem hafa leitt asnann í þær herbúðir. Þetta er góð hugvekja fyrir hv. þm. Str. (HermJ). Það gæti verið, að eggin í þessu máli sneri að þeim sjálfum, áður en hann veit af.

Ég vil benda á það, sem hv. 9. landsk. þm. (GÍG) hefur glögglega sýnt fram á í áliti sínu, að raunverulega langmestur hlutinn af þessum upphæðum er tekinn af aðeins tveim aðilum hér í landinu. Það er sjáanlegt, hvert þetta stefnir. Þetta er út af fyrir sig ekkert annað en hefndarpólitík, sem rekin er hér í landinu, en það er ekkert nýtt, að hún sé rekin gagnvart öðrum þessum aðila. Hitt er annað, hvort á að láta Alþingi taka þátt í þessum árásum, því þær eru ekki betur séðar en það meðal þjóðarinnar, að flokkur hv. 9. landsk. (GÍG) tapaði stórkostlega fylgi við þær hjá þeim mönnum, sem áttu lífsafkomu sína undir sjávarútveginum, og þeir fengu svo mikla skömm á framferði Alþfl. í þessu máli, að margir þeirra snerust á móti honum. Það að reka hefndarpólitík er svo hál braut, að það er furða, að nokkur flokkur, sem vill telja sig ábyrgan í landsmálum, skuli fara inn á það. Ég vil einnig benda á það, að ef lesin eru nákvæmlega öll álit þeirra manna, sem voru í þessari n., kemur betur í ljós, að n. er algerlega ósammála um, að frv. skuli ná fram að ganga. Þeir telja, að málið þurfi að athugast betur, og það er raunverulega enginn, sem er með því, að frv. nái fram að ganga óbreytt, burtséð frá því, hvort gengið skuli inn á þá stefnu, sem hér á að marka. Það út af fyrir sig ætti að vera nóg til þess, að frv. yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, a. m. k. til betri undirbúnings og láta það koma fram í einhverri annarri mynd.

Ég vil í sambandi við nýbyggingarsjóðina minnast á, að í frv. er gert ráð fyrir, að sjóðirnir skuli ekki teknir, en ég vil benda flm. á það, að nú er svo komið — illu heilli —, að á Ísafirði er einn aðili kominn í greiðsluþrot m. a. vegna þess, að þessi aðili hefur ekki leyfi til að leggja til hliðar 1/3 af ágóðanum, vegna þess að þetta er bara einstaklingur, og nú er svo komið, að bæjarsjóður Ísafjarðar hefur þegar gert fjárnám í nýbyggingasjóðnum. Þetta er alvarlegt mál, og ég vil segja, að það er nauðsynlegt að spyrna hér fótum við og búa svo um, að hvorki sé hægt að nota þetta fé til þess að greiða taprekstur eða skatta til ríkis og bæja, og ef svo væri, yrði að setja það skilyrði fyrir þá aðila, sem hirða féð, að það yrði lagt til hliðar til endurreisnar sjávarútvegsins. Þetta þarf athugunar við, og veit ég, að allir þeir, sem vilja sjávarútveginum vel, vilja búa svo um, að ekki sé hægt að gera sjóðina að eyðslueyri. Þetta frv. gerir það að vísu ekki, en það gerir mönnum erfiðara að standa undir skuldbindingum sínum, þegar búið er að taka af þeim 33% af því, sem er umfram ákveðið hámark. Ég vil leyfa mér að benda á það í sambandi við útreikninginn á þessu, að vel gæti svo farið, að maður yrði ekki aðeins að greiða það, sem hann hefur handbært, heldur allar eigur sínar í þetta. Ég vil taka t. d., að maður, sem átti 200 þús. kr. fyrir stríð, hefði eignazt allt að einni millj. kr. og notaði það fé til þess að kaupa hlutabréf, sem stæðu í fimmföldu verði. Eign hans verður ekki meiri við þetta, en eftir þessu verði á hann að greiða skattinn. Þegar búið er að skatta hann, kanske með 50%, getur hann ekki gert annað en selja eignir sínar, og ef hann selur ekki góðu verði, er sjáanlegt, að eignirnar hrykkju engan veginn til þess að greiða skattana upp. Ætti hann að taka til láns, gæti hann aldrei komizt út úr þeirri skuld aftur, því að af hverjum 200 þús. kr. færu minnst 180 þúsund í ríkissjóðinn, svo að hann gæti aldrei greitt þær skuldir niður. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem ekki er hægt að komast fram hjá, enda kemur það skýrt fram í áliti mþn., að það þurfi að gera miklu skýrari reglur um mat á eignum en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Hv. 3. landsk. þm. (HG) gaf það svar við því, þegar ég spurði hann um, hverjir hefðu staðið undir erfiðleikunum frá 1930–1939, að það hefðu verið lánsstofnanirnar og almenningur. Ég vil bara benda honum á það, að fyrst og fremst báru áhættuna þeir menn, sem persónulega urðu með öllum sínum eigum að bera ábyrgðina á þeim skuldum, sem hvíldu á hlutafélögunum, og mun það vera einsdæmi hér á Íslandi, að menn verði að ganga í persónulega ábyrgð fyrir skuldbindingum hlutafélaganna, þegar eigur þeirra eru þrotnar. Þessi stefna gilti allan tímann, svo að það getur ekki farið fram hjá þessari hv. d., að það voru þessir menn, sem báru alla ábyrgðina. Mér er kunnugt um það, að á þeim tíma voru reyndar allar mögulegar leiðir. Það var reyndur samvinnuútvegur. Sá atvinnurekstur gafst upp, sumpart vegna þess, að starfsfólkið sjálft fékk ekki það, sem það þurfti, og sumpart vegna þess, að lánsstofnanirnar fengu þá reynslu, að þær vildu ekki lána til þessa. Nákvæmlega það sama reyndist um bæjarútgerðina. Í Hafnarfirði var hún að setja bæinn á höfuðið, og ég veit ekki, hvað hefði orðið, ef ekki hefði orðið sú breyting, sem þá varð á öllu atvinnulífi. Og þó var bæjarútgerðin það betur sett, að hún þurfti ekki að svara sköttum og skyldum af rekstri sínum. Það minnsta, sem hægt er að gera, er að halda atvinnurekstrinum áfram undir því formi, sem reynzt hefur heppilegast, en þetta er ekki gert, heldur er skorið á afltaugina á þeim rekstrinum, sem hefur gefið bezta reynsluna, ekki aðeins á góðu árunum, heldur betur en nokkur annar á hörðu árunum.

Ég vænti því, að þeir menn, sem eiga að ákveða um þetta hér í þessari hv. d., fallist á þau rök, sem hér eru borin fram í málinu, ekki aðeins af mér, heldur og af þeim, sem áttu sæti í mþn., og ekki einasta minni hl. þeirrar n., sem vildi fella frv., heldur af hinum líka, sem halda því fram, að frv. eigi ekki fram að ganga eins og það er.